Sólveig Þórhildur Helgadóttir fæddist 25. júní 1928 á Hvaleyri í Hafnarfirði. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði 7. desember 2019. Foreldrar hennar voru Guðbjörg Ólafsdóttir, f. 1895, d. 1930, og Helgi Þórðarson, f. 1893, d. 1976. Eftir andlát móður hennar ólst Sólveig fyrst upp með föður sínum og móðurömmu til sex ára aldurs, þegar móðuramma hennar lést. Upp frá því með föður sínum og uppeldismóður, Margréti Einarsdóttur, f. 1897, d. 1991.

Alsystkini Sólveigar: Gíslína Ragna, f. 1925, d. 1946, og Árni, f. 1926, d. 2013.

Systir Sólveigar samfeðra: Guðbjörg, f. 1940, búsett í Hafnarfirði.

Uppeldissystkini Sólveigar: Sigríður Ólafía Sigurðardóttir, f. 1925, d. 2013, María Erna Hjálmarsdóttir, f. 1930, d. 1999, Einar Sigurðsson, f. 1945, d. 1913.

Eiginmaður Sólveigar var Einar Jóhannsson frá Skálum á Langanesi, f. 1926, d. 1989. Þau gengu í hjónaband árið 1959.

Sambýlismaður Sólveigar frá 1994 var Jónas Jónsson, f. 1925, d. 2019.

Sólveig starfaði við umönnun og þjónustustörf, m.a. „Gamla elliheimilinu„ í Hafnarfirði, Reykjalundi, Sjómannastofunni í Reykjavík, Hjúkrunarheimilinu Sólvangi, St. Jósefsspítala og Fjölbrautaskólanum Flensborg.

Sólveig og Einar eignuðust tvo syni: 1) Marínó, f. 3. desember 1961, d. 26. janúar 2011. 2) Rögnvaldur Guðbjörn, f. 21. júní 1966, giftur Elísabetu Jónasdóttur, f. 1968. Þau eiga þrjú börn: 1) Sonja Rut, f. 1987, sambýlismaður hennar er Borja Alcober. 2) Einar Bragi, f. 1989, sambýliskona hans er Hrafnhildur Sigurðardóttir, sonur þeirra er Úlfur Ari, f. 2018. 3) Sólveig Lilja, f. 1998, unnusti hennar er Ari Ólafsson.

Sólveig kynntist Jónasi Jónssyni í september 1994 og voru þau lífsförunautar fram að andláti Jónasar í september á þessu ári. Lengst af bjuggu þau á Arnarhrauni í Hafnarfirði og síðan saman á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði.

Útför Sólveigar fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 20. desember 2019, kl. 13.

Það er komið að ferðalokum, elsku mamma, okkar vegferð endaði á hjúkrunarheimilinu Sólvangi þar sem við kvöddumst, sem á vel við því þaðan hófum við vegferðina saman, á fæðingardeildinni sem þá var.

Konan sem

þerraði tárin mín

sú sama og

græddi öll sárin mín.

Lífið fór hrjúfum höndum um mömmu í fyrstu, þegar hún var tveggja ára varð móðir hennar bráðkvödd og tók amma hennar við sem húsfreyja, hún lést þegar mamma var sex ára er naut stangaði hana. Mamma fékk berkla og dvaldi á Vífilsstöðum í um tvö ár og náði heilsu, við þetta flosnaði hún upp úr frekara námi og hún fór að sinna þjónustustörfum sem hún vann síðar við.

Mamma kynntist pabba þegar hún starfaði á Sjómannastofunni í Rvk, hann var sjómaður frá Skálum á Langanesi, þau giftu sig 1959. Hófu þau búskap á Laugavegi 74, síðar á Skúlaskeiði 16 í Hafnarfirð og eignuðust Marínó í desember 1961. Síðar flutti fjölskyldan upp á Öldugötu 46, pabbi lést 1989 og fáum árum seinna flutti mamma á Arnahraun þar sem hún bjó síðustu árin.

