Helgi Seljan fæddist á Eskifirði 15.1. 1934. Hann lést á Landspítala, Fossvogi, 10.12. 2019.

Foreldrar: Elínborg Kristín Þorláksdóttir húsmóðir á Eskifirði, f. 21.9. 1891, d. 11.1. 1945, og Friðrik Árnason verkamaður og hreppstjóri, f. 7.5. 1896, d. 25.7. 1990. Fósturforeldrar: Jóhanna Helga Benediktsdóttir, f. 14.4. 1908, d. 13.5. 1989, og Jóhann Björnsson, f. 12.9. 1897, d. 1.12. 1892, bændur í Seljateigi við Reyðarfjörð. Öll alsystkini eru látin en þau voru í aldursröð: Halldór, f. 1918, Margrét, f. 1920, Kristinn, f. 1922, Þorvaldur, f. 1923, Helga, f. 1925, Þorlákur, f. 1927, Guðni, 1930, Árný, f. 1932. Hálfsystir samfeðra er Vilborg, f. 4.10. 1946. Fóstursystir er Guðrún Ása Jóhannsdóttir, f. 31.5. 1937.

Eftirlifandi eiginkona Helga er Jóhanna Þóroddsdóttir, f. 11.1. 1934 í Víkurgerði í Fáskrúðsfirði. Foreldrar hennar voru Anna Hildur Runólfsdóttir húsmóðir, f. 12.7. 1900, d. 12.10. 1985 og Þóroddur Magnússon útvegsbóndi, f. 6.11. 1895, d. 17.8. 1956. Börn Helga og Jóhönnu eru 1) Helga Björk, f. 11.9. 1955. Synir með Herberti Harðarsyni: Hörður Seljan og Hannes Rúnar, barnabörnin tvö. 2) Þóroddur, f. 8.9. 1956, giftur Hildi Magnúsdóttur. Börn: Jóhanna Seljan, móðir: Inga Margrét Árnadóttir, Snær Seljan og Hjördís Helga Seljan, barnabörnin sex. 3) Jóhann Sæberg Seljan, 11.10. 1957, giftur Ingunni Karítas Indriðadóttur. Synir Helgi Seljan og Hákon Unnar Seljan, barnabörnin þrjú. 4) Magnús Hilmar, f. 27.12. 1958, giftur Sólveigu Baldursdóttur. Börn: Stella Sigurbjörg, Baldur Seljan og Magnús Guðlaugur, barnabarn eitt. 5) Anna Árdís, f. 28.11. 1964, gift Indriða Indriðasyni. Börn: Hildur Seljan, Steinunn Díana, Arnar Freyr og Indriði Freyr, barnabörnin fjögur.

Helgi ólst upp í Seljateigi við Reyðarfjörð og gekk í Barnaskóla Reyðarfjarðar. Hann tók landspróf frá Alþýðuskólanum á Eiðum 1950 og kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1953. Helgi kenndi tvo vetur á Búðum í Fáskrúðsfirði og sjö vetur við Barna- og unglingaskóla Reyðarfjarðar. Helgi var skólastjóri á Reyðarfirði frá 1962 til 1971 og sat í hreppsnefnd Reyðarfjarðarhrepps 1962-1966 og 1970-1978. Árið 1958, þegar Helgi var 22 ára gamall, fór hann fyrst inn á Alþingi og varð síðan þingmaður Alþýðubandalagsins í 16 ár frá 1971 til 1987. Helgi var forseti Efri deildar í fjögur ár og fjögur ár fyrsti varaforseti Sameinaðs Alþingis. Helgi var félagsmálafulltrúi og ritstjóri fréttablaðs Öryrkjabandalags Íslands 1988 og síðan framkvæmdastjóri þess til 2001. Helgi sat í bankaráði Búnaðarbankans frá 1973 til 1986. Helgi var virkur í félagsmálum. Hann stofnaði Barnastúkur á Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði og var formaður Sambands bindindisfélaga í skólum 1952-1953, formaður Verkalýðsfélags Reyðarfjarðar í 1958-1966, sat í stjórn Leikfélags Reyðarfjarðar 1959-1968 og í stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga 1968-1974, þar af tvö ár sem formaður. Þá starfaði Helgi ötullega fyrir félag eldri borgara í Reykjavík. Helgi gaf út bæði ljóðabækur og bækur um gamanmál og skrifaði ótal greinar í blöð og tímarit.

Útför hans fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 20. desember 2019, klukkan 13.

Þegar við kveðjum pabba er þakklæti efst í huga. Þakklæti fyrir hvatningu, rökræður, sögur, vísur og fyrir að vera ætíð til staðar.

Minningar leita á huga frá bernskuárum er við snérumst um lambféð og kýrnar með pabba og hjálpuðum við heyskap. Við fjögur komum á fjórum árum og bjuggum í sveitinni þar til við fórum út í bæ þar sem Anna bættist í hópinn.

Pabbi var kátur, hress og lét dæluna ganga. Eitt sinn var hann að gera við dekk á Rússanum og krossbölvaði. Við bentum á að ekki mætti blóta, alin upp í guðsótta og góðum siðum hjá ömmu. „Ég var 10 ára þegar ég blótaði fyrst, var að eltast við kindur, mér brá svo mikið að ég snarstansaði“, sagði hann. Við sem höfum smalað með honum vitum að hann bætti hratt upp árin 10.

Pabbi var félagslyndur og kom víða fram, flutti gamanmál og ræður. Ungur varð hann skólastjóri með mikinn metnað fyrir hönd barnanna og stóð ásamt kennurum fyrir skemmtunum og leikritum. Hann lék sjálfur og söng í leikritum og á þorrablótum, oft með Þóri, Ingólfi og Arnþóri. Í eðli sínu var hann samt heimakær. Afi og amma bjuggu hjá okkur og svo bjó systir pabba með fjölskyldu í næsta húsi. Alltaf var pabbi fyrstur að borða, rauk í uppvaskið og þá var gott að vera fljótur að klára því annars tók hann af þér diskinn. Hann elskaði söng og dans og ófá skiptin dönsuðu foreldrar okkar við fjöruga tónlist í eldhúsinu. Oft var gripið í spil og alltaf keppni. Ef leggja þurfti saman talnarunur taldi pabbi. Eitt sinn sögðumst við ætla að telja, við værum fljótari, „Fljótari, komum í kapp“, sagði hann. Hann sá ekki að með smáu letri höfðum við skrifað hálfleikstölur. Við vorum á undan með fyrstu tvær, en þá sá hann tölurnar og stökk upp „þið svindlið“. Já, það var erfitt að keppa við hann, sérstaklega ef reyndi á minni og hraða.

