Mývatn Framkvæmdir í Skútustaðahreppi voru stöðvaðar í haust.
Mývatn Framkvæmdir í Skútustaðahreppi voru stöðvaðar í haust. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta er það mikið frávik að það verður að breyta deiliskipulaginu,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er það mikið frávik að það verður að breyta deiliskipulaginu,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps.

Skipulagsnefnd hreppsins hefur lagt til við sveitarstjórn að hafna umsókn Neyðarlínunnar um framkvæmdaleyfi vegna heimarafstöðvar við Drekagil. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum fékk Neyðarlínan heimild frá Skútustaðahreppi og forsætisráðuneytinu í fyrra til að byggja „litla heimarafstöð“ í Drekagili við Öskju. Rafstöðin á að þjóna fjarskiptasendi á Vaðöldu og ferðaþjónustuskálum.

Vettvangsskoðun leiddi í ljós að framkvæmdir í haust voru hvorki í samræmi við gildandi skipulag né þá framkvæmd sem sótt var um; stífla sem átti að vera 1,5 metrar reyndist vera tæpir ellefu metrar. Var framkvæmdin því stöðvuð.

Umsókn Neyðarlínunnar um nýtt framkvæmdaleyfi felur í sér breytingar á framkvæmdinni og kemur í kjölfar fundar með sveitarstjóra og skipulagsstjóra hinn 4. desember. Skipulagsnefnd telur hins vegar að umrædd framkvæmd sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.

„Þetta er að sjálfsögðu jákvætt verkefni en það verður að fara eftir lögum og reglum sem gilda um skipulagsmál. Þetta er að þróast í rétta átt af hálfu Neyðarlínunnar,“ segir Þorsteinn sveitarstjóri.