Konan sem

eldaði matinn minn

og hélt mér

í örmum sér, fyrst um sinn.

Í uppvextinum hélt mamma þeirri möntru að mér að ég væri fæddur undir happastjörnu og gæti flest, svo oft að þetta seytlaði inn í sjálfsvitundina og þykir mér það hafa styrkt mig og mótað mitt líf til góðs.

Bara einu sinni man ég eftir að hafa verið skammaður, þá staddur á heimili vinar míns, mamma hringdi og sagði mér að koma heim í mat, þegar ég möglaði man ég að röddin hækkaði og miðnafnið mitt var nefnt – þá var rétt að skottast heim!

Mamma var hæglát en oft ákveðin, í eina skiptið sem ég var kallaður til skólastjóra fyrir strákapör sem ég neitaði að hafa gert, fékk ég tvo kosti; að viðurkenna brot eða að hringt yrði í mömmu. Það var auðvelt val – sat ég á móti skólastjóranum meðan samtalið varaði og fann smá til með honum, ég fékk að fara út strax að símtalinu loknu – án áminningar.

Þetta er konan

sem kenndi mér flest er ég kann

elsku mamma mín

sem ætíð ég ann.

Eftir andlát pabba kynnist mamma Jónasi Jónssyni. Hann bjó á Arnahrauni 7 og mamma á Arnahraun 9, á milli húsanna er Sléttahraun, sem þau kölluðu Ástarbrautina, áttu þau gott og innihaldsríkt líf saman. Fyrir um tveimur árum fór heilsu Jónasar hrakandi og annaðist mamma hann eins vel og hún gat þar til hann fékk vistun á Sólvangi. Fyrir ári fór svo heilsu mömmu að hraka, flutti hún þá fyrst á Vífilsstaði og síðar til Jónasar á Sólvang. Í september fluttu þau svo saman yfir á nýjan og glæsilegan Sólvang, þar náði Jónas fáum nóttum á nýjum stað og lést í september.

Sú eina kona

sem fram á þennan dag

hugsar frekar um minn

en sinn eigin hag.

Mamma var yndisleg amma og átti þá ósk heitasta að verða langamma áður en dagur yrði að kveldi kominn, þá ósk fékk hún uppfyllta á síðasta ári þegar Úlfur Ari fæddist.

Elsku mamma ég kveð þig með miklum söknuði, þú varst einstök, þín verður sárt saknað, minningar um góða konu mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Því þó í lífinu

slái ég fullt af feilnótum

þá kenndir þú mér

að ganga á þessum fótum.

Þinn sonur,

Rögnvaldur.

Elsku amma Veiga hefur nú lokið sinni vegferð og ljósið sem tendrað var fyrir 91 ári slokknað. Veit ég að hún var hvíldinni fegin og skildi sátt við. Amma var fastur punktur í tilverunni og óraunverulegt til þess að hugsa að hennar muni ekki lengur njóta við.

Amma var hæglát og nægjusöm kona sem lét ekki mikið á sér bera en átti stóran stað í hjarta okkar sem stóðum henni næst. Það var stutt í húmorinn hjá henni og hún tók sjálfa sig ekki of hátíðlega. Heimsóknir til ömmu voru ljúfar, móttökurnar innilegar og hún lagði mikið upp úr því að eiga alltaf eitthvað gott með kaffinu.

Við barnabörnin vorum hér um bil fullkomin í augum ömmu og sama hverju við tókum upp á eða hversu misgáfulegar ákvarðanir við tókum hafði hún aldrei neitt út á það að setja. Hún tók bara undir vitleysuna og sagði „já, auðvitað!“ án þess að blikna.