Pabbi var hugsjónamaður, einlægur vinstri maður sem barðist fyrir hag þeirra sem minna máttu sín. Hann var þingmaður í 16 ár og nýtti hverja stund til að fara um kjördæmið, sækja hugmyndir til fólksins. Í lok þingferils flutti fjölskyldan á Kleppsveginn og sem fyrr var heimilið öllum opið. Barnabörnin hafa búið þar og heilu íþróttahóparnir gist. Hann var virkur í félagslífi með Öryrkjabandalaginu og eldri borgurum og sá þar um söngvökur ásamt Sigurði Jónssyni.

Pabbi las mikið og fylgdist vel með fréttum. Iðulega hafði hann sterka skoðun og reifst við sjónvarpið, „hvaða endemis vitleysa“, „varst þú eitthvað betri?“, en stoppaði þegar mamma sagði, „jæja Helgi, hættu nú“.

Pabbi og mamma voru sem eitt og það var yndislegt að fá að sofna við hláturinn í þeim þegar gist var. Pabbi kom oft með smellnar athugasemdir, þá síðustu heyrðum við er hann lá veikur. Það var verið að hagræða honum og hjúkkan bað um kodda til að styðja við bakið. „Þessi er alltof þunnur“, sagði hún og þá gall við í bindindismanninum: „Ég hef aldrei verið þunnur“.

Nú þegar jólaljósin loga á Seljateigi, minnumst við pabba með gleði og þakklæti í huga. Guð styrki þig elsku mamma og þakkir færum við starfsfólki Landspítalans fyrir góða umönnun.

Helga Björk, Þóroddur,

Jóhann Sæberg Seljan og Magnús Hilmar.

Elsku pabbi hefur nú kvatt okkur. Mikil fyrirmynd í öllu mínu lífi og starfi og betri pabba hefði ég ekki getað óskað mér. Ég er yngst af systkinunum og naut þess í ríkum mæli.Var frá fyrstu tíð pakkað inn í bómull af öllum á heimilinu, fékk sérfæði hjá mömmu og oft sögu með svo að ég borðaði fiskinn. Svo gott og elskuríkt uppeldi sem ég fékk er ekki sjálfgefið og ber að þakka einlæglega fyrir það. Pabbi umvafði mig með elsku sinni og eðlislegri glettni. Hann las fyrir mig, lét mig á stofuborðið og dansaði við mig, gaf mér bláan ópal sem var uppáhaldið hans, leiðbeindi mér, faðmaði mig og kyssti í tíma og ótíma og dekraði mig í hvívetna. Ég hlustaði á hann æfa sig á ræðum og gamanvísum, fylgdist með eldhúsdagsumræðum á Alþingi til að sjá honum bregða fyrir á skjánum og var ætíð stolt og montin af faðerninu. Þegar ég var sjö ára samdi pabbi vísu um mig. Þar sem pabbi stóð í ströngu við að semja gamanvísur fyrir þorrablótið kom ég og heimtaði vísu um mig. Hann semdi vísur um alla nema mig. Pabbi var þolinmóður í fyrstu, bað mig bíða, vísan kæmi seinna, en ég þráaðist við og suðaði í honum. Á endanum henti hann til mín blaði og sagði: Hérna færðu vísu og leyfðu mér að klára í friði. Vísan var svona:

Þú ert ljót og leiðigjörn,

liggur oft í fýlu.

Á þér ættu að taka törn,

tröllabörnin Grýlu.

Ég rauk inn í herbergi í fýlu og sannaði þar með a.m.k. hluta vísunnar. En stuttu seinna kom pabbi, faðmaði mig og sagði: Ljúfan mín og dúfan, ekki ergja þig yfir vísunni, hér er komin ný. Sú vísa var hlaðin lofi en henni hef ég alveg gleymt. Síðan þá hef ég fengið margar vísurnar frá pabba sem allar einkennast af lofi og hóli um mig og mína og aldrei var mér hótað Grýlu gömlu aftur. Allar kveðjur frá pabba í daglegum símtölum og í bréfum frá unglingsárum enduðu á elsku hjartað mitt eða ljúfan mín og dúfan. Ást hans og umhyggja alltaf til staðar og vís hjálparhönd ef eitthvað bar út af. Við áttum einstakt og náið samband og allar minningar eru ljúfar. Pabbi var einkar duglegur að fylgjast með öllu sem mér viðkom og aldrei hef ég fengið betri kennslu í stjórnun en frá honum. Vertu fyrirmynd og sýndu öllum störfum virðingu. Vertu samstarfmönnum þínum jafningi. Þið vinnið öll að sama markmiði og verðið að gera það saman og í sátt. Hnitmiðuð en gullvægin heilræði sem hann setti fram þegar ég var að stíga mín fyrstu skref sem stjórnandi. Ég vona að ég hafi tileinkað mér þetta í mínum störfum. Gleði pabba var fölskvalaus þegar við fluttum loksins til Reykjavíkur í fyrrasumar. Þá hittumst við nánast á hverjum degi, faðmlög og kossar í hverri heimsókn og oft beðið um nudd fyrir laskað bak.

Komið er að kveðjustund eftir erfið veikindi og ég er enn að átta mig á því að leiðir hafa skilið. Söknuðurinn er mikill og sú staðreynd að við sjáumst aldrei meir er þyngri en tárum taki. Hafðu þökk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir mig og mína. Elsku þinni, nærveru, umhyggju og kærleiksríkum orðum þínum mun ég aldrei gleyma.

Þín dóttir,

Anna Árdís.

Elsku afi.

Eitt af því allra bezta sem kemur upp í hugann þegar leitað er í minningabanka okkar systkina eru heimsóknirnar á Kleppsveginn til ykkar ömmu. Samband okkar einkenndist af óendanlegri væntumþykju, örlæti og einskærri gleði. Við hittumst kannski ekki daglega en alltaf var jafn gott og gaman að hittast.

Gestagangurinn hefur ávallt verið mikill á Kleppsveginum og þið amma tekið konunglega á móti ættingjum og vinum. Þakklæti er efst í huga þegar við hugsum um þig, elsku afi.

Við eigum óteljandi minningar sem við getum ornað okkar við um ókomna tíð. Það er hægara sagt en gert að finna nógu sterk lýsingarorð yfir þig sem persónu. Þú varst einstakur maður og svo miklu meira en bara afi okkar. Skáldagáfur þínar slógu ætíð í gegn og það hve fyndinn og hnyttinn þú gast verið. Það sem var kannski merkilegast við þig er sú staðreynd að þú settir alltaf aðra í forgang og varst hvetjandi á sama tíma. Þér fannst alltaf mikilvægt að vita hvernig okkur gekk í lífinu og hvernig okkur leið. Fréttatíminn var heilög stund fyrir þér og óborganlegt var að horfa á Útsvarið með þér. Þú kepptist við að svara spurningum þáttarins og bölvaðir hressilega þegar þú vissir ekki svarið. Bíóferðir eða ferð í Húsdýragarðinn var nánast fastur liður og þú kættir okkur með ýmsum gjöfum og dýrmætum persónutöfrum þínum.

