Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir mikil tækifæri í mannlausum loftförum, en þau hafa sínar takmarkanir.
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir mikil tækifæri í mannlausum loftförum, en þau hafa sínar takmarkanir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjá Landhelgisgæslunni er viðburðaríkt ár að baki og hefur mikið álag verið á starfsmönnum stofnunarinnar. Forstjórinn hrósar öllum viðbragðsaðilum fyrir fagmennsku þeirra, en bendir jafnframt á að fjárfestinga er þörf til þess að gæslan hafi þá viðbragðsgetu sem þörf er á.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Það hefur verið nóg um að vera hjá Landhelgisgæslunni á árinu sem er að líða, að sögn Georgs Kr. Lárus- sonar, forstjóra Landhelgisgæslunnar, sem segir jafnframt alla viðbragðsaðila hafa mátt þola mikið álag „þegar umfangsmikil verkefni eru annars vegar. Því skiptir öllu að það séu valdir menn og konur í hverju rúmi“.

„Eins og svo gjarnan er hjá Landhelgisgæslunni hefur árið verið annasamt á öllum vígstöðvum. [...] Landhelgisgæslan er svo heppin að búa yfir öflugu og vel þjálfuðu starfsfólki sem þarf að glíma við hin ýmsu mál og þarf að vera til taks þegar mikið liggur við. Það sýndi sig enn og aftur á dögunum þegar óveðrið geisaði um allt land. TF-LIF var flogið til Akureyrar þar sem hún var til taks auk þess sem varðskipið Þór sinnti hinum ýmsu verkefnum á Norðurlandi eins og séraðgerða- og sprengjueyðingardeild stofnunarinnar. Á bak við skipulagningu og samskipti voru svo varðstjórar í stjórnstöð og starfsmenn aðgerðasviðs. Allir sem að þessu komu stóðu sig óaðfinnanlega.“

Þá hafa „hefðbundin Landhelgisgæsluverkefni verið fyrirferðarmikil eins og alltaf er. Það er óhætt að segja að árið hafi verið viðburðaríkt,“ segir Georg. Þyrluútköllum fækkaði þó milli ára, en 2018 var líklega einstakt ár í þeim efnum enda var það metár ef litið er til fjölda útkalla. Það ár voru heildarútköll flugdeildar Landhelgisgæslunnar 278.

Þrekvirki á Norðurlandi

Óveðrið sem gekk yfir landið 11. og 12. desember fór líklega ekki fram hjá mörgum landsmönnum og urðu víða skemmdir auk þess sem sumir landshlutar urðu rafmagnslausir í marga daga. Þá er víða enn rafmagnsdreifikerfi í viðkvæmri stöðu og hafa ráðamenn meðal annars sagt veikleika hafa afhjúpast í óveðrinu. Forstjórinn segir Landhelgisgæslunni hafi gengið vel að takast á við þær aðstæður sem sköpuðust.

„Áhöfnin á Þór og sérfræðingar unnu þrekvirki þegar tókst að sjá Dalvík og nærliggjandi byggðarlögum fyrir rafmagni. Þetta var í fyrsta skipti sem varðskipið Þór var nýtt sem hreyfanleg rafstöð. Við hönnun skipsins var horft til þess að mögulegt yrði að senda rafmagn í land þar sem þörf væri á vegna rafmagnsleysis. Það var einstaklega ánægjulegt að geta aðstoðað íbúa með þessum hætti og sýnir vel hve miklu máli skiptir að varðskipin séu vel tækjum búin til að takast á við allskyns verkefni,“ segir Georg.

Forstjórinn segir margar hendur hafa komið að málum þegar óveðrið skall á og að samvinna starfsmanna Landhelgisgæslunnar og annarra viðbragðsaðila hafi verið til fyrir- myndar. „Áhöfnin á varðskipinu Þór stóð í ströngu alla vikuna sem og áhöfnin á TF-LIF sem var til taks fyrir norðan daga og nætur. Starfsmenn varnarmálasviðs brugðust hratt og örugglega við þegar óskað var eftir C 130 Herkúles flugvél frá danska flughernum sem flutti starfsmenn séraðgerðasviðs og björgunarsveitarfólk á Akureyri.

