[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, telur að MAX-vélarnar verði teknar í notkun á nýju ári. Hann segir hins vegar ekki hægt að útiloka þann möguleika að þær fari ekki aftur í loftið.

Enn verður dráttur á því að Icelandair Group geti tekið að nýju í notkun þær sex Boeing 737 MAX-vélar sem félagið hefur fengið afhentar, auk þess eru þrjár vélar komnar af framleiðslulínunni í Seattle sem ekki hafa enn verið afhentar. Vélarnar voru hluti risasamnings sem fyrirtækið gekk frá við flugvélaframleiðandann árið 2013 um kaup á 16 vélum af þeirri tegund. Áætlanir félagsins gerðu reyndar ráð fyrir að árið 2025 yrðu þær orðnar 26 talsins.

Bréf félagsins tóku dýfu

Félagið gaf út í gær að það gerði ekki ráð fyrir að kyrrsetningu vélanna, sem kom til í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa þar sem vélar af þessari gerð áttu í hlut, yrði aflétt fyrr en í maí næstkomandi en síðustu yfirlýsingar félagsins miðuðu við að það myndi gerast í marsmánuði. Eftir að tilkynningin barst markaðnum tóku bréf félagsins allnokkra dýfu enda ljóst að lengri kyrrsetning mun reyna á félagið. Lækkun í lok dags reyndist 3,4%.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að félagið finni sig nú í fordæmalausum aðstæðum sem hafi reynst mikið verk að leysa farsællega úr á síðustu mánuðum.

„Þetta reyndi verulega á síðastliðið vor enda kom kyrrsetningin til skömmu áður en sumarvertíðin hófst. Nú höfum við haft tækifæri til þess að undirbúa okkur fyrir mögulega áframhaldandi kyrrsetningu.“

Spurður út í á hvaða upplýsingum félagið byggi það mat sitt að vélarnar verði komnar í gagnið í maí segir Bogi að félagið sé í góðu sambandi við Boeing en þá sé það einnig í samskiptum við evrópsk flugmálayfirvöld.

Nú stefnir í að kyrrsetning vélanna muni því standa í að minnsta kosti 14 mánuði en þær raddir hafa einnig heyrst að sá möguleiki kunni að vera í stöðunni að vélarnar fari aldrei í loftið að nýju.

„Við göngum út frá því að þessar vélar fari í loftið í vor. Nú er í gangi mjög yfirgripsmikið ferli við að koma þeim aftur í notkun. Þá eiga þetta að verða öruggustu flugvélar í heimi.“

En þið getið ekki útilokað þann möguleika að vélarnar fari ekki aftur í loftið?

„Það er ekki hægt að útiloka neitt í þessu frekar en öðru.“

Búið að borga inn á fleiri vélar

Hann segir að félagið sé búið að borga inn á þær fimm vélar sem áætlanir hafa verið uppi um að taka í notkun á næsta ári, til viðbótar við þær níu sem nú þegar teljast til flota Icelandair. Raunar eigi það einnig við um þær tvær vélar sem eigi að bætast við árið 2021.

„Það er í samræmi við samninginn sem við gerðum við Boeing á sínum tíma. Við berum vaxtakostnað af þessum innborgunum en það er kostnaður sem við leggjum til grundvallar kröfum okkar á hendur Boeing vegna þess tjóns sem kyrrsetningin hefur valdið okkur.“

Í gær tilkynnti Icelandair að það hefði brugðist við lengri kyrrsetningu en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir með því að taka á leigu tvær Boeing 737-800 NG-vélar sem eru af svipaðri stærð og MAX-vélarnar. Auk þess vinnur félagið að því að fá aðra vél af sömu tegund á leigu innan skamms. Þá hefur félagið lagt tímabundið til hliðar áætlanir um að fækka 757-200-vélum í flota sínum en þær hafa undanfarna þrjá áratugi verið hryggjarstykkið í flota félagsins.

Bogi Nils segir að þessar ráðstafanir fari langt með að tryggja næsta sumar, jafnvel þótt svo illa færi að MAX-vélarnar sætu áfram sem fastast.

„Við þyrftum ekki að gera miklar breytingar á flugáætluninni frá því sem nú er,“ segir hann.

