Ekki er hjá því komist að minnast frekar á yfirvofandi sameiningu Seðlabankans og FME. Ásgeir segir að sú vinna standi nú yfir og gangi mjög vel.

Ekki er hjá því komist að minnast frekar á yfirvofandi sameiningu Seðlabankans og FME. Ásgeir segir að sú vinna standi nú yfir og gangi mjög vel. Fleiri áskoranir bíði þó, ekki síst í ljósi þess að til lengri tíma litið er ætlunin að koma allri starfseminni undir eitt og sama þakið. Bankinn hefur kallað eftir heimild til þess að byggja tvær hæðir ofan á núverandi húsnæði við Kalkofnsveg en Ásgeir segir þó að ekki séu uppi áætlanir á þessari stundu um að ráðast í slíkar framkvæmdir.

„Húsið er komið á fertugsaldur og komið undir viðhald. Það þarf að uppfæra margt. Starfsemi fjármálaeftirlitsins verður á Höfðatorgi enn um sinn. Við hyggjumst setja allan kraft í að koma þeim hingað inn. Það liggur meira á að laga húsið eins og það er en að byggja við það því ef við ætluðum að gera allt á sama tíma þyrftum við að flytja alla starfsemina burt í þrjú ár eða svo. Það voru 300 manns í húsinu þegar Reiknistofa bankanna og fleiri stofnanir voru hérna og samanlagt ættu að geta verið um 300 manns í húsinu þegar allt er komið í fastar skorður. Við erum að skoða hvernig við getum nýtt húsið betur. Hér er fyrirtækið Greiðsluveitan sem Seðlabankinn á og það er á leið úr húsi. Við munum leggja meiri áherslu á opin rými. Þannig er hefðin hjá FME og við erum að skoða þessa hluti.“

En gefst ekki tækifæri til þess að fækka fólki nú þegar stofnanirnar renna saman í eina?

„Það er ekki markmiðið með sameiningunni að fækka fólki.“

En er ekki æskilegt að leita leiða til þess þegar ráðist er í jafn umfangsmikla sameiningu og þessa?

„Við skoðum þessa hluti eins og aðra og ef við getum gert þá með hagkvæmari hætti en við gerum í dag þá munum við gera það. Tíminn leiðir það í ljós. Nýjum stjórnendum fylgja alltaf breytingar. Og breyttir tímar og breyttar aðstæður á hverjum tíma gera það að verkum að þessir hlutir eru eins og aðrir í sífelldri endurskoðun.“