Árna Steinunn Rögnvaldsdóttir fæddist í Hafnarfirði 5. maí 1932. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 6. desember 2019.

Foreldrar hennar voru Rögnvaldur Guðbrandsson, f. í Helludal á Snæfellsnesi 27.9. 1900, d. 28.2. 1983, verkstjóri hjá Slippfélaginu í Reykjavík, og k.h., Steinunn Þorkelsdóttir, f. í Lambhaga í Hraunum í Garðahreppi 14.6. 1895, d. 6.8. 1950, húsfreyja. Seinni kona Rögnvaldar var Ingibjörg G. Þórðardóttir, f. 25.8. 1909 á Vatneyri í Barðastrandarsýslu, d. 16.4. 1990.

Bræður Árnu Steinunnar voru Guðbrandur, f. 29.10. 1926, d. 12.12. 2002, bílamálarameistari í Reykjavík, Svanur, f. 14.12. 1929, fórst með Suðurlandinu 25.12. 1986, sjómaður í Reykjavík, og Már Rögnvaldsson, f. 19.8. 1942, d. 6.2. 2014, matreiðslumaður í Reykjavík. Hálfbróðir Árnu Steinunnar, sammæðra, var Þorkell Árnason, f. 17.1. 1924, d. 8.9. 2009, starfsmaður Reykjavíkurborgar. Uppeldisbróðir Árnu Steinunnar var Birgir Harðarson, f. 18.8. 1946, d. 26.6. 1987, forstöðumaður Eimskips í Norfolk í Bandaríkjunum.

Árna Steinunn giftist 1.5. 1954 Guðjóni Þ. Andréssyni, f. 29.3. 1933, d. 13.5. 2011, ökukennara og forstöðumanni Bifreiðaprófa ríkisins. Foreldrar Guðjóns voru Andrés Andrésson, f. 3.8. 1901, d. 13.5. 1984, bóndi í Berjanesi undir Austur-Eyjafjöllum, og k.h., Marta Guðjónsdóttir, f. 3.8. 1912, d. 9.10. 1993, húsfreyja.

Börn Árnu Steinunnar og Guðjóns: Steinar Þór, f. 20.5. 1955, d. 6.7. 2014, bifreiðarstjóri í Reykjavík og sjómaður, var kvæntur Maríu Jolanta Polanska, túlk og framkvæmdastjóra, en hún lést 24. ágúst 2018, og eru dætur þeirra María Magdalena Steinarsdóttir, f. 8.3. 1979, sjúkraliði og túlkur en maður hennar er Hjörleifur Björnsson framkvæmdastjóri. Börn Maríu og fyrrverandi sambýlismanns hennar, Ólafs Hákonarsonar, eru Kristófer Darri Ólafsson, f. 11.9. 2006, d. 17.5. 2010, og Emilía Þóra Ólafsdóttir, f. 14.4. 2009. Börn Maríu og Hjörleifs eru Viktoría Sól Hjörleifsdóttir, f. 12.1. 2013, Alexander Þór, f. 9.1. 2014, Ísabella Nótt, f. 4.10. 2015, og Benedikt Logi, f. 4.10. 2015.; Sandra M. Steinarsdóttir, f. 24.2. 1985, lögfræðingur og framkvæmdastjóri, en maður hennar er Kjartan Guðjónsson verktaki.

Hilmar Guðjónsson, f. 28.12. 1957, ökukennari, kvæntur Agnesi Henningsdóttur og eru börn þeirra Pollý, f. 23.1. 1987, flugverndarstjóri Icelandair; Guðjón Henning, f. 14.6. 1988, stjarneðlisfræðingur í doktorsnámi í Bonn í Þýskalandi við Max Planck Institute for Radio Astronomy, og Bragi, f. 15.10. 1994, nemi við Listaháskóla Íslands.

Marta Guðjónsdóttir, f. 28.7. 1959, borgarfulltrúi, gift Kjartani Gunnari Kjartanssyni blaðamanni og eru börn þeirra Vilhjálmur Andri, f. 20.9. 1982, lögfræðingur, en sambýliskona hans er Þórunn Anna Karlsdóttir heimilislæknir, og Steinunn Anna, f. 1.3. 1984, tómstunda- og félagsmálafræðingur í Reykjavík og jógakennari, gift Hallbirni Magnússyni leiðsögumanni og eru börn þeirra Vigdís Anna, f. 7.4. 2008, og Þórarinn, f. 3.3. 2011.

