[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svanhildur Sif Haraldsdóttir er fædd 18. desember 1959 á St. Fransiskusspítalanum í Stykkishólmi. „Ljósmóðirin hét systir Ernelia. Ég flutti tveggja ára á Akranes og bjó þar til 11 ára aldurs og frá Akranesi lá leiðin til Reykjavíkur.

Svanhildur Sif Haraldsdóttir er fædd 18. desember 1959 á St. Fransiskusspítalanum í Stykkishólmi. „Ljósmóðirin hét systir Ernelia. Ég flutti tveggja ára á Akranes og bjó þar til 11 ára aldurs og frá Akranesi lá leiðin til Reykjavíkur. Fyrstu árin ólst ég upp við rosalegar óveðurssögur frá Flatey á Skjálfanda, þar sem pabbi er fæddur. Þar komu ísbirnir mjög oft við sögu.“

Svanhildur gekk í Grunnskólann á Akranesi og Austurbæjarskóla. Hún fór í Keili 2008-2009, lauk BA-námi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands 2013 og MA-námi í félagsráðgjöf frá HÍ árið 2016.

Svanhildur bjó á Hvammstanga og vann þar hjá Verslun Sigurðar Pálmasonar, bæði á skrifstofunni og í verslun, á Laugarbakka og á Akureyri, en þar bjó hún í fjögur ár og vann á Leikskólanum Pálmholti. Svanhildur hefur búið í Kópavogi frá árinu 1997. Ári seinna hóf hún að reka Sumarbúðirnar Ævintýraland, fyrst á Reykjum í Hrútafirði og síðan í Borgarfirði. „Hugmyndin kviknaði þegar ég var barn í sumarbúðum á Ökrum á Mýrum en ég var þar tvö sumur. Markmiðið hjá mér var að hafa mikla afþreyingu og mikið val fyrir börnin. Við vorum með ýmis námskeið eins og myndlistarnámskeið, tónlistar- og dansnámskeið, leiklist, íþróttir, stuttmyndagerð sem var mjög vinsælt og ævintýranámskeið. Við fengum valkyrjur úr sveitinni til að vera með reiðnámskeið.Við vorum oftast með fimm til sjö námskeið í boði og alls konar afþreyingu þar að auki.“ Sumarbúðirnar voru reknar í fimmtán sumur.

Svanhildur opnaði vistheimili sem er skammtímavistun árið 2005, tók sér frí frá því þegar hún hóf námið en opnaði aftur skammtímavistunina á seinna árinu í meistaranáminu og hefur rekið það síðan. Hún er því að vinna fórnfúst og merkilegt starf sem er samt ekki hægt að ræða mikið um af persónuverndarástæðum. Svanhildur hefur enn fremur verið stuðningsforeldri frá 1997 og fósturforeldri frá árinu 2008.

Áhugamál Svanhildar eru fjölskyldan, útivist, gönguferðir, ferðalög og matreiðsla. „Mér finnst gott að ganga um þar sem eru miklar öldur. Ég labba oft um á ströndinni hjá veitingastaðnum Hafið bláa sem er rétt hjá Stokkseyri og mér finnst ég hlaða batteríin þar. Ég elska hafið, að horfa á það, ekki vera á því og því stærri sem öldurnar eru því æðislegra er að horfa á þær. Ég ferðast mest innanlands en líka erlendis og fór í siglingu um Karíbahafið í fyrra, það var mjög skemmtilegt.“ Svanhildur lætur sig mannúðarmál varða eins og sést á starfi hennar. „Ég hef alltaf haft áhuga á þeim og mér finnst sérstaklega átakanlegt þegar ranglætið og misskiptingin bitnar á börnunum og reyni að leggja mitt af mörkum.“

Svanhildur hélt upp á afmælið með pomp og prakt á laugardaginn. „Ég fékk óvænta afmælisgjöf en Ellen Kristjánsdóttir kom og söng í afmælinu. Svo ætla ég út að borða með börnunum mínum og fósturbörnum í dag.“

Fjölskylda

Börn Svanhildar með fyrrverandi sambýlismanni sínum, Sævari Erni Sigurbjartssyni, eru 1) Ellen Sif Sævarsdóttir, f. 7. október 1984, sálfræðingur, búsett í Kópavogi; 2) Davíð Sævarsson, f. 28. mars 1989, forritari, búsettur í Kópavogi. Fósturdætur Svanhildar eru Alena Elísa, f. 27.3. 1996, og Kara Nótt, f. 7.3. 2000.

Systkini Svanhildar eru Mínerva Margrét Haraldsdóttir, f. 2. júní 1955, tónlistarkennari og músíkþerapisti, búsett í Reykjavík; Guðríður Haraldsdóttir, 12. ágúst 1958, blaðamaður og prófarkalesari, búsett á Akranesi; Guðmundur Jónas Haraldsson, f. 28. janúar 1962, leikari, búsettur í Reykjavík. Hálfsystir samfeðra er Helga Arnfríður Haraldsdóttir, f. 7. nóvember 1967, sálfræðingur, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Svanhildar: Haraldur Jónasson, f. 1. desember 1930, d. 9. júlí 2001, lögfræðingur í Reykjavík, og Bryndís Jónasdóttir, f. 5. maí 1934, hjúkrunarfræðingur, búsett í Reykjavík.