Seljateigur mun aldrei verða eins án þín, en við vitum að þú munt vakta óðalið af himnum ofan. Þú undir þér ávallt bezt í sveitinni með henni Hönnu þinni og afkomendunum. Þú sýndir okkur gott fordæmi um hve mikilvægt er að sýna fram á væntumþykju og kærleik.

Ást þín á Hönnu ömmu skein skært í augum þínum og þú fannst alltaf tækifæri til að koma því til skila. Sú ást mun aldrei dvína né fölna. Þið voruð jafn ástfangin undir það síðasta og þegar þið kynntust fyrst. Þú sagðir sjálfur að þú hefðir unnið í lottóinu þegar kom að makavali sem er hárrétt hjá þér. Það sýndi sig í 64 ára farsælu hjónabandi ykkar. Því var vitagagnslaust fyrir þig að kaupa lottómiða þegar þú áttir allt sem þú þráðir að eiga.

Þegar við sitjum hér og hugsum til baka er svo margt sem við getum verið þér þakklát fyrir.

Hver sem málefnin voru þá endaði umræðan næstum alltaf með brosi eða hlátri. Það er sagt að með ellinni fylgi oft elliglöp en það á þó engan veginn við um þig. Hugur þinn bjó yfir betra minni heldur en nýjasti tölvubúnaður Apple hefur upp á að bjóða. Óhemju hreinskilinn karakter að eðlisfari og það gladdi oftar en ekki mannskapinn. Þú varst rödd lítilmagnans og þér fannst mikilvægur boðskapur að allir ættu skilið sömu tækifæri í lífinu, óháð fátækt eða almennt slæmum aðstæðum.

Þið amma hafið alið upp fimm eðaleinstaklinga sem þið getið svo sannarlega verið stolt af. Traust, jákvæð og með geysilegan metnað frá ykkur báðum. Við pössum svo auðvitað upp á hana Hönnu þína sem þér og okkur þykir svo vænt um. Þín verður sárt saknað og minnst með hlýhug og virðingu. Takk fyrir allt, afi.

Stella Sigurbjörg , Baldur Seljan og Magnús Guðlaugur.

Elskulegur tengdafaðir minn, nokkur fátækleg orð sem lýsa ljúfum myndum sem koma upp. Seljateigur, heyskapur, fá að kynnast sveitarlífi, veran í Sandhólum, þar sem allt iðaði af lífi, hjá ykkur Hönnu. Helgi og Hanna, tvö nöfn sem eru svo hljómþýð að þau verða vart aðgreind, minningar sem eru gullkorn æsku minnar. Sárt er að kveðja einstakan sómamann, sem gaf svo mikið, vildi hvers manns götu greiða. Það er ekki ofsögum sagt að gæfa mín var að kynnast dóttur ykkar. Fyrir börnin okkar að eiga þig sem afa, að eiga ykkur að og kynnast svo einstöku sómafólki er nokkuð sem þau munu búa að alla ævi. Að kynnast ykkur sómahjónum var mér mikil gæfa.

Ef yfirfara þurfti texta, fá tækifærisljóð sent þegar þörf var á. Yndislegu jólakortin þar sem iðulega fylgdi fallegt ljóð. Símtöl, þegar fjarlægðin var mikil, að skynja og upplifa elsku þína á þínu fólki og hvað þú barst hag þeirra allra fyrir brjósti. Geta leitað til þín þegar ritgerðarsmíð hafði dregist þegar námið var orðið fulltímafrekt. Stundirnar á Kleppsveginum, njóta ljúffengra veitinga sem Hanna bar fram af kostgæfni, að horfa saman á fréttir, keppa við þig þegar Útsvarið var í sjónvarpinu, ræða um bókmenntir, hvort sem var Íslendingasögur eða ljóð, alltaf varstu tilbúinn að hlusta. Minningin um ferðalag okkar vestur á Snæfellsnesi. Þú að flytja hugvekju í kirkjunni, algjörlega fumlaust, textinn svo dásamlega samansettur og flutningur þinn svo magnaður. Líklega besta ræðunámskeið sem ég hef fengið og þegar ég innti þig eftir því hvernig þú færir að þessu var svarað: „Það er nú einfalt, ég bara æfi mig.“

Að spjalla um liðna tíma og stjórnmál, ég alltaf smá til hægri, en þú vinstri, loks skildi ég að stjórnmál snúast ekki um hægri eða vinstri, a.m.k. gerðir þú ekki greinarmun á því, aðalatriðið að láta gott af sér leiða, vera með gott hjartalag.

Þegar við Anna höfum ferðast erlendis kom Hanna iðulega með og þú kvaddir mig alltaf með sömu orðunum: „Þú kemur svo með þær heilar heim.“ Svolítið óþægilegt, en alltaf gott að geta staðið við þá bón. Nú er komið að leiðarlokum, sárt er að kveðja en ég vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína.

Þinn tengdasonur,

Indriði Indriðason.

Ég er svo lánsamur að hafa átt þig fyrir afa. Þú hefur alltaf sýnt mér einlægan áhuga á öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur og verið okkur fjölskyldunni innan handar í blíðu og stríðu.

Afi minn var ekki bara alþingismaður sem barðist fyrir þeim sem minna máttu sín, heldur var hann einnig mikill kennari, ljóðskáld, sögumaður og skemmtikraftur með eindæmum. Hann var mikill gleðigjafi sem átti auðvelt með halda uppi léttleika í kringum sig með jákvæðum og góðum hætti. Hann var mér mikil fyrirmynd sem hefur svo sannarlega átt sinn hlut í því að móta mig að þeim manni sem ég er í dag. Hann var óhræddur við að ýta mér út fyrir þægindahringinn og mér er minnisstætt þegar ég var lítill og vildi verða ljóðskáld eins og hann afi minn. Þá sat ég við eldhúsborðið hjá ömmu og afa, og glímdi við mikla og djúpa ljóðagerð. Eftir að hafa skrifað niður fáeinar línur, þá var ég fljótur að fara frá þessu verkefni og fást við annan leik. Stuttu seinna kallar afi mig á tal og réttir mér dagblaðið með opnuna á Barna-DV og viti menn þá var afi minn búinn að senda ljóðið mitt í prent.

Ljóðið hljómar svona:

Ég sá rós

Ég sá rós fyrir framan mig

Ég sá hana mörg þúsund sinnum

Þegar hún var í góðu skapi eða vondu.

Mig mun dreyma hana ævilangt.

Það er sennilega best að láta afa minn um ljóðagerðina.

