Landað úr grænlensku loðnuskipi í Helguvíkurhöfn á Reykjanesi. Þessi agnarsmái fiskur hefur veiðst vel á Íslandsmiðum á undanförnum árum en nú hefur breyting orðið á.
Landað úr grænlensku loðnuskipi í Helguvíkurhöfn á Reykjanesi. Þessi agnarsmái fiskur hefur veiðst vel á Íslandsmiðum á undanförnum árum en nú hefur breyting orðið á. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lítið um loðnu og eru umhverfisbreytingar líklegur áhrifaþáttur. Fullorðna loðnan fer stöðugt norðar. Röskun í fæðiskeðju hafsins.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Hrun loðnuveiða hér við land má mjög líklega rekja til breytinga á umhverfisaðstæðum í hafinu. Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Sem kunnugt er fannst engin loðna við Íslandsmiðum á þessu ári og litlar líkur virðast á loðnugöngum á því næsta. Í samræmi við aflareglu strandríkja lagði Hafrannsókna- stofnun til nú í haust, í samræmi við fyrrgreinda reglu, að engar loðnuveiðar yrðu leyfðar á yfirstandandi fiskveiðiári. Sú ákvörðun verður endurskoðuð gefi mælingar á stærð veiðistofnsins ástæðu til.

Samkvæmt bergmálsmælingum nýlega er hrygningarstofn loðnu nú metinn 186 þúsund tonn. Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars næstkomandi verði yfir 150 þúsund tonnum og samkvæmt framreikningum munu markmið aflareglunnar ekki nást.

Ísþekjan á undanhaldi

Um ástæður loðnubrests nú beinast sjónir manna meðal annars að hlýnun sjávar fyrir norðan og vestan landið. „Hlýnunin á sér tvær orsakir,“ segir Einar Sveinbjörnsson. „Annars vegar kemur til innflæði hlýsjávar úr suðri fyrir vestan land og inn á norðurmið. Hluti þessa er vegna svokallaðrar AMO-sveiflu. Sú kemur á 70-80 á ára fresti, en hún skipti yfir í jákvæðan fasa laust fyrir aldamót og hefur svo verið síðan. Áþekk breyting varð hér við land upp úr 1920.“

Hin skýringin á breytingum í loðnunni – og ef til vill sú veigameiri – er sú að minna er um hafís úr norðri samfara því að ísþekjan í N-Ísahafinu hefur skroppið saman. „Áður var landfastur ís við Austur-Grænland úti fyrir Vestfjörðum að sumrinu og fram á haust. Á síðari árum hefur ísjaðarinn hörfað langt norður með ströndinni þegar minnst er um hafís. Fyrir vikið er útbreiðsla kalds pólsjávar hér við land minni en var,“ segir Einar.

„Ungloðnan heldur sig í og við pólsjóinn, á síðustu árum í mestum mæli við Austur-Grænland. Fullorðna loðnan fer stöðugt norðar í ætisleit. Sú spurning er áleitin hvort þessi löngu ferðalög loðnunnar eftir æti séu henni um megn. Orkufrek um of og langt að fara á bestu hrygningarslóðina á grunninu í Faxaflóa og Breiðafirði í áliðnum mars þegar vorblóminn í yfirborðssjónum byrjar að sýna sig eftir veturinn. Þessu má raunar líkja við sjófugla. Þó að þeir fljúgi langt eftir síli sjá allir að ef ætisleiðangrarnir eru stuttir aukast líkur á að koma ungum á legg.“

Hugsanlegur nýliðunarbrestur

Fyrrgreind þróun segir Einar Sveinbjörnsson að sé um margt svipuð því sem hefur verið raunin í Barentshafi, eins og fram kom í viðtali við Birki Bárðarson fiskifræðing í samtali við Morgunblaðið á dögunum. „Það er margt sameiginlegt í vistkerfunum í Barentshafi og við Ísland og á báðum hafsvæðunum er loðnan í lægð. Í þessum loðnustofnum er hugsanlega einhvers konar nýliðunarbrestur og ekki ómögulegt að sú hlýnun sem hefur orðið í sjónum síðustu ár hafi haft áhrif,“ sagði Birkir í viðtalinu. Þar kom einnig fram að engar vísbendingar séu um, hvorki við strendur Noregs og Íslands, að gengið hafi verið of nærri loðnustofnunum með veiði. Á báðum stöðum gangi ráðgjöfin út á að skilja nóg eftir til hrygningar og ráðgjöf hafi verið fylgt.

Loðnan er í svokölluðu þriðja fæðuþrepi vistkerfis sjávar. Neðar eru svifþörungarnir og dýrasvifið. Þorskfiskar, selir, sumir hvalir, og sjófuglar þurfa allir fæðu úr þessu þriðja þrepi. Þar er líka sandsíli og rækja. Sérstaklega er loðnan mikilvæg og meginfæðutegund þorsks sérstaklega mánuðina fyrir hrygningu hans. Þessi veruleiki kann líka að hafa áhrif, segja vísindamenn.

Óvissan um súrnun hafsins

„Stundum er sagt að loftslagsbreytingar hafi síður haft neikvæð áhrif hér á landi en gerist í öðrum heimshlutum. Þetta er mikil einföldun,“ segir Einar Sveinbjörnsson. „Við höfum lært að aðlagast sveiflum í náttúrunni og þar með hafinu en erum sérlega viðkvæm fyrir varanlegum breytingum og þegar röskun verður á viðkvæmri fæðukeðju hafsins. Mörgum spurningum er ósvarað enn og kenningar á lofti. Mest óvissan er ef vil um súrnun hafsins og áhrif hennar einmitt á lífríkið í sjónum sem við erum efnahagslega háð eins og gefur að skilja. Öflugar hafrannsóknir eru Íslendingum því afar mikilvægar.“