Raggý Björg Guðjónsdóttir, f. 28.7. 1959, sagnfræðingur og framhaldsskólakennari í Reykjavík en eiginmaður hennar var Ágúst Einarsson sem lést 24.12. 2011, forstjóri.

Árna Steinunn ólst upp í foreldrahúsum við Hverfisgötu í Hafnarfirði til 1938, en þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur í Þingholtin og var búsett þar síðan. Árna Steinunn var í Miðbæjarskólanum og lauk þaðan prófi frá gagnfræðadeild. Á stríðsárunum dvaldi hún sumarlangt hjá nunnunum í Stykkishólmi og var síðan í sveit á sumrin, í Katadal á Vatnsnesi, hjá hjónunum Ingibjörgu og Sigurði en hún hélt tryggð við þá fjölskyldu alla tíð síðan.

Árna Steinunn veiktist af berklum á unglingsárunum. Hún var átján ára er hún missti móður sína og dvaldi þá á Landakotsspítala. Hún var síðan á Vífilsstöðum um skeið, en eftir að hún náði bata stundaði hún verslunarstörf, m.a. við Laugavegsapótek, rak með eiginmanni sínum sportvöruverslunina Sportbæ í Bankastræti um skeið, starfaði við símavörslu um langt árabil og sinnti skrifstofustörfum fyrir bifreiðastjórafélagið Andvara fram yfir áttrætt.

Árna Steinunn var alla tíð áhugasöm um hönnun og listir. Hún sótti námskeið í myndlist, glerlist, keramik og vefnaði, var hæfileikarík við hönnun, snið og sauma og afkastamikil hannyrðakona.

Útför Árnu Steinunnar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 20. desember 2019, og hefst athöfnin klukkan 15.

Nú er hún tengdamamma látin. Ég hafði meira af henni að segja heldur en gengur og gerist almennt. Við hjónin keyptum íbúð í nýju húsi við Bauganes í Skerjafirði og fluttum þangað árið 1989. Ári síðar fluttu tengdaforeldrar mínir í þetta sama hús og voru nágrannar okkar síðan.

Mér er það minnisstætt hvað tengdamömmu var alltaf umhugað um jólaljósin utandyra, þegar fór að líða á desembermánuð. Það kom yfirleitt í minn hlut að ganga frá þeim málum og ég fékk oft að heyra það frá henni að best væri að gera það fyrr en seinna svo við lentum ekki í tímaþröng ef einhvers staðar vantaði perur eða nýja seríu. Ég var hins vegar íhaldssamur í þessum efnum: vildi helst ekki tendra jólaljósin fyrr en í fyrsta lagi daginn fyrir Þorláksmessu, auk þess sem í mörgu var að snúast í jólamánuðinum. Alltaf komust þó útiseríurnar á sinn stað áður en jólin voru hringd inn. Tengdamamma fyrirgaf mér slóðaskapinn og var alltaf jafn þakklát og innilega glöð þegar ljósin voru tendruð á svölunum og í trjánum í garðinum.

Þessi áhugi hennar og barnslega gleði yfir því að lýsa upp jólin þar sem annars væri skammdegismyrkur, var dæmigerður þáttur í hennar persónuleika. Hún var listræn og hæfileikarík, hafði sótt ýmis námskeið í listsköpun, hafði yndi af málverkasýningum og hljómleikum, hannaði flíkur og sneið og saumaði eins og lærður klæðskeri og prjónaði sokka, vettlinga og lopapeysur á barnabörnin og langömmubörnin. Hún hafði málað svolítið á sínum yngri árum og þegar ég fór að fikta við olíuliti á striga fyrir fáum árum fylgdist hún með af miklum áhuga og hvatti mig óspart til dáða.

Tengdamamma var óvenjuglæsileg kona, smekkleg í klæðaburði og virðuleg í framkomu. En hún var ekkert dekurbarn forlaganna. Hún var kominn af heiðarlegu og harðduglegu alþýðufólki sem lagði metnað sinn í að koma sér þaki yfir höfuðið og öllu sínu fólki til manns. Sjálf hélt hún glæsilegt heimili fyrir mann sinn og fjögur börn, auk þess sem hún lét sig ekki muna um að taka inn á heimilið hálfbróður sinn sem hafði veikst af heilahimnubólgu í barnæsku með alvarlegum afleiðingum. Um hann hugsuðu þau hjónin af alúð meðan hann lifði. Með þessa stóru fjölskyldu vann tengdamamma svo lengst af utan heimilis eftir að ég kynntist henni.

