Herforinginn Gunnar Magnússon leggur á ráðin með sínum mönnum í KA-heimilinu á Akureyri í vetur.
Herforinginn Gunnar Magnússon leggur á ráðin með sínum mönnum í KA-heimilinu á Akureyri í vetur. — Ljósmynd/Þórir Tryggvason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Kristján Jónsson kris@mbl.is Handknattleiksþjálfarinn Gunnar Magnússon átti sviðið í íþróttafréttum gærdagsins. Gunnar greindi frá því að hann myndi ljúka störfum hjá Haukum næsta sumar og taka við karlaliði Aftureldingar.

Viðtal

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Handknattleiksþjálfarinn Gunnar Magnússon átti sviðið í íþróttafréttum gærdagsins. Gunnar greindi frá því að hann myndi ljúka störfum hjá Haukum næsta sumar og taka við karlaliði Aftureldingar.

„Ég er á mínu fimmta ári hjá Haukum. Í þessu starfi er viss kúnst að finna rétta tímapunktinn til að söðla um og erfitt að segja til um hvenær hann er. Ég tók í raun þá ákvörðun síðasta sumar að þetta tímabil yrði mitt síðasta með Haukaliðið. Ég velti því aftur fyrir mér í október og nóvember og komst að sömu niðurstöðu. Þetta er góður tímapunktur fyrir mig og félagið að láta staðar numið eftir fimm ár,“ sagði Gunnar þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær. Starfsumhverfi þjálfara í íþróttunum er ekki það öruggasta sem fyrirfinnst á atvinnumarkaði og ákvörðun sem þessa ná ekki allir að taka á eigin forsendum.

„Í því felast ákveðin forréttindi að geta kvatt félagið og leikmennina í góðu. Sérstaklega við þessar aðstæður þegar liðinu gengur vel og allt er í blóma. Maður er ungur ennþá og á nóg eftir í þjálfun. Ég kem þá frekar aftur seinna og þjálfa hjá Haukum. Mér hefur fundist algerlega frábært að starfa hjá Haukum. Þess vegna vil ég skilja vel við og halda dyrunum opnum þannig að maður gæti snúið aftur síðar frekar en að vera of lengi í einu því menn lenda oft í því í þessu starfi að brenna inni. Sjálfur hef ég aldrei verið lengur en fimm ár í starfi sem þessu og tel það vera ágætt viðmið.“

Gott starf unnið í Mosó

Gunnar þjálfar meistaraflokk karla hjá Haukum en er einnig íþróttastjóri handknattleiksdeildar. Hjá Aftureldingu bíður hans að þjálfa meistaraflokk karla en einnig yfirþjálfarastarf fyrir yngri flokka.

„Starf mitt hjá Aftureldingu verður mjög svipað og hjá Haukum. Ég mun taka þátt í að móta afreksstefnu félagsins og byggja upp yngriflokkastarfið. Í Mosfellsbænum er mikill metnaður og ég kannast við marga sem koma að starfinu hjá Aftureldingu. Það hjálpar til.

Ég veit að þar hefur verið unnið gott starf undanfarin ár. Fyrir mig er spennandi að vera áfram í metnaðarfullu umhverfi. Þegar maður hefur verið hjá Haukum í fimm ár er ekki auðvelt að fara í annað lið en metnaðurinn er mikill í Mosfellsbænum og við munum reyna að halda áfram því góða starfi sem þar hefur verið unnið af Einari Andra Einarssyni og fleirum. Þegar maður veit að tekið er við góðu búi þá hefur það mikið að segja,“ sagði Gunnar.

Velti þessu fyrir sér í sumar

Þegar Gunnar hafði gert upp hug sinn og náð samkomulagi við Mosfellinga vildi hann hafa þau mál uppi á borðum þótt enn sé seinni helmingur tímabilsins eftir.

„Ég var ekkert að opinbera til að byrja með að ég gæti hugsað mér að hætta hjá Haukum næsta sumar. En ég hef verið í góðu sambandi við Þorgeir (Haraldsson) og Aron (Kristjánsson). Þeir hafa verið vel upplýstir allan tímann og hafa skilning á þessu. Mörgum finnst það vera skrítinn tímapunktur að semja um þjálfun hjá öðru liði á næsta tímabili þegar þetta tímabil er aðeins hálfnað. Mér finnst hins vegar mikilvægt að vera heiðarlegur gagnvart leikmönnum og öllum sem eru í kringum liðið hjá Haukum. Allt einstaklingar sem ég hef átt frábært samstarf við.