Haustið 2017 bjó ég tímabundið í íbúðinni hennar ömmu, en hún hélt þá til hjá Jónasi hinum megin við götuna. Hófst dagurinn þá iðulega á því að rölta yfir til þeirra í kaffisopa og spjall. Í lok dags var svo ómissandi að líta aftur inn og ræða helstu atburði dagsins yfir rjómaís með súkkulaðisósu. Stundum var gripið í spil og hent í einn ólsen ólsen – sem að sjálfsögðu var spilaður samkvæmt Hvaleyrarreglum, þótt þær ættu það reyndar til að vera svolítið breytilegar. Þetta voru notalegar stundir sem ég hef saknað æ síðan og mun varðveita í minningunni um ókomna tíð.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi

og gæfa var það öllum er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Ömmu Veigu kveð ég með miklum söknuði og hjartans þökk fyrir allt og allt.

Sonja Rut Rögnvaldsdóttir.

Komið er að kveðjustund. Mín kæra Veiga systir er fallin frá eftir erfið veikindi síðustu misseri.

Veiga var stóra systir mín og ég hafði stundum á orði að hún væri svolítið eins og mamma mín en um leið var hún afar kær og traust vinkona. Okkar samskipti voru ljúf og góð alla tíð og gott var að eiga Veigu að í uppvextinum; hún bjargaði litlu systur úr ýmsum vandræðum og setti ofan í við mig þegar henni fannst þess þurfa.

Geðprýði var hennar aðalsmerki og hún sagði aldrei styggðaryrði um neinn eða við neinn. Skaplaus var hún þó ekki og hafði skoðanir á hlutunum.

Lífsbaráttan á árum áður var hörð, við sáum á eftir systur okkar, Gíslínu Rögnu, sem dó úr berklum. Veiga veiktist líka af berklum og þrátt fyrir að fá væga útgáfu af þessum sjúkdómi þurfti hún að dvelja á Vífilsstöðum í tvö ár. Það var erfitt fyrir unglingsstúlku að þurfa að yfirgefa heimilið og fermingu hennar var frestað í tvö ár vegna þessa. Þegar Veiga náði heilsu, sextán ára, þá var ekkert annað í kortunum en að fara að vinna. Veiga fór í vist til föðurbróður okkar, bjó þar og sinnti heimilinu. Nokkru síðar lá leið hennar og Öddu systur á elliheimili í Hafnarfirði þar sem þær systur réðu sig til starfa og fengu herbergi að búa í.

Við Veiga áttum það sameiginlegt að vera Hafnfirðingar í húð og hár. Veiga bjó þó ekki alla tíð í Firðinum en hún og eiginmaður hennar, Einar Jóhannsson, bjuggu um hríð á Laugavegi í Reykjavík. Ég var þá ung kona og vandi komur mínar til þeirra enda mátti alltaf búast við skemmtilegri stund. Þessar heimsóknir voru jafnframt mín gæfa því í eitt skiptið á Laugaveginum kynntist ég Sverri Ingólfssyni, sem átti eftir að verða eiginmaður minn.

Veiga varð ekkja árið 1989 þegar Einar féll frá. Þau áttu tvo syni, Rögnvald og Marinó, sem lést árið 2011.

Fimm árum síðar kynntist hún Jónasi Jónssyni sem varð lífsförunautur hennar næsta aldarfjórðunginn. Veiga og Jónas gengu ekki í hjónaband en voru alla tíð mikið fyrirmyndarpar. Þau bjuggu lengst af á Arnarhrauninu en á þessu ári saman á Sólvangi í Hafnarfirði. Jónas andaðist í lok september á þessu ári.

Við Sverrir eigum margar góðar minningar frá ferðalögum með Veigu og Jónasi. Við fórum í nokkur skipti út fyrir landsteinana og ferðuðumst um Portúgal og Spán.

Ekki voru bíltúrarnir síðri, gjarna á sunnudögum, og var ekið víða og margt rætt í þessum ferðum. Ævinlega voru þetta ljúfar og góðar stundir.