Landhelgisgæslan er Dönum afar þakklát fyrir hversu hratt þeir brugðust við. Um leið og við óskuðum eftir aðstoð sneru þeir flugvélinni við sem var á leið til Grænlands með jólavarning. Það er ómetanlegt að eiga þess kost að geta leita til nágrannaþjóðanna þegar mikið liggur við. Allir voru boðnir og búnir að hjálpa okkur. Norðmenn voru einnig tilbúnir að senda flugvél frá Noregi en svo vel vildi til að danska vélin var hér við land.“

Það voru starfsmenn séraðgerða- og sprengjueyðingardeildar sem fóru með dönsku vélinni og tóku þeir að sér skipulagningu öryggismála vegna leitarinnar að drengnum sem féll í Núpá. Var sú skipulagning gerð í samvinnu við lögreglu og aðra viðbragðsaðila, en stjórnun á leitinni var flókin, að sögn Georgs. Það var síðan áhöfnin á TF-LIF sem kom auga á unga piltinn sem féll í ána. Var það einnig hlutverk þyrlunnar að fljúga með sérfræðing Landsnets í þeim tilgangi að kortleggja skemmdir á rafmagnslínum.

„Það er á svona stundum sem það sést glögglega hversu vel viðbragðsaðilar á Íslandi vinna saman og eru mikið fagfólk. Björgunar- sveitir, slökkvilið, lögregla, Landhelgisgæslan og aðrir. Allir stóðu sig frábærlega og eiga hrós skilið fyrir aðkomu sína,“ segir hann.

Ekkert skip við eftirlit

Er forstjórinn er spurður hvort nokkurt skip hafi sinnt eftirliti á meðan varðskipið Þór hafi séð Dalvík fyrir rafmagni, segir Georg svo ekki vera og að takmörkuð fjárframlög hafi orðið til þess að ekkert skip gæslunnar hafi verið á sjó hluta þess tíma sem Þór var við bryggju fyrir norðan.

„Landhelgisgæslan gerir út tvö varðskip og tvær áhafnir. Það þýðir að yfir vetrarmánuðina er siglingaáætlun Landhelgisgæslunnar þannig að annað skipið er þrjár vikur á sjó á meðan hitt er þrjár vikur í höfn. Æskilegast væri að hafa þrjár áhafnir til að geta haft tvö skip á sjó stóran hluta ársins en það kostar fjármuni sem við eigum ekki. Fyrstu dagana á meðan varðskipið Þór var bundið við bryggju á Dalvík var fasta áhöfnin á Tý í fríi. Ráðstafanir voru gerðar til þess að manna Tý ef mikið hefði legið við.

Þarfagreining og áhættumat Landhelgisgæslunnar gerir ráð fyrir að ætíð séu tvö varðskip á sjó hverju sinni með sambærilega getu og Þór, það er skip með yfir 100 tonna toggetu, vel búið til björgunar- og slökkvistarfa og af þeirri stærð að það geti athafnað sig í þeim veðrum og því sjólagi sem við búum við á Íslandi. Eins og staðan er í dag er annað varðskipið á sjó hverju sinni en æskilegast væri að þau væru tvö á sjó stærstan hluta ársins. Til þess að svo gæti orðið þyrfti að hafa þrjú varðskip í rekstri auk þriggja áhafna. Í dag eru tvö varðskip í rekstri og tvær áhafnir. Eins væri mögulegt að auka úthaldsdaga með tveimur skipum ef við hefðum þrjár til fjórar áhafnir.“

„Stjórnvöld búið vel að Landhelgisgæslunni“

Hins vegar bendir Georg á að dómsmálaráðherra hafi fengið verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækið NAVIS til að gera þarfagreiningu á varðskipaflota Landhelgisgæslunnar og telur forstjórinn þetta fyrsta skrefið í endurnýjun flotans. „Þá fögnum við því að heimild hafi verði veitt til að selja varðskipin Ægi og Tý. Skipin hafa staðið fyrir sínu í gegnum tíðina en eru komin til ára sinna. Ægir hefur ekki verið í hefðbundnum rekstri í rúm fjögur ár og ekki er til fjármagn til að koma skipinu í nothæft ástand. Á næstu árum er því fyrirséð að endurnýja þarf varðskipaflota Landhelgisgæslunnar.“