Við fjölskyldan erum þakklát að langafabarn hans, hann Þórhalli, hafi fengið það tækifæri að þekkja langafa sinn. Það er okkur fjölskyldunni einnig dýrmætt að hafa fengið að njóta samveru afa á okkar gleðistundum, eins og þegar amma og afi sáu sér fært að ferðast til Danmerkur til að mæta á útskrift mína eða þegar við Berta giftum okkur. Þá sá hann afi minn um að færa okkur kveðskap og hvatningarræður sem við munum minnast og geyma í hjörtum okkar ævilangt.

Elsku afi minn, við hugsum vel um ömmu, takk fyrir allt.

Hannes Rúnar Herbertsson.

Á Kleppsveginum gekk maður inn í aðra veröld. Aldrei hávaði eða læti en alltaf fjör og fullt af ættingjum sem fengu góðgæti, notalegt spjall og heilræði hjá afa og ömmu. Yndislega andrúmsloftið hjá þeim sem fékk mann til að gleyma hverdagslegu amstri og einskis verðum hlutum. Ást og umhyggja alltaf í fyrirrúmi. Hvatning til góðra verka og til að verða góður einstaklingur í lífinu með heiðarleika og jákvæðni að leiðarljósi. Við fjölskyldan bjuggum á Kleppsveginum í fjögur ár og fyrsta árið bjuggum við hjá þeim. Aldrei var hægt að finna að það væri kvöð fyrir þau að fá inn á sig sex manna fjölskyldu og við krakkarnir tókum endalaust vinina með heim og allir voru velkomnir. Það var yndislegt að geta skriðið upp í rúm til ömmu og afa þegar vondir draumar sóttu á, því bræður mínir voru vanalega á undan mér upp í rúmið til mömmu og pabba. Afi minn var einstakur maður, nærvera hans og hlýja fyllti hjarta mitt og alltaf var mér mætt með skilningi og hvatningu ef eitthvað var að. Hann hjálpaði til við heimanám, leiðrétti málfarið, horfði á leikritin sem við settum upp heima og hafði einhvern veginn alltaf tíma fyrir hvern og einn. Seinna í framhaldsskóla mátti alltaf koma eða hringja til að fá hjálp og leiðbeiningar. Hann hringdi alltaf vikulega til að spyrja frétta og hvernig mér liði. Í þessum fátæklegu orðum til meistara mælsku og ritlistar verður aldrei hægt að lýsa allt umvefjandi áhrifum hans á líf mitt og tilveru. Enginn sem kallar mig lengur litla lambið sitt og faðmar mig eins afi gerði. Nú er ekki von á fleiri símtölum og söknuðurinn er mikill. Það er erfitt að hugsa sér lífið án afa, en amma og Kleppsvegurinn er enn þá griðastaður og ég get þakkað fyrir það. Tilveran verður aldrei söm eftir að þú ert horfinn af heimi, elsku afi minn. Farðu í friði, ég mun geyma og virða minningu þína.

Þín dótturdóttir,

Steinunn Díana.

„Maður á alltaf að gera rétt, líka þegar það er erfitt.“ Ég get ómögulega munað hvort afi minn og nafni las þessa hendingu upp fyrir mig eða hvort hún er einfaldlega frá honum sjálfum kominn. Hún hefur hins vegar sótt á mig síðustu vikur. Og einhvern veginn rammar hún inn fyrir mig það sem veganesti sem þau afi minn og amma læddu í vasa okkar barnabarnanna á leið okkar út í lífið. Rétt eins og þegar afi laumaði til okkar aur, eins og hann kallaði það.

Ég hef ekki verið nema nokkurra ára þegar ég fór að fara austur með afa á sumrin. Í flugi. Opal og brenni. Nóg af því. Stundum of mikið jafnvel. Hann svona reffilegur alltaf og sífellt að spjalla við menn og konur. Það voru ekki mörg leikskólabörn sem eyddu starfsdögunum í kaffistofu Alþingis um miðjan níunda áratuginn. En það þótti afa lítið mál. Ég gerði mér grein fyrir því að afi átti að tilheyra einhverju ákveðnu liði á þessum vinnustað. En ég gat ómögulega áttað mig á hverjir væru í óvinaliðinu. Mættu þeir kannski aldrei? Allir voru vinir hans. Sjálfur fékk ég dálæti á Steingrími Hermannssyni. Taldi fram eftir öllu að þeir væru samflokksmenn, hann og afi.

Seinna áttaði ég mig á því að það fólk sem ég hafði mest af að segja eftir þessa starfskynningu mína í þinginu, átti allt að heita svarnir andstæðingar hans. Og voru það vissulega á þann hátt margir, að lífsskoðanir þeirra stönguðust á. Þess vegna tókust þeir eðlilega oft á, og gáfu ekki afslátt af eigin sannfæringu, en komust þó oft að sameiginlegri niðurstöðu. En þeir voru líka samstarfsmenn hans og félagar.

Þessi eiginleiki afa hafði ekkert með það að gera hversu hart hann sótti sín hjartans mál. Aldrei. Og það sem meira var, hvernig hann sótti annarra manna hjartans mál. Málefni sem oft voru langt í frá líkleg til vinsælda, að minnsta kosti þá og þegar hann tók þátt í að koma þeim á dagskrá. Réttindamál samkynhneigðra, bættur aðbúnaður fanga og barátta hans fyrir því að Íslendingar létu af þeim hrottaskap að fangelsa og þannig pynta geðsjúkt fólk. Ég hálfskammaðist mín fyrir að hafa ekki löngu lesið yfir þingmálalista afa míns, þegar ég gerði það nýlega. Því ekki var hann mikið að rifja hana upp sjálfur. Var enda oft uppteknari af því hverju hann hefði viljað hafa þokað lengra, en því að hafa þó fært það á dagskrá.

Það þótti honum ekki sérstök ástæða til að stæra sig af. Það fylgdi því einfaldlega að „gera rétt“ alveg óháð því hvort í öðrum málum menn vildu svo telja sig til vinstri eða hægri.

Það hefði verið og var ef til vill einhvern tímann freistandi fyrir krumpaðan og baldinn ungling að snúa því upp í ógurlega kvöl og pínu að vera skírður í höfuðið á þessum stóra manni. Hvílíkum skugga sem hann varpaði. En það var einfaldlega ekki hægt. Þannig maður var hann afi minn. Afi minn var enda fyrst og síðast vinur minn. Það væri vanþakklátt að þakka ekki þessi fjörutíu ár okkar saman, heldur að einblína á hversu lítinn tíma börnin mín fengu með þér. Jóhann Bessi sonur minn var kannski ekki skírður, svona eins og flestir vildu að það hefði verið. En var það samt. Daginn sem þú straukst honum nýfæddum um ennið og sagðir stundarhátt: „Sæll Jóhann Bessi“ var það einfaldega ákveðið hvaða nafn drengurinn skyldi fá. Hvorugt okkar hafði rætt það áður. Og það þurfti ekkert að ræða það.