Og ekki dekruðu forlögin við tengdamömmu þegar kom að heilsunni og ástvinamissi. Hún veiktist af berklum á unglingsárunum, var lögð inn á sjúkrahús og dvaldi um skeið á Vífilsstaðahælinu.

Hún lá einmitt á Landakotsspítala, átján ára að aldri, þegar hún missti móður sína sem einnig hafði verið sjúklingur þar. Tengdamamma hafði átt þrjá albræður, einn hálfbróður og einn uppeldisbróður. Öllum þessum bræðrum sínum fylgdi hún til grafar. „Sorgin gleymir engum,“ segir í kvæðinu en sorgin hefur einmitt minnt óþyrmilega á sig í lífi tengdamömmu síðastliðinn áratug. Árið 2010 lést eitt af langömmubörnum hennar, í hörmulegu slysi, aðeins þriggja ára. Ári síðar lést eiginmaður hennar og á aðfangadag, sama ár, lést annar tengdasonur hennar. Sumarið 2014 varð annar sonur hennar bráðkvaddur og kona hans lést árið 2018. Þó að tengdamamma virtist sýna einstakt æðruleysi í öllum þessum þungu áföllum, segir það sig sjálft að þau tóku sinn toll. Hún sá á bak fimm ástvinum á einum áratug og er nú sjálf lögð af stað í þá ferð sem bíður okkar allra.

Einhverra hluta vegna var kveikt óvenjusnemma á jólaljósunum í garðinum í Bauganesinu í ár. Konan mín hafði orð á því við tengdamömmu þar sem hún lá á Borgarspítalanum, að nú væri búið að kveikja á útiseríunum. Það þótti henni saga til næsta bæjar og það gladdi hana eins innilega og áður. Fáum dögum síðar kvaddi hún þennan heim. Það er með virðingu, söknuði og þakklæti sem ég kveð þessa góðu konu. Hún var manni sínum góð eiginkona og frábær móðir, tengdamóðir, amma og langamma. Það er því vel við hæfi að hugsa til tengdamömmu hér eftir þegar jólaljósin byrja að lýsa upp skammdegið.

Kjartan Gunnar

Kjartansson.

Það er skrýtið og sárt að þurfa að kveðja hana ömmu sína í síðasta sinn, ekki síst á þessum árstíma þegar jólaannir eru að ná hámarki og hátíð ljóss og friðar í þann veginn að ganga í garð.

Það er auðvitað alltaf blessun, öllum börnum að fá að kynnast öfum sínum og ömmum. En við bróðir minn nutum þeirra forréttinda að hafa afa og ömmu í húsinu þar sem við ólumst upp. Við áttum í rauninni tvö heimili í sama húsi. Hjá afa og ömmu var kexskúffan aldrei tóm og nóg annað góðgæti í ísskápnum. Auk þess höfðu þau alltaf tíma fyrir ævintýri og erfiðleika ungra sálna og einhver góð ráð í pokahorninu þegar á þurfti að halda.

Amma var ekki bara amma, heldur vinkona mín. Hún kenndi mér að prjóna, leita í blöðum eftir fallega hönnuðum flíkum, sníða og sauma. Það var ekki öllum hleypt í saumavélina hennar. En ég fékk ung að spreyta mig á henni. Amma var góður kennari, vakti áhuga minn á verkefninu, hvatti mig til dáða og lét mig sjálfa leysa úr þeim vandamálum sem upp komu hverju sinni, en var samt alltaf til staðar ef eitthvað brá út af. Áður en langt um leið var ég sjálf farin að sníða og sauma á mig buxur og pils. Seinna, þegar ég var orðin móðir og amma orðin langamma, var það vel þegin tilbreyting að koma til hennar með það sem var á prjónunum eða það sem þurfti að sauma. Þá hafði amma ofan af fyrir börnunum og ég fékk að nýta saumavélina góðu.

