Kjartan Antonsson
Kjartan Antonsson — Morgunblaðið/Hari
Eftir Kjartan Halldór Antonsson: "Því var svo hvíslað að okkur að ástæðan væri líklega sú að kostnaður við þessar aðgerðir væri orðinn svo mikill á árinu að reynt væri að fresta öllum fram á næsta ár."

Sæl Svandís.

Konan mín liggur á hótelherbergi í Danmörku. Hún fór í liðskipti á hné í gær og var útskrifuð í dag. Hún fór tilneydd utan, þar sem hún hafði lengi verið mjög kvalin. Biðlistar hér heima virðast engan enda ætla að taka. Enginn á að þurfa að bíða lengur en þrjá mánuði. Hún beið í níu mánuði.

Aðdragandinn

Þegar hún var tvítug var ráðist á hana og í framhaldinu fór hún í aðgerð á hné. Síðan hefur hún farið í fimm aðgerðir á hnénu á nær 30 árum. Nú var ekki hægt að gera meira, bara liðskipti. Þriggja mánaða reglan er hlægileg, allir verða að bíða lengur en þrjá mánuði. Jú, sjáðu til Svandís, áður en kemur að þeim degi er hnéð bara farið, fólk leitar annarra leiða í lengstu lög. Fólk pantar loks tíma hjá heimilislækni, sem jafnvel getur tekið vikur að fá. Heimilislæknir pantar myndatöku og niðurstöður skila sér. Segjum að þetta ferli taki mánuð. Þá tekur við fyrsta biðin, að fá tíma hjá sérfræðingi, sem setur sjúkling á biðlista. Það tók þrjá mánuði fyrir konuna mína að komast á listann, en það var í júní sl.

Biðin

Biðin hér á landi er nú sögð um 12 mánuðir. Undarlegt er að biðlistarnir eru þrír, Reykjavík, Akureyri og Akranes, og mislangir. Evrópureglur segja að ef biðin er lengri en þrír mánuðir eigi sjúklingur rétt á utanför. Útbreiddur misskilningur er að allir þurfi að bíða í þrjá mánuði og geti svo sótt um, fólk má strax velja þá leið, ef fyrirséð er að bið sé lengri en þrír mánuðir. Vegna þessa misskilnings taka enn við þrír mánuðir hjá þeim sem treysta sér til að fara utan í aðgerð. Hinir bíða miklu lengur.

Konan mín sótti um utanfararleyfi snemma í september. Það var læknir á Klínikinni sem hjálpaði henni við það, þrátt fyrir að hún ætlaði ekki þangað. Vel gert. Vikurnar liðu án svars frá Sjúkratryggingum. Konan mín sendi því nokkrum sinnum fyrirspurn inn á mínar síður. Hún fékk alltaf svarið að umsókn hennar væri í vinnslu og hún yrði að bíða eftir svari á mínum síðum. Því var svo hvíslað að okkur að ástæðan væri líklega sú að kostnaður við þessar aðgerðir væri orðinn svo mikill á árinu að reynt væri að fresta öllum fram á næsta ár, vegna fjárlaga. Satt eða logið veit ég ekki, en klárlega voru reglur brotnar hvað mína konu varðar því stjórnsýslulög krefjast málefnalegrar meðferðar án tilefnislausra tafa. Hún hringdi líka og fékk sama svarið, henni yrði svarað á mínum síðum. Að endingu sagði hún stopp. Hún sagðist ekki taka þessu svari lengur, brotin væru lög á henni og hún krafðist svara. Það ótrúlega gerðist, Svandís, hún fékk svar í tölvupósti innan 10 mínútna! Það rennir stoðum undir það sem hvíslarinn sagði, aðgerðum væri frestað yfir á næsta ár. Ég vona að þú takir á þessu Svandís og gætir hagsmuna þeirra sem ekki hafa kjark til að segja stopp.

Utanför

Þegar leyfið var fengið, eftir allan þennan tíma, komum við að hæsta þröskuldinum. Hún þurfti að velja sjúkrahús sjálf í einhverju landanna sem þú ert með samninga við. Eftir það þurfti hún að hafa sjálf samband við það sjúkrahús. Hún þurfti sjálf að fara niður í Orkuhús og fá myndirnar, setja þær í pdf. form og senda. Hún þurfti að svara fimm spurningalistum frá sjúkrahúsinu um heilsufar, bæði á ensku og dönsku. Við lærum öll eitthvað í ensku og dönsku, en í kennslubókum er aldrei neitt um heilsu, veikindi og sjúkrahús. Ef við hefðum ekki átt góðan vin sem var nýbúinn að ganga í gegnum þetta sama, er ekkert víst að konan mín hefði komist í aðgerðina! Það er ekki fyrir hvern sem er að yfirstíga þennan þröskuld.

Mín von er sú, Svandís, að þú munir eftirleiðis tryggja jöfnuð og umhyggju fyrir okkur öllum í svona tilfellum. Kerfið andlitslausa, sem mætti konunni minni gerði ekkert til að hjálpa.

Það var nöturlegt að keyra með konuna sína út á flugvöll, á meðan ég keyri nánast daglega fram hjá Klíníkinni í Ármúlanum. Það er eitthvað svo rosalega rangt við það. Slík aðgerð mun kosta ca. 1,2 m.kr. hjá Klíníkinni en kostnaður erlendis er mun meiri og miklu meiri þegar ferðakostnaður er meðtalinn. Klíníkin getur stytt biðlistana og þjáningarnar. Það er ekki bara líkamlegur sársauki, það er kvíðinn, þegar fólki er kippt út úr samfélaginu í langan tíma. Fjárhagslegar áhyggjur og líðanin að finnast þeir jafnvel vera lítils virði. Óteljandi töflur af kvalastillandi lyfjum og svo má lengi telja.

Það var erfitt að kveðja á flugvellinum. Ég gat ekki farið með henni vegna fjárhags, ég varð að vinna. Dóttir hennar tók það að sér, en það breytti ekki því að konan mín var mjög kvíðin. Nú er aðgerðin búin og bjart fram undan. Kerfið andlitslausa lætur sig samt engu skipta þó að aðrir bíði í heilt ár, það hugsar bara um sig.

Er samkeppni orðin tóm?

Reglan um að fólk megi fara utan mun gilda innan EES. Hún á að tryggja virkni sameiginlega markaðarins. Nú spyr ég, er það ekki brot á samkeppnislögum og jafnræðisreglunni, að ríkið greiði fyrir þjónustu erlendis, en synji Klínikinni um samning, sem þó væri hagstæðari? Af hverju ferðu svona með almannafé? Er það út af pólitískri kreddu? Á fólk að þjást mánuðum saman út af kreddu?

Ég hlakka til að sjá svar þitt Svandís.

Höfundur er starfandi kranamaður.