Takk fyrir okkur afi minn,

Þinn nafni,

Helgi Seljan.

mbl.is/andlat

Með sorg í hjarta kveð ég þig, elsku afi. Það sem ég er heppin að hafa fengið að eiga þig að sem afa. Að fá að koma til ykkar ömmu á Kleppsveginn og tala við ykkur um allt milli himins og jarðar var toppurinn. Ég heillaðist af því hvernig þú talaðir um þjóðmálin, þú smitaðir mig af pólitík. Svo komst þú alltaf með pening sem þú laumaðir að mér svo að enginn myndi sjá, nema auðvitað sáu það allir.

Alltaf þegar ég talaði við þig í síma þá fannst þér mikilvægt að heyra í börnunum mínum, þó svo að þú hafir varla skilið orð, sérstaklega hjá Hildi Ynju sem er málglöð eins og við. Það sem þú ljómaðir alltaf þegar við komum í heimsókn og hafðir svo gaman af því að spila við Sigurbjörn Leó. Mikið er ég þakklát fyrir heimsóknina til mín á Reyðarfjörð í sumar, þegar Hildur Ynja sat hjá þér heillengi og þið sunguð saman.

Bestu afmælisgjafirnar voru frá ykkur ömmu. Að fá send ljóð frá ykkur sem þú hafðir samið var það besta og þessi ljóð munu fylgja mér. Þess vegna fannst mér ekki annað koma til greina en að kveðja þig með ljóði þó svo að ég hafi tærnar langt frá hælunum þínum í kveðskap.

Minningar birtast í huga mér,

afi minn, ég vil þakka þér.

Eltumst við pólitík, okkar sýn,

ávallt lít ég upp til þín.

Kennt mér ótal margt þú hefur.

Mér hlýju í hjarta ætíð gefur.

Elsku amma mín, við höldum áfram að eiga okkar einstöku samtöl þar sem við munum skiptast á sögum um afa.

Þín

Hjördís Helga Seljan.

Elsku afi. Fáein kveðjuorð nú þegar minnigarnar merla í huga mér, ljúfar og fallegar. Ég var svo heppinn að eiga þig fyrir afa og fá að búa við hliðina á þér alla tíð, fyrst austur á Reyðarfirði og síðustu 19 árin hér á Kleppsvegi 14, þar sem ég keypti mér íbúð í sama stigagangi og þið amma. Þú varst mér mikill styrkur, kletturinn í hafinu, sem alltaf var hægt að leita til. Það var mér því mikil gleði að fá að aðstoða þig við að tölvuvæðast. Ég minnist þess að þér fannst það hégómi hjá mér að vera sífellt að kaupa eitthvað nýtt í tölvuna, en eftir að tölvunáminu lauk eftirlét ég þér tölvuna mína og þú varst fljótur að tileinka þér tæknina og hættir alveg að tala um hégómann í mér. Mér er minnisstætt að eftir aðeins einn mánuð varst þú búinn að skrifa meira inn í tölvuna en ég á öllum mínu námsárum. Skemmtilegustu minningarnar mínar eru þegar ég var með þér sem lítill strákur í Seljateigi í sauðburði, heyskap og réttum, þar varstu í essinu þínu. Hér á Kleppsvegi 14 hefur alla tíð verið hálfgerð umferðarmiðstöð, þar sem ættingjarnir koma saman og ég naut þess að hitta þar alla, þar sem ég var daglegur gestur á heimili ykkar ömmu.

Ég hef alla tíð litið mikið upp til þín og það er svo margt sem við eigum sameiginlegt. Við erum til dæmis báðir harðir bindindismenn og aðhyllumst sömu pólitísku stefnuna. Já, það er margt sem ég hef lært af þér, til dæmis hvernig koma á fram við aðra og vera ætíð tilbúinn að leggja öðrum lið ef hægt er.

Það er mikið tómarúm í lífi mínu núna, að vita ekki af þér hér í íbúðinni fyrir neðan með ömmu og með heitt á könnunni. En það síðasta sem þú villt er að ég leggist í eitthvert volæði og því ætla ég að horfa björtum augum fram á veginn, þannig minnist ég þín best. Bestu þakkir fyrir allar samverustundirnar þær eru mér óendanlega dýrmætar og verða mér hvatning til góðra verka.

Hörður Seljan, dóttursonur.

Elsku hjartans afi minn.

Minningarnar streyma og erfitt er að fanga alla þá ást og væntumþykju sem ég mun alltaf bera til þín. Hildrið mitt og ljúfan mín og dúfan voru þín gælunöfn yfir mig. Þú hafðir að bera einstakan karakter, sýndir samferðafólki þínu ómælda hlýju og barðist af alefli fyrir lítilmagnann. Þú varst svo margt í augum svo margra, en fyrir mér varstu einfaldlega afi.

Þegar ég var tíu ára fluttum við sex manna fjölskyldan inn á ykkur ömmu. Þetta voru forréttindi, ekki kvöð. Alltaf varstu boðinn og búinn að hjálpa með hvað sem var. Sast yfir heimanáminu með mér, kenndir mér á krossgátur, höfuðstafi og stuðla, þuldir upp skrýtlur og spilaðir ólsen ólsen og veiðimann með mér, en þú varst heldur ekki að skafa af því ef ég missteig mig og fyrir það er ég þakklát. Við fjölskyldan fluttum svo á hæðina fyrir neðan ykkur ömmu og bjuggum þar í þrjú ár og þvílík lukka sem það var að vera svo nærri ykkur ömmu. Þótt við flyttum síðan í burtu var aldrei langt á Kleppsveginn, og þar er nafli alheimsins hjá ykkar afkomendum.

Þegar Bjarni minn, eða séra Bjarni eins og þú kallaðir hann, kom í heiminn hófst lofsöngur mikill. Þú mærðir hann svo að meira að segja ég fór hjá mér. Þú misstir einnig bæði sjón og heyrn þegar hann gerði einhver prakkarastrik. Þegar ég kynntist svo eiginmanni mínum og fékk bónusdóttur í kaupbæti tókstu þeim strax opnum örmum og dásamaðir þau í mín eyru.

Í hverri viku hringdir þú, í hverri einustu viku, bara til að spyrja frétta. Þú varst búinn að tala um að þú værir nú að fara að deyja í mörg ár, en símtalið sem kom skömmu fyrir sex ára afmælið hans Bjarna mun seint gleymast. Þegar þú byrjaðir eina ferðina enn að tala um að þetta yrði seinasta afmælið sem þú kæmist í brast röddin og það kom þögn. Svo sagðir þú fremur hljóðlega: „Æ, Hildrið mitt, mikið vildi ég geta séð hann Bjarna vaxa úr grasi.“ Ég reyndi að slá á létta strengi og sagði að þú skyldir ekki voga þér að fara strax. En það varð samt svo að þetta var seinasta afmælisveislan sem þú sóttir.