Á þessum árstíma vorum við amma vanar að fara í bæinn, versla jólagjafir og kíktum síðan á kaffihús. Þegar heim var komið pökkuðum við inn gjöfunum, skreyttum pakkana og merktum þá. Amma var alltaf flott í tauinu, glæsileg og vel til höfð. Gelgjuskeiðið ruglaði mig aldrei svo alvarlega í ríminu að ég væri ekki stolt og glöð yfir því að fara með ömmu í búðir. Við vorum svo sannarlega vinkonur og vinátta hennar og umhyggja hefur alla tíð verið mér og síðan börnunum mínum mikils virði.

Elsku amma. Ég á ykkur afa mikið að þakka. Ég vona að þú sért kominn á hans fund og góður guð gefi ykkur báðum frið, ljós og gleði jólanna.

Steinunn Anna

Kjartansdóttir.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Valdimar Briem)

Í dag eru óneitanlega kaflaskil í sögu stórfjölskyldunnar okkar þegar við kveðjum hana ömmu hinstu kveðju. Á slíkri stundu er mér efst í huga hvað hún var alltaf blíð og góð við okkur barnabörn sín og langömmubörn, hvað hún fylgdist vel með högum okkar og lífsbaráttu. hvað hún var alltaf glæsileg kona og sterk persóna í lífsins ólgu sjó, fyrir sjálfa sig og aðra. Það var alltaf gott að eiga hana að og þau afi voru samhent í því að sína öllum sínum afkomendum umhyggju og stuðning.

Það er undarleg tilfinning að amma taki ekki lengur á móti okkur í Bauganesinu. En þá er gott að sækja styrk í minningarnar um yndislegar samverustundir.

Elsku amma mín! Ég þakka þér fyrir allar gleðistundirnar. Guð geymi ykkur afa og blessuð sé minning ykkar.

María Magdalena

Steinarsdóttir.

Elsku amma Lilla.

Ég trúi því varla að sú stund sé komin að við þurfum að kveðja þig. Aldur var afstæður í okkar samræðum, elsku amma mín, þú varst ávallt svo ung í anda. Ég minnist yndislegu samtalanna okkar með hlýju í huga en jafnframt sorg yfir því að þau verða ekki fleiri. Minningin um ömmu sem var jákvæð, góðhjörtuð og mikill húmoristi mun ávallt lifa í hjarta mínu.

Um undra-geim, í himinveldi háu,

nú hverfur sól og kveður jarðarglaum;

á fegra landi gróa blómin bláu

í bjartri dögg við lífsins helgan straum

(Benedikt Gröndal)

Hvíldu í friði, elsku amma.

Þitt barnabarn,

Sandra María Steinarsdóttir Polanska.

Kveðjustund getur verið tilfinningaþrungin og það er með söknuði en jafnframt þakklæti sem ég kveð ömmu í dag. Ég varð þeirra forréttinda aðnjótandi að alast upp í húsinu hjá ömmu og afa í Skerjafirði og ef hægt er að tala um umgjörð barnæsku og unglingsára er alveg víst að heimili þeirra var hluti af minni. Amma sýndi okkur barnabörnunum alltaf mikla umhyggju og væntumþykju og aðstoðaði okkur bæði í stóru og smáu. Þannig voru þær ófáar flíkurnar sem amma bætti, stytti eða saumaði á okkur en einnig stundirnar sem hún sat og hlustaði á sögur okkar barnanna, vandamál okkar á unglingsárum og vonir og væntingar okkar á fullorðinsaldri.

Ömmu er hægt að lýsa á marga vegu en hún var glæsileg kona sem sýndi reisn og styrk í mótlæti en var jafnframt hæversk og falleg í framkomu. Ég mun þó alltaf minnast hennar og muna eftir henni við eldhúsborðið heima. Þar sat ég svo oft andspænis ömmu og ræddi um allt og ekkert við hana. Sagði henni frá fyrsta skóladeginum mínum, fótboltamótum sumarsins, skólaböllunum og áskorunum menntaskólaáranna. Áhugi hennar og einlægni gerði sigrana sætari og sorgir og raunir bærilegri. Núna verða samtölin okkar ömmu ekki fleiri en sú endurminning er notaleg að síðasta samtal okkar var um framtíðina, heilræði ömmu til mín og tilvonandi eiginkonu minnar, Þórunnar Önnu, um hjúskapinn og hamingjuna.

Amma - Takk fyrir öll samtölin, þolinmæðina, stuðninginn og væntumþykjuna sem þú sýndir mér. Megi Guð varðveita þig og geyma.

Vilhjálmur Andri

Kjartansson.