Söngelsk Yoko Ono í heimsókn á Íslandi.
Söngelsk Yoko Ono í heimsókn á Íslandi. — Morgunblaðið/Golli
Er ekki alveg makalaust að enginn hafi haft orð á þessu við mig í 48 ár en síðan gera tveir menn það í sömu vikunni – við gjörólík tækifæri? Við erum sumsé að tala um það að japanska listakonan Yoko Ono sé vond söngkona.

Er ekki alveg makalaust að enginn hafi haft orð á þessu við mig í 48 ár en síðan gera tveir menn það í sömu vikunni – við gjörólík tækifæri? Við erum sumsé að tala um það að japanska listakonan Yoko Ono sé vond söngkona.

Fyrst vakti franskur félagi minn máls á þessu eftir bumbuboltann á þriðjudaginn, í gjörsamlega óspurðum fréttum. Hann er búsettur hér á landi en botnar hvorki upp né niður í því að þjóð sem á svona mikið af vandaðri jólatónlist sjálf skuli spila í útvarpinu erlend lög með vondum söngvurum. Og tók Yoko Ono sem dæmi.

Frómt frá sagt þá yppti ég bara öxlum og hugsaði ekki meira út í þetta fyrr en ég var að skjótast milli húsa í gærmorgun og Doddi litli vék orðum að þessu í Morgunverkunum á Rás 2. Til að gæta allrar sanngirni þá sagði Doddi litli ekki í svo mörgum orðum að Yoko Ono væri vond söngkona, eftir að hafa spilað jólalag með þeim hjónakornum, John Lennon og henni, í þættinum, en að hans áliti væri Jón (sem er eflaust svona kunningjanafn) klárlega betri söngvari.

Sjálfur þekki ég tónlistarferil Yoko Ono ekki nægilega vel til að geta myndað mér skoðun á málinu en ég hitti konuna einu sinni og hún er afskaplega elskuleg. Það dugar mér.

Orri Páll Ormarsson