Fyrr á þessu ári greindi Icelandair frá því að félagið hefði tekið framtíðarflotastefnu sína til skoðunar. Þar væru þrjár sviðsmyndir til athugunar. Í fyrsta lagi að halda sig við vélar frá Boeing einvörðungu, í öðru lagi að vera með blandaðan flota Boeing- og Airbus-véla og í þriðja lagi að færa sig alfarið yfir til keppinautarins, hins evrópska Airbus.

Viðræður hafa staðið yfir við Boeing og Airbus um þessi mál en þær hafa verið í hægagangi að undanförnu. Skýrist það fyrst og fremst af þeirri óvissu sem er uppi vegna kyrrsetningar MAX-vélanna.

„Við viljum ekki taka svo stórar ákvarðanir meðan þessi óvissa er uppi. Það er ljóst að miðað við núverandi aðstæður virðast A-321LR-vélar frá Airbus vera álitlegur arftaki Boeing 757-vélanna en við höfum hins vegar viljað halda öllum kostum opnum.“

Um langt árabil hefur Boeing haldið notendum 757-vélanna, sem komnar eru til ára sinna, heitum með loforði um að árið 2025 yrði ný vélartegund, sem oft er nefnd NMA (New Midsize Airplane) eða hreinlega 797, tilbúin til afhendingar. Bogi Nils segist ekki hafa trú á því að þær tímasetningar muni standast úr þessu.

„Hver sem niðurstaðan verður með flotamálin þá er ljóst að við munum vera með MAX-vélarnar í flota okkar á komandi árum. Ef ákvörðun er tekin um að skipta alfarið yfir í vélar frá Airbus þá tekur það ferli allt að áratug. Það er mikil eftirspurn eftir vélum þaðan og þeim hefur ekki tekist að standa við áætlanir um afhendingu.“

Á sama tíma og Icelandair hefur tekist á við kyrrsetningu MAX-vélanna hafa nær stöðugar fréttir borist út á markaðinn vegna fyrirhugaðra umsvifa tveggja nýrra lággjaldaflugfélaga sem virðast í burðarliðnum. Bogi Nils segist fagna allri samkeppni en að umræðan um flugmarkaðinn sé þó á nokkrum villigötum.

„Ég óska þessum fyrirtækjum alls hins besta. Hins vegar set ég spurningarmerki við þá umræðu að það sé nauðsynlegt að tvö íslensk flugfélög séu starfandi hér. Heimamarkaðurinn er mjög mikilvægur og býr til ákveðinn grunn. Það er vissulega hægt að auka framboð og fólksflutninga til og frá landinu til skamms tíma með einhvers konar niðurgreiðslu flugfélaga en það er ekki sjálfbært til lengdar.“

Fá félög á stórum mörkuðum

Bendir Bogi Nils á að á miklu stærri mörkuðum séu gjarnan fá flugfélög með meginstarfsemi sína.

„Tökum dæmi af Finnlandi þar sem heimamarkaðurinn telur 5,5 milljónir manna. Helsinkiflugvöllur er mjög öflugur tengivöllur. Þar er aðeins eitt félag, Finnair. Ef við skoðum svo Danmörku, Noreg og Svíþjóð þá eru þar tvö millilandaflugfélög sem sinna 20 milljóna heimamarkaði. Það eru félög sem hafa gengið í gegnum krefjandi tíma. Það mætti einnig taka dæmi af Ítalíu. Það er ríflega 60 milljóna markaður. Þar er aðeins eitt stórt ítalskt félag. Enginn segir að samkeppni í flugi til og frá þessum löndum sé óviðunandi aðeins vegna þess að fá félög hafi höfuðstöðvar sínar þar.“

Bogi segir að hjá öllum flugfélögum á borð við Icelandair séu starfandi teymi sem hafi það eina markmið að skoða tækifæri til vaxtar á þeim mörkuðum sem þau starfa eða hafa áhuga á að brjóta sér leið inn á.

„Það eru á þriðja tug flugfélaga sem fljúga hingað. Þau vita nákvæmlega hvaða tækifæri eru hér og það á einnig við um fjölda flugfélaga sem ekki fljúga hingað núna. Ef það eru stórkostleg tækifæri til að fjölga mjög farþegum hingað á sjálfbæru verði munu þau sækja þau tækifæri. Það eru ekki aðeins íslensk fyrirtæki sem munu horfa til þess.“