Mergjuð „Litir og myndskreyting bókarinnar er mergjuð og þar skín stjarna Kristínar skært,“ segir m.a. í gagnrýni um bók Kristínar Rögnu.
Mergjuð „Litir og myndskreyting bókarinnar er mergjuð og þar skín stjarna Kristínar skært,“ segir m.a. í gagnrýni um bók Kristínar Rögnu. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur. Bókabeitan, 2019. 208 bls. innb.
N ornasaga – Hrekkjavakan er fyrsta verk í þríleik höfundar og ekki hægt að segja annað en að upphafið lofi góðu. Sagan fjallar um forynju úr fornöld, Gullveigu að nafni sem ryðst inn í heim manna í gegnum galdragátt sem aðalpersónan Katla opnar fyrir slysni á hrekkjavökunni. Eftir það er fjandinn laus því Gullveig reynist framagjörn galdranorn sem ætlar sér að leggja mannaheima undir sig og beitir ýmsum meðölum til þess.

Sögusviðið er Reykjavík, einkum Skólavörðuholtið þar sem þekktar byggingar spila lykilhlutverk. Persónusköpun er nokkuð góð og aðalsöguhetjan Katla tilheyrir nútímafjölskyldu. Hún er skondin unglingsstúlka með nokkuð afgerandi persónueinkenni en að öðrum persónum ólöstuðum er hin forna Heiður máluð í skemmtilegum litum. Litir og myndskreyting bókarinnar er mergjuð og þar skín stjarna Kristínar skært. Þetta er ein af flottustu bókarkápunum í ár.

Höfundur sækir í menningararfinn og tvinnar saman goðheima, Völuspá, skrímslakort Guðbrands biskups Þorlákssonar frá 16. öld af Íslandi svo fátt eitt sé nefnt. Þetta er gert á skemmtilegan og frjóan hátt þar sem andstæðir heimar mætast; íslenskur raunveruleiki sem knúinn er áfram af sjálfhverfum, neyslufrekum og tæknivæddum Íslendingum endurspeglast í forynjum og goðum sem eru kannski knúin áfram af sömu kenndum og við hin. Sagan er æsispennandi, skemmtileg og fróðleg eins og níu ára dóttir rýnis komst að orði enda bókin lesin í einum rykk.

Verkið stendur vel eitt og sér en spennandi verður að fylgjast með Kötlu í næstu tveimur og gaman að sjá hvort hún fái svör við spurningum sínum eða þurfi mögulega að stíga inn í annan heim til þess.

Þórunn Kristjánsdóttir