Breytingar á skipaumferð og þróun á hafinu umhverfis landið undanfarin ár hefur breytt starfsumhverfi Landhelgisgæslunnar talsvert, að sögn Georgs. Skemmtiferðaskipin sem hingað koma séu orðin fleiri, auk þess sem bæði flutningaskipin og fiskiskipin hafa orðið stærri. Bætist við að umferð um hafsvæðin umhverfis Ísland hefur aukist og „siglingaleið stórskipa yfir Atlantshafið liggur oft á tíðum innan íslensks hafsvæðis þar sem sjófarendur nýta sér veðurupplýsingar til að krækja fyrir lægðagang í Norður-Atlantshafi“.

Georg tekur sérstaklega fram að það sé „mikilvægt að halda því á lofti að stjórnvöld hafa búið vel að Landhelgisgæslunni á undan- förnum árum. Við erum með tvær nýlegar leiguþyrlur, þyrluáhöfnum hefur verið fjölgað um eina, við erum með nýlegt varðskip sem og nýlega flugvél. Fyrir þetta erum við þakklát.“

Nýjar þyrlur 2023 eða 2024

Talsverð nútímavæðing hefur átt sér stað innan gæslunnar ef litið er til þess að leiguþyrlum gæslunnar, TF-GNA og TF-SYN, var skipt út fyrir nýrri leiguþyrlur af gerðinni Airbus H225 þyrlur, að sögn forstjórans sem jafnframt segir TF-EIR og TF-GRO vera fullkomnari en þær eldri. „Þær fljúga hraðar, hafa meira flugþol og draga lengra. Með þessari breytingu má segja að flugdeild Landhelgisgæslunnar hafi stigið stórt skref inn í nútímann. Þyrlurnar voru teknar í notkun í sumar og hafa reynst afar vel. Það var hraustlega gert hjá flugdeildinni að innleiða þessar nýju þyrlur á jafn skömmum tíma og raunin var. Þjálfun var umfangsmikil og tímafrek. Allir lögðust á eitt og útkoman er glæsileg. Allt er þetta gert til þess að auka þjónustu við sjófarendur og almenning.“

Leiguþyrlurnar eru hins vegar ekki komnar til að vera og eru þær hugsaðar til þess að brúa bilið þangað til nýjar þyrlur verða keyptar til landsins, en endurnýjun þyrluflotans mun fara fram á næstu árum. „Það er mikil- vægt framfaraskref fyrir Landhelgisgæsluna og þjóðina alla,“ segir forstjórinn og vísar til þess að stjórnvöld samþykktu árið 2017 að stefnt skyldi að því að festa kaup á þremur nýjum björgunarþyrlum og hefur undirbúningur verkefnisins staðið yfir á þessu ári.

Þá byggist ákvörðun um endurnýjun björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar á skýrslu stýrihóps dómsmálaráðherra og tekur framkvæmd verkefnisins mið af þeirri skýrslu, útskýrir Georg. „Gert er ráð fyrir því að TF-LIF, eina þyrlan sem Landhelgisgæslan á verði seld en endaleg ákvörðun um tímasetningar og hvenær það ferli hefst hefur ekki verið ákveðið. Útboðsferlið hefst um miðjan janúar en það er í höndum Ríkiskaupa.“ Samkvæmt áætlun er stefnt að því að ganga til samninga við framleiðanda á síðari hluta næsta árs og ef það gengur eftir má gera ráð fyrir að nýjar þyrlur verði afhentar gæslunni 2023 eða 2024. Hins vegar mun þetta velta á fleiri óþekktum breytum svo sem eftirspurn eftir tegundinni sem verður fyrir valinu og þeim búnaði sem krafist er þegar um er að ræða björgunarþyrlur annars vegar. „Þetta ferli tekur tíma,“ útskýrir forstjórinn.