Veiga var þeirrar náttúru að vera heimakær en líka félagslynd. Hún hafði gaman af mannamótum og það var gaman að skemmta sér með henni.

Ég þakka systur minni samfylgdina - megi hún hvíla í friði.

Guðbjörg og Sverrir.

Við kveðjum í dag Sólveigu, sem í aldarfjórðung var samferðakona pabba okkar, Jónasar Jónssonar. Bæði höfðu þau misst maka sína þegar þau kynntust. Þau felldu hugi saman og áttu samleið alla tíð, þó svo þau vildu aldrei formlega gifta sig.

„Ást á áttræðisaldri“ var yfirskrift viðtals sem tekið var við þau og birtist í Morgunblaðinu í febrúar 1999. Þar lýstu þau einlæglega sínum fyrstu kynnum. Rómantíkin var komin inn í líf þeirra á ný og þau náðu vel saman. Þau lýsa tilhugalífinu og tilfinningunum, en þau höfðu bæði einhverja sektarkennd í byrjun. Synir og tengdadætur tóku hins vegar tildragelsi áttræðu unglinganna af stóískri ró og sagði Jónas þegar hann rifjaði það upp síðar að það hefði komið sér á óvart.

Bæði voru nokkuð vanaföst og tóku ekki í mál að rugla saman reytum, heldur voru þau til skiptis hvort hjá öðru í Bólstaðarhlíðinni eða Hafnarfirði. Síðar fluttu þau svo bæði í Arnarhraunið í Hafnarfirði, en í sitthvora íbúðina. Sólveig í nr. 9 en Jónas í nr. 7, þannig að aðeins Sléttahraunið skildi þau að, en þá götu kölluðu þau Ástarbrautina sín á milli. Jónas setti eftir flutning þeirra á Arnarhraunið saman þessa vísu:

Flestar rósir falla í dá

fái þær ekki hlýju.

Ein þó lifir ágæt á

Arnarhrauni 9.

Umhyggja, hlýja og gagnkvæmur stuðningur eru þau orð sem koma upp í hugann þegar sambandi þeirra tveggja er lýst. Vissulega rammað inn af nokkurri vanafestu og þrjósku sem þau hentu stundum gaman að sjálf. Synirnir sáu nú reyndar ekki alltaf húmorinn í því. Styrkur hvors þeirra lá á misjöfnu sviði, en saman voru þau sterk og ef þau höfðu tekið ákvörðun var það geirnegling sem fátt náði að hagga.

Þau nutu samverunnar og með árunum ílengdist Jónas hjá Sólveigu og bjuggu þau í raun saman. Þau fóru víða saman, í flestar útréttingar og tóku þátt í ferðum með eldri borgurum. Sólveig tók vel á móti gestum og var kaffibrauð iðulega á borðum.

Síðustu árin þeirra saman einkenndust því miður af veikindum. Jónas fékk heilablóðfall og bjó við skerta heilsu eftir það. Við komuna heim af spítalanum tók Sólveig ekki annað í mál en að vera hjá Jónasi sínum og steig þá inn að meiri festu en við höfðum áður upplifað. Þannig kom fram styrkur annars þeirra þegar hitt varð veikara fyrir.

Mótlætið undir það síðasta dró mjög skýrt fram hve samrýnd þau voru orðin. Ef fjarvera á spítala skildi þau að þá var iðulega spurt hvað væri að frétta af hinu og þegar þau svo hittust á ný var sem sól ljómaði í heiði og þau tóku gleði sína á ný.

Jónas fékk um síðir pláss á Sólvangi og eftir veikindi Sólveigar á þessu ári fékk hún einnig þar inni. Þau náðu þar að sameinast á ný, þökk sé lipurð starfsfólks á Sólvangi.

Við sendum fjölskyldu Sólveigar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Gylfi, Jón Halldór og Þórir Jónassynir og fjölskyldur.