Þú varst svo góðhjartaður og réttsýnn, og þú stóðst alltaf með mér í öllu. Þú varst afi; afi sem ortir heilu bálkana af ljóðum og skrifaðir ótal sögur og leikrit, afi sem gat tuðað í ömmu en samið henni ljúfustu ástarljóðin, afi sem var einnig svo ótrúlega svartsýnn nema á framtíð afkomenda sinna, veðurhræddur með eindæmum og reifst við sjónvarpsfréttirnar.

Þegar ég var að fletta í gegnum ljóðin þín núna í vikunni stoppaði ég af einhverjum ástæðum við ljóð sem bar engan titil annan en „Gamalt ljóð frá 1951“. Þú varst sautján ára þegar þú ortir þetta en í orðunum þínum les ég ferðalagið sem þú ert núna búinn að leggja í:

Nú lifnar yfir lundu,

mig langar til að fljúga

til lindarinnar tæru,

þar sem blómálfarnir búa.

Þar skal ég kveða ljúflingslag,

þá losna böndin þungu

og ljóðin kvikna í brjósti mér

síkátu og ungu.

Takk fyrir allt það liðna, elsku afi. Þar til við hittumst hjá blómálfunum.

Þín dótturdóttir,

Hildur Seljan.

Þegar manni er ljóst að góður vinur er horfinn á braut er sem allt hljóðni um stund og tíminn nemi staðar. Fram streyma dýrmætar myndir og minningar liðinnar tíðar, söknuður gagntekur huga og hjarta og tilfinningar sem ekki verður við ráðið brjótast fram. Síðan gagntekur mann einlægt þakklæti fyrir að hafa kynnst og átt samfylgd með traustum og gefandi vini.

Helgi Seljan Friðriksson, hefur kvatt þetta. Lífsgöngu þess mæta og góða drengs er lokið. Hann skilur eftir sig sjóði minninga sem bera þess merki að miklu var afkastað en ekki síður afrekað á lífsferlinum. Helgi var maður annríkra ævidaga og unni sér sjaldan hvíldar. Erillinn sem fylgdi lífsstarfi hans og fjölbreyttu félagsstarfi varð sem ófrávíkjanlegur lífsmáti. Aldrei að segja nei – aldrei skorast undan að leggja lið. Það voru hans meðfæddu eiginleikar að vera ætíð reiðubúinn að leggja sitt að mörkum og þá ekki síst í annarra þágu.

Í lífi sínu átti Helgi láni að fagna þar sem var lífsförunautur hans, hún Hanna. Yfirvegun hennar og æðruleysi var og er einstakt. Gagnkvæm virðing þeirra, umhyggja og vinátta var afl sem fleytti þeim yfir magra flúðina.

Helgi fæddist á Eskifirði og var yngstur níu alsystkina. Með andláti hans hafa þau öll kvatt þennan heim en eftirlifandi er hálfsystir. Samleið Helga og systkinanna var ekki löng. Hann fór kornungur í fóstur til frænku sinnar og eiginmanns hennar og ólst upp í skjóli þeirra í Seljateigi Reyðarfirði. Þrátt fyrir þessa tilhögun örlaganna lá sterkur þráður milli systkinanna og styrktist eftir því á ævina leið. Sterkt svipmót og eðlislægur vilji til að láta gott af sér leiða einkenndi systkinahópinn. Öll höfðu þau ríka þörf fyrir þátttöku í félagslegu starfi s.s. á sviði leiklistar, söngs og hljóðfæraleiks. Helgi gekk skrefinu lengra og tókst á við ljóða-, sögu-, og leikritagerð af mikilli snilld og atorku. Minnast menn heilu söngleikjanna og græskulauss gamanmáls sem Helgi samdi og flutti á ýmsum mannfundum. Ljóð hans hafa komið út á prenti og víða ratað fólki til ánægju.

Á kveðjustund þökkum við Helga við alla hlýju og hugulsemi í okkar garð. Á vináttu okkar bar aldrei skugga. Áhrif hans á ævistarf okkar beggja sem kennara eru ótvíræð. Undir hans stjórn og handleiðslu stigum við okkar fyrstu spor á kennslubrautinni.

Kæra Hanna. Við vottum þér og fjölskyldu þinni okkar dýpstu samúð vegna fráfalls Helga. Sá missir er mikill í ljósi langrar, farsællar samfylgdar ykkar. Megi kærleikur Guðs umvefja ykkur og ljúfar minningar lina söknuð ykkar.

Kæri Helgi.

Far þú í friði

friður Guðs þig blessi.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem)

Þegar pabbi, Þorvaldur Friðriksson, lést árið 1996 samdi Helgi minningarljóð til bróður síns. Eitt erinda ljóðsins fellur einkar vel að minningu þeirra bræðra. Með þessu erindi kveðjum við Helga hinstu kveðju.

Öll hans gjörð um ævidaga

ágæt mjög og góð hans saga.

Honum fylgi hlýjust þökk.

Horfinn er til ljóssins landa

ljúfum Drottni felum anda.

Hinzta kveðjan hugumklökk.

(HS)

Ellert Borgar og Erna.

Margs er að minnast við andlát Helga Seljan, móðurbróður míns. Hann var mikill mannvinur og heilsteyptur sómamaður. Ég minnist hans með hlýju og þakklæti fyrir notaleg samskipti og mikla frændrækni hans í gegnum árin. Hann fylgdist jafnan vel með fjölskyldu minni og hafði oft samband. Þegar faðir minn lést á síðasta ári sendi Helgi hlýja kveðju á erfiðri stund sem ég mat mjög mikils. Þannig var Helgi frændi – tryggðin uppmáluð.

Þó pólitískar hugsjónir okkar væru mjög ólíkar voru umræður okkar um stjórnmál alltaf svo uppbyggilegar og öfgalausar. Lærði margt af honum í þeim efnum. Málefnalegur og réttsýnn í allri framgöngu sinni, og uppskar líka eftir því í bæði pólitísku starfi sínu og ötulum félagsstörfum alla tíð. Dáðist jafnan mjög að elju hans og málafylgju í baráttu með virkum skrifum í blöð og ýmis rit langt fram eftir aldri. Stóð vörð um hugsjónir sínar og málefnin sem honum voru kær með svo miklum sóma.

Helgi var sagnamaður mikill, hrein unun var að hlusta á frænda í frásagnagír sínum, ljóð hans fimlega ort og sýndi einlægni hans, hlýju og mannlega réttsýni hvort sem um var að ræða léttar tækifærisvísur eða ádeilu á málefni samfélagsins í mjög ólíkum myndum. Hann var mikill mannvinur í gegnum alla sína framgöngu í ræðu og riti.

