Náttúruskynjun Listakonan Sigríður Björnsdóttir á vinnustofu sinni á Öldugötu 17.
Náttúruskynjun Listakonan Sigríður Björnsdóttir á vinnustofu sinni á Öldugötu 17. — Ljósmynd/Bjarni Grímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli | Myndverk 1950-2019 heitir ný bók um listakonuna Sigríði Björnsdóttur. Í bókinni er að finna yfirlit yfir myndlistarferil Sigríðar. Megingrein hennar fjallar um einstök tímabil á myndlistarferli Sigríðar, helstu áhrifavalda og sérstöðu meðal samtímamanna hennar í myndlistinni.

Hér er birtur inngangur Sigríðar sjálfrar að bókinni og valdir kaflar úr megingrein bókarinnar sem Aðalsteinn Ingólfsson skrifaði. Í grein sinni vísar Aðalsteinn til Dieters Roth fyrrverandi eiginmanns Sigríðar. Millifyrirsagnir eru blaðsins.

Hvaða Sigga?

„Hvaða Sigga?“

„Það er hún Sigga í grasinu, Sigga á spýtunni og hún Sigga í forinni.“

Þannig skilgreindi ég sjálfa mig þegar ég var fimm ára sveitastelpa á mannmörgu prestssetri og heyrði að vinnufólkið var að tala um Siggu (en þá voru fjórar Siggur á heimilinu) og einhver spurði: „Hvaða Sigga?“

Fyrstu 10 árin mín var pabbi sveitaprestur og stundaði líka búskap. Alltaf var mikil vinna í gangi, bæði úti við og inni við. Þetta var fyrir tíma véltækninnar og vinnukonur og vinnumenn unnu bústörfin með handafli. Foreldrar mínir voru jafnframt ávallt mjög uppteknir. Í minningunni finnst mér eiginlega að enginn hafi haft tíma til að skipta sér af mér. Ég kunni vel að meta frelsið, gerði það sem mér sýndist og var minn eigin herra.

Ég var öllum stundum úti í náttúrunni að leika mér, drullumallaði bæði kökur og eitthvað annað; ég raðaði steinvölum á ýmsan máta, fann fjöl sem ég lagði yfir læk og þar með bjó ég til brú yfir lækinn. Ég fann eitthvert spýtnarusl og bjó til úr því ýmislegt; lá á bakinu tímunum saman og horfði upp til skýjanna og sá stöðugt í þeim nýjar og nýjar myndir. Það voru endalausir möguleikar.

Mér finnst að þessi reynsla bernsku minnar sé sá kjarni sem myndlistin mín spretti frá...og að í henni séu líka endalausir möguleikar.

Leitandi og skemmtilega uppáfinningasöm

„Og einkenni á þeim verkum sem Sigríður gerir langt fram á sjöunda áratuginn, eins og raunar á verkum Dieters frá sama tíma, er hve leitandi og skemmtilega uppáfinningasöm hún er. Þessi verk eru sjaldnast mjög stór, flest um 30 x 50 cm, líklega gerð við eldhúsborðið undir lágnættið, eftir að börnin voru komin í háttinn. Þarna er um að ræða málverk á striga, tré, pappír, pappa, krossvið, masónít, álplötur og trétex. (Listakonan tók sérstöku ástfóstri við 25 x 25 sm trétexplötur sem henni áskotnuðust á Landspítalanum, vinnustað hennar til margra ára.) Myndirnar eru gerðar með olíulitum, bílalakki, akrýllitum, Hörpusilki, ritblýi, bleki, spraututækni, eggjárnum og gasbrennara. Við þetta bætast svo fótógrömm, pastelteikningar, þrykk og rifrildi á pappír og síðan allrahanda samkrull þessara miðla og efniviða, að viðbættum aðskotahlutum og lífrænum úrgangi.“