Að ekki sé eitthvert leynimakk á bak við tjöldin sem kæmi í ljós eftir tímabilið. Ég vil frekar hafa hlutina uppi á borðum og fara ekki á bak við einn eða neinn. Auk þess þarf maður að taka ákvarðanir með einhverjum fyrirvara því þetta er jú mín atvinna. Eru þetta helstu ástæður þess að ég gekk frá mínum málum á þessum tímapunkti og tilkynnti það.“

Ekki laus við útþrá

Gunnar fæddist árið 1977 en hefur verið meistaraflokksþjálfari um langa hríð. Hefur stýrt karlaliðum hjá Víkingi, Víkingi/Fjölni, HK, ÍBV og Haukum auk þess að hafa verið í þjálfarateymi karlalandsliðsins í mörg ár og stýrt kvennaliði Fylkis/ÍR. Gunnar hefur unnið bikara með félagsliðum og til verðlauna með landsliðinu. Þar sem íslenskir handboltaþjálfarar hafa gert strandhögg erlendis síðasta áratuginn sérstaklega vaknar sú spurning hvort útþráin blundi ekki í Gunnari?

„Jú, það blundar svo sem í manni að fara í stærri deildir í Evrópu eins og þá dönsku eða þá þýsku. Maður skoðar reglulega hvað er í boði og þegar maður hefur metnað fyir þjálfuninni kitlar sú tilhugsun að reyna sig úti í heimi. Einhvern tíma í framtíðinni væri það spennandi en hugurinn er heima næstu árin. Það er alveg ljóst. Ég er þriggja barna faðir og með stóra fjölskyldu. Ekki er hlaupið að því að rífa fjölskylduna upp,“ sagði Gunnar en hann segist aldrei hafa verið í þeirri stöðu að fara í samningaviðræður við erlend félög. Fyrst og fremst hafi verið þreifað á honum að utan í gegnum tíðina.

„Ég var auk þess með langan samning við Hauka og var ánægður í því starfi. Að þjálfa Haukaliðið er í raun draumastarfið í handboltanum hér heima.“

Væri draumur að næla í bikar

Nú þegar gert verður hlé á Olísdeild karla fram í febrúar sitja Haukar í toppsæti deildarinnar með 23 stig eftir fjórtán umferðir. Gunnar er því skiljanlega ánægður með spilamennsku liðsins fram að þessu. „Ég vil kveðja á góðum nótum eins og ég segi og við erum í baráttu um alla titla í vetur. Auðvitað væri alger draumur að ná í titil á síðasta tímabilinu hjá Haukum. Við höfum spilað vel fyrir jól,“ sagði Gunnar en hvernig skýrir hann þann stöðugleika sem Haukar náðu í leik sínum strax í haust?

„Liðsheildin er öflug og hefur verið okkar sterkasta vopn. Um þessar mundir er verið að velja einhver úrvalslið fyrir jól og við eigum ekki neina leikmenn þar. Okkar styrkleiki hefur því verið hversu margir hjálpast að og hversu margir taka af skarið. Við erum með góða blöndu leikmanna. Annars vegar unga og efnilega leikmenn en einnig eldri leikmenn með mikla reynslu og leiðtogahæfni. Þegar meiðsli hafa gert vart við sig hefur tekist að leysa það án þess að tapa stigum.“

Deildin enn jafnari eftir áramót

Í síðustu umferð fyrir hlé töpuðu Haukar fyrir Stjörnunni í Garðabænum en höfðu ekki þurft að sætta sig við tap í fyrstu þrettán leikjunum. Garðbæingar eru jafntefliskóngar í vetur og eru í 8. sæti með 11 stig. Í þeim úrslitum kristallast væntanlega hversu sterk deildin er?

