Bókin Það er ekki að ástæðulausu að finna má sögur í öllum helstu trúarbrögðum um mikilvægi gestrisninnar.

Bókin

Það er ekki að ástæðulausu að finna má sögur í öllum helstu trúarbrögðum um mikilvægi gestrisninnar. Grikkir áttu söguna um fátæklingana Bacuis og Philemon sem sýndu dulbúnum guðunum Seifi og Hermesi samt alla þá gestrisni sem þau gátu og var fyrir vikið hlíft á meðan ruddalegum samborgurum þeirra var tortímt. Gestrisnin er líka ein af undirstöðum búddismans, þökk sé sögunni um fýluferð Búdda til bæjarins Pancasala. „Gestur var ég, og þér hýstuð mig“, segir í Matteusarguðspjallinu.

Breski rithöfundurinn Priya Basil hefur sent frá sér áhugaverða bók þar sem hún skoðar gildi gestrisninnar, og tengir við sum þau vandamál sem heimsbyggðin glímir við í dag allt frá brexit og matarsóun til loftslags- og innflytjendamála. Bókin heitir Be My Guest: Reflections on Food, Community and the Meaning of Generosity .

Basil bendir á að margt af því sem plagar mannkynið má í raun rekja til skorts á gestrisni. Flest erum við almennileg og rausnarleg við þá sem standa okkur næst, ættingja, nágranna, vinnufélaga og nærsveitarmenn en þegar kemur að fólki í fjarlægum löndum eða með gjörólíkar skoðanir þá er gestrisnin af skornum skammti.

Á yfirborðinu gæti boðskapur Basil virst barnalegur, og jafnvel væminn, en það leynist samt í honum sannleikskorn sem ekki er hægt að neita. Ef við lítum í eigin barm og yfir farinn veg, sem starfsfólk og stjórnendur, sem foreldrar, makar, synir og dætur, og sem manneskjur, þá sjáum við ef til vill að við höfum sjaldan tapað á því að sýna öðrum rausnarskap og gestrisni. Og kannski getum við gert enn betur svo að við köllum ekki yfir okkur bræði Seifs og Hermesar. ai@mbl.is