Blendingur nýraunsæis og súrrealisma

„Snemma á sjöunda áratugnum fer Sigríður einnig að sanka að sér og vinna með ýmislegt smálegt sem fellur til á hverju heimili: lok af dósum, kork- og málmtappa af flöskum, þynnur og skrúfbolta og annað sem henni þykir áhugavert, einkum ef það er kringlótt í laginu. Hringlaga trébúta og afskurð af plaströrum fær hún einnig að hirða á verkstæðum þar sem þau Dieter áttu hauka í horni. Þessi aðföng límir hún á tréplötur, málar þau í ýmsum litum eða þekur með einlita iðnaðarmálningu og lakki. Út úr þessum tilraunum koma áferðarmikil verk með „földu“ inntaki, eins konar blendingur nýraunsæis og súrrealisma. Síðan færir hún sig upp á skaftið og tekur til handagagns aflóga leikföng og púsluspil barna sinna og gæðir þau nýrri merkingu með því að skeyta þau saman á fleti og yfirmála. Á einhverju stigi lítur hún sennilega til safnara og samskeytisnillinga á borð við Arman og Daniel Spoerri, en sá síðarnefndi var einmitt í vinfengi við Dieter. En vinnubrögð Sigríðar eru hvergi nærri jafnskipuleg og þeirra, byggjast fremur á skyndilegum hugdettum en langvarandi yfirlegum. Fyrir það varðveita verk hennar oftlega með sér fölskvalausa leikgleði sem stundum fer forgörðum í yfirveguðum verkum þessara frægu starfsbræðra hennar.“

Málaðar „formleysur“

„Hvað varðar málaðar „formleysur“ Sigríðar, þá eru þær í heildina frjálslegri, óheflaðri og ófyrirséðari en verk íslenskra starfsbræðra hennar á tímabilinu 1957-1960, að hluta til fyrir það að hún kemur inn í frjálsa abstraktlist án viðkomu í strangflatalist, og þeim aga sem henni fylgdi. Í víðasta skilningi mætti flokka málverk hennar á þessu tímabili undir regnhlífarhugtakið „informalisma“, en þar er átt við verk sem verða til fyrir sjálfsprottnar og tilviljunarkenndar atlögur að striganum, áherslu á tjáningarmátt efniviðarins sjálfs og útilokun á viðteknum hugmyndum. Að vissu marki eru þessi verk tilvistarleg, framkvæmdin getur af sér inntakið, og við framkvæmdina verður listamaðurinn þess áskynja hver hann er.“

Vitund, innsæi og ímyndunarafl

„Sem innmúraður listmeðferðarfræðingur, ef ég má taka svo til orða, kappkostar Sigríður að rækja trúnað við eigin vitund, innsæi og ímyndunarafl, fremur en listasöguna og myndlistarstraumana í samtímanum. Raunar leggja listmeðferðarfræðingar fast að skjólstæðingum sínum að ganga á svig við allt sem heitir viðtekin aðferðafræði í myndlist. Sigríður notar myndir sínar fyrst og síðast til að greiða úr þeim tilfinningum sem að henni sækja hverju sinni, grennslast fyrir um uppruna þeirra og eðli og öðlast með því aukinn skilning á sjálfri sér sem manneskju og listamanni. Innbyrðis fjölbreytileiki verkanna er til marks um fjölþætt tilfinninga- og vitundarlíf hennar á hverjum tíma. Sigríður leggur sjálf áherslu á viðvarandi og órjúfanleg tengsl myndlistar og listmeðferðar í ævistarfi sínu. „Þegar ég lít yfir farinn veg finnst mér að öll mín verkefni hafi verið eitt allsherjar listmeðferðarprójekt,“ segir hún í nýlegu tilskrifi.“

Sterk formhyggja

„Samskeytinga- og aðskotahlutatímabilinu í myndlist Sigríðar lýkur á úthallandi sjöunda áratugnum og við tekur málaralist af ýmsu tagi. Hugsanlega má rekja þessi umskipti til sambandsslita þeirra Dieters, en með þeim rofnuðu tengsl listakonunnar við þann vettvang róttækra myndlistartilrauna sem þau höfðu bæði tilheyrt fram að því. Eftir sem áður er málaralist Sigríðar jafnfjölskrúðug og samsettu verkin á undan.

Hún einkennist hins vegar af sterkri formhyggju fremur en ófyrirsjáanleika og formleysu. Nærtækast er að tengja þá stefnubreytingu við endurnýjuð kynni þeirra Sigríðar og Eyborgar Guðmundsdóttur. Þær Eyborg höfðu kynnst um miðjan sjötta áratuginn, um það bil sem Sigríður sneri heim frá Danmörku. Þá hafði Eyborg ekki hafið myndlistarferil sinn, en hreifst af hreyfilistarverkunum sem Dieter kom með í farteskinu frá Kaupmannahöfn árið 1957. Að beiðni hennar féllst Dieter á að segja henni til í myndlist og gerði það meðan bæði voru á landinu. Árið 1959 var Eyborg síðan komin til Parísar, þar sem hún fann sér annan „mentor“, Victor Vasarely, og haslaði sér völl í formfastri op-myndlist. Þessa myndlist kynnti hún fyrir Sigríði í hvert sinn sem hún sneri heim frá París.“