Spurður hvort þessi þróun á sviði þyrlanna sé til þess fallin að bæta viðbragðsgetu stofnunarinnar, svarar hann: „Tvímælalaust. Með tilkomu sjöttu þyrluáhafnar getur Landhelgisgæslan sinnt þyrluútköllum á sjó, utan 20 sjómílna, stærstan hluta ársins. Þegar farið er í útköll á sjó utan 20 sjómílna þurfa tvær þyrlur og tvær áhafnir að vera til taks.“

„Skiptir máli að vera framsýn“

Landhelgisgæslan fékk í sumar til notkunar mannlaust loftfar, eða dróna, sem gert var út frá Egilsstaðaflugvelli í samstarfi við Siglingaöryggisstofnun Evrópu, EMSA. Forstjórinn kveðst sjá ýmsa kosti við slíkan búnað er hann er spurður hvort líklegt sé að Landhelgisgæslan muni leita leiða til þess að auka notkun dróna.

„Reynslan af drónanum var almennt góð og gaf okkur góða sýn á það hvernig hægt er að nýta slík tæki,“ segir hann og rifjar upp að hann hafi verið nýttur við löggæslu, leit og björgun og mengunareftirlit á hafinu umhverfis Ísland. „Dróninn kom meðal annars auga á meint brottkast, fann bát sem stjórnstöð Landhelgisgæslunnar náði ekki sambandi við og farið var að hafa áhyggjur af. Þá auðkenndi hann sömuleiðis óþekkt skip og báta í lögsögunni. Það er ljóst að drónar hafa að einhverju leyti kosti fram yfir mönnuð loftför en líka galla. Þeir hafa mikið flugþol en eru viðkvæmari fyrir veðrum en mönnuð loftför. Í framtíðinni er líklegt að Landhelgisgæslan komi til með að eignast slíkt tæki en við erum ekki á þeim stað ennþá.“

Georg segir þó prófunum með drónatækni hvergi nærri lokið enda fylgja fjölbreytt tækifæri tækninni og hefur stofnunin áhuga á að fá þyrludóna frá EMSA sem gerður yrði út frá varðskipunum. Það ferli er þó skammt á veg komið, að sögn hans. „Áhöfn varðskipsins gæti sent slíkt loftfar á undan sér þegar kæmi að leit, björgun og eftirliti á hafinu. Það skiptir máli fyrir Landhelgisgæsluna að vera framsýn og opin fyrir þeim tæknimöguleikum sem í boði eru enda eru möguleikarnir svo sannarlega til staðar.“

Verkefni gæslunnar á árinu voru ekki einangruð við viðburði hér innanlands á árinu og hefur alþjóðlegt samstarf stofnunarinnar aukist til muna, að sögn forstjórans. Landhelgisgæslan tók í apríl við formennsku í Arctic Coast Guard Forum, samtökum strandgæslustofnana á norðurslóðum, og mun hún gegna hlutverkinu í tvö ár. Strandgæslur allra átta aðildarríkja að norðurskautsráðinu (Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð) eru aðilar að samtökunum.

Stór æfing á Íslandi í vor

„Á meðan Landhelgisgæslan gegnir formennsku verður sértök áhersla lögð á að efla samstarf [aðildar]ríkjanna átta enn frekar þegar kemur að leit og björgun auk þess sem mengunarvarnir og umhverfismál verða sett á oddinn,“ segir Georg. Auk þess er stefnt að umfangsmikilli æfingu samtakanna á Íslandi á vorið 2021.

„Í október hittust sérfræðingar þeirra átta ríkja sem aðild eiga að samtökunum og báru saman bækur sínar. Þetta er sérlega mikilvægur vettvangur því ef slys eða óhöpp verða á hafsvæði norðurslóða geta margir dagar liðið áður en hjálp berst. Við slíkar aðstæður skiptir samvinna sköpum til að tryggja öryggi fólks og umhverfis. Alþjóðlega leitar- og björgunarsvæðið sem Landhelgisgæslan, fyrir hönd Íslands, er ábyrg fyrir er 1,9 milljónir ferkílómetra og þá er gott að geta leitað til nágrannaþjóða ef mikið liggur við. Það gefur auga leið að með aukinni skipaumferð umhverfis landið er afar mikilvægt að vera við öllu búinn og eiga þess kost að óska eftir aðstoð ef þannig ber undir,“ útskýrir Georg.