Í huga mínum lifir notaleg minning þegar Helgi og Hanna héldu upp á sextugsafmælið hér á mínum slóðum. Móðir mín bauð bæði þeim og nokkrum afkomendum til matarveislu á Dalvík af því tilefni sem var mjög eftirminnileg. Önnur eftirminnileg minning er þegar ég fór í spurningaþáttinn Viltu vinna milljón fyrir tæpum 20 árum. Þá dvaldi ég hjá þeim heiðurshjónum í borginni og þau fóru með mér sem gestir í þáttinn. Ekki komst ég í aðalstólinn og lítið um milljónaglamur, sem betur fer hugsa ég. Hef oft hugsað um að frænda mínum hafi líklega þótt lítið til þáttarins koma og peningamaskínu hans, en þau fóru samt með mér, sem segir mikið um trygglyndið. Að þátttöku lokinni sagði ég við frænda að ekki yrði ég ríkur í dag og hann tók undir með þeim orðum að gæfan væri nú ansi fallvölt þarna.

Oft lagði hann okkur lið í stóru og smáu sem ég vil þakka fyrir á kveðjustundu, sendi okkur bækur sínar og gamansögur sem við höfum notið mjög. Frásagnir hans og skrif voru mikill yndislestur. Á suðurferðum var alltaf litið inn hjá þeim hjónum og alltaf sama hlýjan, einlægnin og gestrisnin, trygg frændrækni sem við metum öll mjög mikils. Við munum sakna hans mjög.

Blessuð sé minning Helga frænda. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég til elsku Hönnu og fjölskyldunnar allrar. Guð blessi ykkur öll.

Stefán Friðrik Stefánsson.

Heiðursmaðurinn Helgi Seljan Friðriksson andaðist 10. desember sl. Helgi fór kornungur í fóstur vegna veikinda móður sinnar, tekinn úr stórum systkinahópi sem grét þegar litli bróðir þeirra fór.

Helgi fékk gott og ástríkt uppeldi eins og hann sjálfur hefur lýst, bæði í ræðu og riti, hjá því sómafólki sem hann ólst upp hjá. En það voru hjónin sem bjuggu í Seljateigi í Reyðarfirði. Ég var ekki búin að þekkja Þorlák tilvonandi eiginmann minn lengi þegar hann sagði mér frá litla bróður sínum sem hann fékk í afmælisgjöf á 7 ára afmælisdegi sínum. Milli þeirra bræðra ríkti einlæg virðing og vinátta enda margt líkt í fari beggja. Báðir höfðu fengið það í vöggugjöf að hafa ánægju af því að gleðja aðra, hvor á sinn hátt. Fallegu textarnir hans Helga við ljúf lög bróður hans komu út á geisladiski sem heitir Ljósbrot fyrir nokkrum árum. Þessi samvinna bræðranna lýsir best þeim næmleika sem ríkti á milli þeirra.

Ég kynntist Helga þegar hann var þingmaður okkar Austfirðinga. Við hjónin vorum í hópi þeirra fjölmörgu sem leituðu til hans til að reyna að fá leiðréttingu mála þegar framleiðsluréttur var tekinn af búum manna. Á ferðum sínum um kjördæmið kom Helgi gjarnan við hjá okkur á Skorrastað og oft með fleira fólk með sér sem gaman var að tala við og kynnast. Seinna hittum við þau hjón við ýmis tækifæri og nutum gestrisni þeirra og félagsskapar bæði heima hjá þeim og víðar.

Til Reykjavíkur fórum við hjónin aldrei svo að við færum ekki í heimsókn til Jóhönnu og Helga. Með þeim áttum við margar góðar og uppbyggjandi stundir á yndislegu og hlýju heimili þeirra þar. Þar fann maður sig alltaf innilega velkominn. Á síðastliðnu sumri hittum við, ég og dóttir mín, Helga heima í Seljateigi. Okkur duldist ekki að honum var mjög brugðið en glettnin var þó ekki langt undan. Ég vil að lokum þakka Helga mági mínum fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur fjölskylduna, fyrir vináttu hans og hjálpsemi. Nöfnu minni og fjölskyldu þeirra votta ég mína dýpstu samúð. Maður eins og Helgi skilur eftir sig stórt skarð. Ég bið Guð að blessa minningu Helga Seljan og að styrkja eftirlifandi eiginkonu hans og fjölskyldu þeirra alla.

Jóhanna Ármann.

Helgi Seljan, sem hér er kvaddur, var löngu orðinn landsþekktur fyrir skrif minningargreina og þegar ég frétti af andláti hans hugsaði ég: „Hvað er ég að vilja upp á dekk með minningargrein um Helga Seljan?“ Þetta var seint um kvöld, ég gat ekki sofnað og fór að skrifa.

Og nú hefur minn kæri vinur til langs tíma fengið hvíldina, sem ég veit, að hann var farinn að þrá eftir langa og erfiða sjúkdómslegu. Söknuður er mér sannarlega efstur í huga við að skrifa þessi fátæklegu minningarorð um hann. Jafnframt get ég ekki annað en glaðst fyrir hönd míns góða vinar, að þessu skuli nú lokið.

Við Helgi kynntumst fljótlega eftir að ég náði í mína góðu konu, Kristínu, sem lést fyrir rúmu ári. Þau voru skyld og áttu bæði heima á Reyðarfirði.

Vel á minnst, minningarorð! Þau eru nokkuð sem segja má að Helgi hafi sjálfur verið sérfræðingur í. Hann hafði lengi verið ötull við að skrifa um látið fólk, bæði honum skylt og vandalaust og tókst jafnan að gera það mjög fallega. Að vísu fór sú saga á kreik að Reyðfirðingar þyrðu ekki orðið að deyja, vegna þess að Helgi Seljan myndi skrifa um þá. Mig grunaði þó alltaf að hann ætti sjálfur einhvern þátt í þeirri sögu, enda vantaði hann aldeilis ekki húmorinn. Alþjóð veit hver afburðamaður hann var í textasmíð, bæði í bundnu og óbundnu máli. Sjálfur á ég margar bækur, sem hann hafði sent frá sér og gefið okkur.

Hér verð ég nú að viðurkenna örlítinn öfundarvott í hans garð, á ég þar við danshæfileika hans. Hann þótti mjög góður dansmaður sem engan veginn á við um mig og ég naut góðs af þegar við fórum með þeim hjónum á skemmtanir og hann dansaði við konur okkar til skiptis. Mín kona hafði mjög gaman af að dansa og kannski býð ég henni upp þegar við hittumst uppi.

Hanna kona Helga er alveg einstök kona. Hér er lítil vísa um hana.

Lengi höfum við Hönnu þekkt

og höldum fram í þakklætisskyni

að okkur þyki ómetanlegt

að eiga slíka konu að vini.