„Jú, deildin er afar sterk og þess vegna er ég hrikalega ánægður með að fara í jólafrí með öll þessi stig. Ef þú skoðar til dæmis lið Stjörnunnar þá eru þeir feikilega vel mannaðir með góða menn í öllum stöðum. Stjarnan hefur verið á mikilli uppleið og er í dag eitt besta lið landsins. Svo mættum við í TM-höllina og náðum ekki fram okkar besta leik. Þá fer illa gegn jafn góðu liði og Stjörnunni. Deildin er mjög jöfn og ég held að hún verði bara jafnari ef eitthvað er eftir áramót. Allir geta unnið alla og þannig verður það áfram. Þótt við séum á toppnum vitum við að mikið er eftir af deildakeppninni og við eigum eftir að spila við öll liðin sem eru nærri okkur í stigatöflunni.“

Hreint ekki verra að bregða sér af bæ

Gunnar er aðstoðarþjálfari landsliðsins sem keppir á EM karla í janúar. Hann er ekki óvanur því að fara með landsliðinu á stórmót. Er ekki svolítið snúið fyrir þjálfara félagsliðs að fara frá á miðju tímabili?

„Auðvitað verður maður að hafa góða aðstoðarmenn. Ég er með Maksim aðstoðarþjálfara og Fannar Karvel styrktarþjálfara auk þess sem Einar Jónsson (þjálfari 3. flokks karla) er í félaginu. Liðið er því í góðum höndum. Ég hef farið á ansi mörg stórmót og yfirleitt hefur það komið betur út en ekki. Leikmenn fá smá frí frá mér og ég frá þeim. Maður hefur verið ferskari í febrúar. Ef ég horfi á gengi liðsins undanfarin ár þá hefur gengi liðsins verið verst þegar ég hef ekki farið á stórmót í janúar. Auk þess vinnur maður þetta með sínum mönnum þótt maður sé staddur í öðru landi. En það eru aðrir á gólfinu á meðan og ég óttast það ekki,“ sagði Gunnar Magnússon í samtali við Morgunblaðið í gær.

Markahæstir

Haukur Þrastarson, Selfossi 109/11

Ásbjörn Friðriksson, FH 107/24

Guðmundur Á. Ólafsson, Aftureld 94/33

Kristján Örn Kristjánsson, ÍBV 93/0

Anton Rúnarsson, Val 89/46

Hergeir Grímsson, Selfossi 88/36

Breki Dagsson, Fjölni 86/27

Kristján Orri Jóhannsson, ÍR 81/0

Birkir Benediktsson, Aftureld 81/0

Leó Snær Pétursson, Stjörnunni 77/30

Tandri Már Konráðsson, Stjörnunni 76/0

Sturla Ásgeirsson, ÍR 75/35

Hákon Daði Styrmisson, ÍBV 75/31

Þorgrímur S. Ólafsson, Fram 70/7

Þorsteinn G. Hjálmarsson, Aftureld 68/0

Dagur Gautason, KA 67/6

Hafþór Már Vignisson, ÍR 66/0

Magnús Óli Magnússon, Val 65/5

Björgvin Þór Hólmgeirsson, ÍR 62/2

Mörk/vítaköst, byggt á hbstatz.is

Markvarslan

Sigurður Ingiberg Ólafsson, ÍR 17835,0%

Arnór Freyr Stefánsson, Aftureld 15532,3%

Lárus Helgi Ólafsson, Fram 15033,6%

Davíð H. Svansson, HK 14732,1%

Phil Döhler, FH 14432,5%

Jovan Kukobat, KA 13128,1%

Grétar Ari Guðjónsson, Haukum 12136,0%

Daníel Freyr Andrésson, Val 12136,6%

Bjarki Snær Jónsson, Fjölni 9627,4%

Varin skot/hlutfall varinna skota, byggt á hbstatz.is

Stoðsendingar

Haukur Þrastarson, Selfossi 80

Hafþór Már Vignisson, ÍR 56

Breki Dagsson, Fjölni 54

Tumi Steinn Rúnarsson, Aftureldingu 54

Einar Rafn Eiðsson, FH 51

Ásbjörn Friðriksson, FH 50

Atli Már Báruson, Haukum 48

Þorgrímur S. Ólafsson, Fram 45

Tjörvi Þorgeirsson, Haukum 44

Patrekur Stefánsson, KA 43

Dagur Arnarsson, ÍBV 42

Magnús Óli Magnússon, Val 36

Aki Egilsnes, KA 35

Fannar Þór Friðgeirsson, ÍBV 35

Tandri Már Konráðsson, Stjörnunni 35

Árni Steinn Steinþórsson, Selfossi 32

Kristján Örn Kristjánsson, ÍBV 32

Andri H. Friðriksson, Fram 32

Birkir Benediktsson, Aftureldingu 31

Byggt á hbstatz.is