Sumarnótt í Sundahöfn Farþegum með farþegaskipum hefur fjölgað mjög. Þeim fylgja verulegar tekjur, en umhverfisþættir eru til skoðunar.
Sumarnótt í Sundahöfn Farþegum með farþegaskipum hefur fjölgað mjög. Þeim fylgja verulegar tekjur, en umhverfisþættir eru til skoðunar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Aldrei hafa fleiri skemmtiferðaskip komið til Faxaflóahafna heldur en á árinu sem er að líða. Sömu sögu er að segja um fjölda farþega.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Aldrei hafa fleiri skemmtiferðaskip komið til Faxaflóahafna heldur en á árinu sem er að líða. Sömu sögu er að segja um fjölda farþega. Alls voru 190 skipakomur farþegaskipa til Faxaflóahafna, og þá aðallega Reykjavíkur, með 188.630 farþega. Fjölgun á skipakomum var 25% milli ára og fjölgun farþega rúm 30%.

Ef rýnt er í þróun á fjölda farþega með skipunum kemur í ljós að fyrir áratug voru farþegarnir alls um 70 þúsund. Þeim fækkaði síðan í 63 þúsund farþega 2011 en 2012 varð mikið stökk í farþegafjölda og voru þeir 92 þúsund það ár. Á síðustu fimm árum hefur fjöldinn farið úr um 100 þúsund farþegum í tæplega 189 þúsund á þessu ári.

Í hópi farþega hafa Þjóðverjar í fjölda ára verið fjölmennastir og voru tæplega 50 þúsund í ár, eða meira en fjórðungur farþega. Bandaríkjamenn og Bretar voru í næstu sætum, hátt í 40 þúsund farþegar frá hvorri þjóð. Aðrar þjóðir standa þessum þremur langt að baki, en rúmlega sjö þúsund Kanadamenn og Ástralar komu til Reykjavíkur með skemmtiferðaskipum.

Þessar upplýsingar koma fram í samantekt á heimasíðu Faxaflóahafna og þar eru rifjaðar upp niðurstöður könnunar 2018 sem sýndi að heimsóknir farþegaskipa skildu alls 16,4 milljarða eftir sig hér á landi. Um 920 heilsársstörf urðu til og mörg þeirra á landsbyggðinni.

Margir hafa tekjur af komu farþegaskipa. Þannig fær ríkið skatttekjur í formi vitagjalda og tollafgreiðslugjalda, hafnirnar fá tekjur af hafna- og þjónustugjöldum. Auk þessa fær fjöldi þjónustuaðila, birgja og umboðsmanna sneið af kökunni.

Svartolía á svörtum lista

Í samantektinni er vikið að umhverfismálum, en fyrir nokkrum árum undirrituðu Faxaflóahafnir og Hafnasamband Íslands áskorun (The Arctic commitment) um bann við notkun á svartolíu í Norðurhöfum.

Frá og með 1. janúar má brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti sem notað er hérlendis og í mengunarlögsögu Íslands ekki vera meira en 0,1% (m/m).

Með nýrri reglugerð sem Stjórnarráðið setti nú í desember verður tæplega mögulegt að nota svartolíu nema skip séu útbúin hreinsibúnaði og sá búnaður nægi til að brennisteinsinnihald fari ekki yfir 0,1%. Þetta er í takt við það sem Faxaflóahafnir og Hafnasamband Íslands hafa verið að falast eftir síðustu ár, að sögn Ernu Kristjánsdóttur, markaðs- og gæðastjóra Faxaflóahafna, sem vann samantektina.

Landtengingar stórra skipa vart mögulegar

„Þegar farþegaskip leggjast að bryggju í íslenskri höfn er slökkt á aðalvélum skipsins. Ljósavélarnar eru hins vegar áfram í gangi enda orkuþörfin mikil. Öllum skipum við bryggju er skylt að nýta sér rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis ef það er mögulegt. Það gildir auðvitað líka um stór skip eins og farþegaskip en dreifikerfi raforku eru því miður vanbúin til að veita slíka þjónustu enda kalla slík skip á háspennutengingar,“ segir í samantektinni.

Landtengingar draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun frá skipum í höfn. Árið 2016 var öllum þeim skipum sem geta tengst við höfn gert skylt að gera svo hjá Faxaflóahöfnum. Staðan er hins vegar þannig að íslenskar hafnir eiga að óbreyttu enga möguleika á að fjármagna landtengingar stórra skipa án verulegrar aðstoðar ríkisins, segir í skýrslunni.

Þar kemur fram að útgerðir farþegaskipa leggja áherslu á að endurnýja flota sinn samkvæmt bestu fáanlegri tækni og verja miklum fjármunum í að gera þau umhverfisvænni. Nú eru mörg farþegaskip knúin náttúrulegu gasi (LNG) og sífellt fleiri útbúin sólarrafhlöðum.

Öryggi og tillitssemi

Rúmt ár er síðan Ísland varð hluti af starfssvæði AECO, sem eru alþjóðleg samtök rekstraraðila leiðangursfarþegaskipa og samstarfsaðila þeirra á norðurslóðum, sem helga sig umhverfisvænum, öruggum rekstri skemmtiskipa þar sem sýnd er tillitssemi. Cruise Iceland og North Atlantic Agency á Íslandi eru meðlimir í AECO. Starfssvæðið nær yfir Svalbarða, Jan Mayen, Grænland, norðurhluta Kanada og norðurskautsþjóðgarðinn í Rússlandi, sem og Ísland frá árinu 2019.

Samtökin hafa unnið fjölda reglna sem meðlimum þeirra er skylt að fylgja, m.a. er varða starfsemi, dýralíf, gesti, ákveðna staði og annað. Í sumar munu líklega líta dagsins ljós leiðbeiningar frá AECO fyrir Seyðisfjörð. Þá hefur Umhverfisstofnun gefið út leiðbeiningar fyrir Friðlandið á Hornströndum.