Runólfur Guðjónsson athafnamaður fæddist 13. nóvember 1935 í Reykjavík. Hann lést á heimili sínu í Innri-Njarðvík 12. desember 2019.

Foreldrar hans voru Guðjón Runólfsson bókbandsmeistari, f. 9. júlí 1907, d. 16. september 1999, og Kristín María Gísladóttir bókbindari, f. 1. september 1908, d. 31. ágúst 1972. Þau eignuðust þrjú börn, en systkini Runólfs voru Gísli Hauksteinn Guðjónsson, f. 12. júlí 1931, d. 12. mars 2006, og eftirlifandi systir Margrét Guðjónsdóttir, f. 19. ágúst 1932.

Fyrri eiginkona Runólfs var Steinþóra Jóhannsdóttir, f. 10. mars 1939, d. 27. apríl 2004, þau skildu. Runólfur kynntist síðan ástkærri eiginkonu sinni, Inger Grétu Stefánsdóttur, árið 1972, f. 6. febrúar 1937 á Siglufirði. Þau hjónin bjuggu lengst af í Vogum á Vatnsleysuströnd og síðustu árin í Innri-Njarðvík.

Runólfur lætur eftir sig tvö uppkomin börn, Jón Hlíðar Runólfsson, f. 19. febrúar 1957, og Guðnýju Hildi Runólfsdóttur, f. 29. október 1960. Jón er giftur Eygló Jónsdóttur og saman eiga þau börnin Eyrúnu Ósk, Stein Hlíðar og Sindra Hlíðar. Sambýlismaður Hildar er Þórður Guðmundsson og börn hennar eru þau Alistair Jón Brown og Christine Patterson. Langafabörnin eru átta talsins.

Útför hans fer fram frá Innri-Njarðvíkurkirkju, í dag, 20. desember 2019, klukkan 13.

Elsku afi, við sitjum hérna systkinin Eyrún, Steinn og Sindri, börn Jóns, barnabörnin þín, ásamt langafabörnunum Óla og Ólavíu og rifjum upp allar góðu stundirnar.

Steinn Hlíðar rifjaði upp þegar við vorum lítil og heimsóttum ykkur í sumarbústaðinn í Grímsnesi, hvernig þú kenndir okkur nöfnin á öllum fjöllunum í kring og lést okkur segja þér svo hvað þau öll hétu og fengum við hundraðkall fyrir rétt svar.

Eyrún Ósk minnist þess síðan að við fengum alltaf hundraðkall líka fyrir að hlaupa úr heita pottinum og þvert yfir lóðina uppi í bústað í snjó og kulda á sundfötunum og að grindverkinu hinum megin svo við yrðum nú sterk og hraust. Okkur þótti það svo gaman og spennandi.

Sindri Hlíðar rifjar þá upp hvað þú varst sjálfur harður nagli og lést ekkert stoppa þig. Þú gekkst með súrefniskút á þér síðustu tíu árin, því lungun voru léleg, en samt varstu alltaf að smíða eitthvað í bílskúrnum, bát eða hjólhýsi. Þú lést ekkert halda aftur af þér. Og það er ekki mjög langt síðan við stóðum öll þrjú og horfðum á þig vaða út í Djúpavatn með súrefniskútinn í annarri og veiðistöngina í hinni og þú veiddir nokkra silunga í veiðiferð fjölskyldunnar.

Við munum einnig hvað þú varst mikill húmoristi. Einhverju sinni þegar Steinn var unglingur bjó hann sér til ristað brauð að morgni, með smjöri og osti, og settist við hliðina á þér. Þá greipstu brauðið, sleiktir það allt og spurðir svo „ætlar þú að borða þetta brauð?“ Þá hlógum við mikið og Steinn eftir lét þér brauðsneiðina.

Þú varst mikill dýravinur og munum við ekki eftir þér öðruvísi en með hund eða hunda þér við hlið. Eri, litli hundurinn ykkar ömmu, vék ekki frá þér. Þegar þú lést ætlaði amma aldrei að fá hann til að fara frá þér, hann var svo hryggur, litla dýrið. Hann sem geltir alltaf þegar gestir banka upp á til að láta ykkur vita var alveg þögull og grafkyrr þegar alla þessa ókunnugu gesti bar að garði daginn sem þú féllst frá. Nú huggar hann ömmu og passar hana fyrir þig.

Þið amma voruð óaðskiljanleg. Þið gerðuð allt saman. Og þið ferðuðust svo mikið, út um allan heim og svo komuð þið heim með alls konar dót sem var ekki til á Íslandi í þá daga. Þú varst einn af þeim fyrstu hér á landi til að fá þér ferðasímtæki og gekkst um allt með risatösku með síma á.

Óli barnabarnabarnið þitt saknar þín mikið, honum fannst svo gaman að fá alltaf páskaegg frá þér og svo alla þúsundkallana sem þú gaukaðir að honum. Þú varst líka svo glaður þegar Sindri kom í heimsókn til ykkar um daginn með myndir af Ólavíu litlu. Þér þótti svo vænt um öll langafabörnin þín níu, en Christine og Alistair, börn Hildar dóttur þinnar eiga auk þess sjö samanlagt. Og voru barnabörnin og langafabörnin þitt ríkidæmi.

Við söknum þín svo mikið. Við vorum samt glöð að vita að þú fékkst að deyja heima, í þínu rúmi, við hlið elsku ömmu. Við vitum að það var þér mikilvægt.

Takk fyrir allt, elsku afi, þín barnabörn,

Eyrún, Steinn og Sindri og langafabörn Óli og Ólavía.

Í dag kveð ég góðan og tryggan vin, vin til margra áratuga. Þá góðu vináttu vil ég þakka. Að lýsa lífshlaupi Runólfs, sem kallaður var Ronný, í örstuttri minningargrein er ekki auðvelt því með himinskautum þyrfti ég að fara ef koma ætti ævintýraferli hans eitthvað til skila.

Það sem hér fer á blað er aðeins lítið brot af hans starfsferli og öllum ævintýrum sem hann upplifði í flestum heimsálfum plánetu okkar. Fljótt kom í ljós mikill vinnuvilji. Að skyldunámi loknu fór hann 15 ára á togara, af togurum á fossana. 17 ára eignaðist hann söluturn sem hann rak um tíma. Frá þeim rekstri fór hann í skiparafvirkjanám, útskrifaðist sem skiparafvirki. Um leið og aldur leyfði tók hann bílpróf, keypti vörubíl og sótti á honum pússningarsand til Þorlákshafnar fyrir byggendur í Reykjavík. Ámokstur sá hann um sjálfur með eigin handafli með venjulegri malarskóflu. Í tvö ár lét hann sig hafa það á gamalli bíldruslu, án framrúðu, gallaði sig bara vel á vetrum.

Í framhaldi gerðist hann verktaki með vörubíla og tilheyrandi mannskap. Kom sér upp malbikunarstöð. Hann undirvann bílaplanið á Loftleiðum og malbikaði það. Tók að sér að fylla upp í Eyðið í Vestmannaeyjum með grjóti. Flutti Drápuhlíðargrjót af Snæfellsnesi til Reykjavíkur. Víða annars staðar bar hann niður.

Til Suður-Afríku flutti hann 1967. Fljótt gerðist hann verktaki þar, með vörubíla og tilheyrandi mannskap. Að tveim árum liðnum hætti hann þeim rekstri. Tók sæng sína og kodda og ók þvert yfir Suður-Afríku til vesturstrandarinnar. Þar var hann ráðinn sem aðstoðarrafvirki á stórt flutningaskip sem var á leið til Lundúna. Skipið lagði af stað norður með vesturströnd Afríku. Margir hörundsdökkir menn voru um borð. Þeir gerðu uppreisn á miðri leið sem barin var niður með vopnavaldi, án meiðsla. Öll áhöfnin var sett beint í steininn er til Lundúna kom. Þetta var stórt mál. Ronný var sleppt daginn eftir enda alsaklaus og var mynd af honum á forsíðu á einu stórblaða Lundúna. Hann gekk af þessu skipi og réði sig sem rafvirkja á stórt skemmtiferðaskip sem sigldi milli Lundúna og Rio de Janeiro. Eftir tvær ferðir til Rio de Janeiro réði hann sig á norskt flutningaskip. Svo ótrúlega vildi til að þar vantaði aðstoðarrafvirkja og var Ronný ráðinn. Olsen-línan hét þessi skipaútgerð, sem var með mörg stór flutningaskip. Ronný sá fljótt að margt þurfti að lagfæra um borð, þar á meðal matarlyftuna sem hafði verið biluð í tvö ár. Það stóð ekki á útsjónarsemi hans að lagfæra lyftuna. Mikil ánægja um borð. Þetta spurðist fljótt til höfuðstöðvanna í Noregi. Eftir nokkra mánuði var honum boðin yfirrafvirkjastaða yfir allan flotann sem hann þáði.

Eftir það flaug hann milla landa eftir því hvar skipin voru staðsett hverju sinni. Þessu góða starfi sagði hann upp og flutti alkominn til Íslands. Fór hann þá að framleiða sportbáta úr trefjaplasti og framleiddi á annan hundrað báta. Einum slíkum báti stýrði hann til sigurs við annan mann í hraðbátakeppni umhverfis Ísland 1978.

Með þessum orðum kveð ég góðan vin. Hvíli hann í guðsfriði.

Hafsteinn Sveinsson.