Helgi kunni sannarlega að meta sína góðu konu og í bókum hans er margt fallegt að finna sem hann gerði til hennar. Hanna er ekki síðri húmoristi en Helgi var og langar mig því til að enda þetta með vísu um þau hjónin. Þau fengu sér nýjan bíl, höfðu átt grænan en skiptu yfir í gráan.

Að hugsa um vínsins vafasöm gæði

varla sem templari má hann,

samt eru bindindishjónin bæði

búin að fá sér einn gráan!

Þau fyrirgáfu mér bæði og að endingu kveð ég vin minn með kærri þökk fyrir allt, sem við höfum haft saman að sælda. Hönnu og öllum þeirra afkomendum votta ég einlæga samúð mína og allra minna.

Blessuð sé minning Helga Seljan.

Sigurður Jónsson tannlæknir

Rætur jafnaðarstefnunnar liggja víða í íslensku samfélagi: í þorpum, verkalýðsfélögum, bindindissamtökum, leikfélögum, hreppsnefndum og barnaskólum; í flóru mannlífs sem skóp byggðarlögin.

Helgi Seljan sameinaði í persónu sinni og ævistarfi það besta úr þessari arfleifð; var í reynd mótaður af öllum slíkum rótum: kjörinn í hreppsnefndina, kennari í barnaskólanum, formaður í verkalýðsfélaginu, virkur í stúkunni og leikfélaginu; hrókur alls fagnaðar og baráttumaður fyrir betra samfélagi. Kosningin til Alþingis var rökrétt afleiðing þess margháttaða trúnaðar sem fólkið í austfirskum fjörðum sýndi honum.

Í flokknum á landsvísu var hann virtur af öllum og áhrifamenn úr öðrum vígstöðvum sóttust eftir liðsinni hans þegar góð mál voru í húfi. Svo var hann líka kvæðamaður, orti og skemmti; svo marghamur að ýmsum fannst hann fjarri staðalmynd af stjórnmálamanni.

Helgi Seljan var í raun engum líkur; ávallt hann sjálfur; sannur og heill. Kannski eignast íslensk stjórnmál aldrei aftur slíkan sómamann sem ætíð leit á starf sitt sem þjónustu við þá sem kusu hann til forystu – en líka þjónustu við alla hina sem kosið höfðu aðra.

Það var honum líkt að gerast við lok þingsetu baráttumaður og fulltrúi þeirra sem mest eiga á brattann að sækja og lýsa vanda þeirra og erfiði í ótal blaðagreinum. Minna svo í stuttum pistlum oft á mikilvægi bindindisreglu; varði málstað sem hefur verið lítt í tísku á síðari tímum. Ætíð trúr sinni hugsjón.

Á kveðjustundu ber að þakka langa samfylgd, samræður og ráðin heil, innsýn og yfirvegun; hollustu við hugsjónir sem gert hafa Ísland að betri byggð.

Það var gæfa okkar margra að verða samstarfsmenn og baráttufélagar Helga Seljan og nándin við hann varð okkur ætíð til góðs.

Í hofi íslenskra jafnaðarmanna og hinnar róttæku hreyfingar mun Helgi Seljan ávallt skipa heiðurssess.

Frá fjarlægri álfu sendi ég fjölskyldu hans og vinafjöld einlægar samúðarkveðjur.

Ólafur Ragnar Grímsson.

Margt leitar á hugann þegar Helgi Seljan, félagi og vinur til áratuga, hefur lokið sinni lífsgöngu. Kynni okkar ná vel fjörutíu ár til baka og eftir fjögur ár saman á Alþingi og í þingflokki höfðu traust bönd myndast sem héldu æ síðan. Helgi Seljan var enda þeirrar gerðar að mönnum mátti vera verulega áfátt í mannlegum samskiptum ef þeir rákust á hann á lífsleiðinni og komust hjá því að eignast hann að góðum kunningja eða vini.

Fyrstu árin mín á þingi voru einn samfelldur stjórnmálaskóli og vantaði ekki kennarana. Einn þeirra var Helgi Seljan. Ógleymanlegar eru ferðir með honum austur þegar hann tók nýliðann með sér og var allt í senn, verklegur skóli í kjördæmavinnu, fræðsluferð um staðhætti, menn og málefni, en þó fyrst og síðast verulega skemmtileg samvera. Þeir voru einnig áhugavert tvíeyki með að ferðast Helgi og Hjörleifur. Ólíkir um margt, Hjörleifur með sína annáluðu nákvæmni og skipulag á hlutunum, en Helgi spilaði meira af fingrum fram.

Helgi tók mig einnig á námskeið í skemmtanabransanum þegar ég var sem nýr þingmaður beðinn um að hafa uppi gamanmál á einhverri kvöldsamkomu. þar var Helgi á heimavelli, þaulvanur að koma fram og fara með kveðskap og gamanmál. Hann taldi mikilvægt að lesa rétt í samkomuna og haga sér eftir því. Það heilræði sem ég man best eftir, hljóðaði á þessa leið; „svo eru vissar samkomur, Steingrímur minn, þar sem langbesta reglan er að passa sig á að segja ekki orð af viti“.

Í sínum störfum sem stjórnmálamaður brann Helgi fyrir hugsjónum sínum um bætt kjör þeirra sem á hallar í lífsbaráttunni. Framfaramál kjördæmisins og landsbyggðarinnar áttu einnig hug hans allan svo ekki sé nú minnst á óbilandi elju hans þegar kom að áfengis- og vímuvarnamálum. Helgi Seljan var ekki maður sem afrækti hugsjónir sínar þó að formlegri stjórnmálaþátttöku lyki. Öryrkjabandalagið varð starfsvettvangur hans um langt árabil eftir að þingmennsku lauk og þar vann hann ómetanlegt starf sem gladdi okkur báða, mig og Odd Ólafsson sem höfðum kvatt hann til að taka að sér það verkefni.

Eftir að formlegum starfsdegi lauk hélt Helgi áfram og allt fram undir hið síðasta að berjast fyrir hugðarefnum sínum. Ófáar voru blaðagreinarnar og pistlarnir sem hann sendi frá sér og yfirleitt fólu í sér hófstillta en einarða hvatningu til ráðamanna að gera betur í málefnum öryrkja eða annarra sem á hallar í lífsbaráttunni. Einnig stóð hann dyggilega vaktina og var óþreytandi við að minna á það böl og mannlegu harmleiki sem fylgja misnotkun áfengis og vímuefna.

Að leiðarlokum þakka ég Helga Seljan fyrir vináttu og langa pólitíska samfylgd. Íslenskt samfélag er nú einum öndvegismanninum fátækara en verk hans eru þeim sem áfram halda hvatning og gott fordæmi.

Eftirlifandi eiginkonu hans og stoð og styttu, Jóhönnu, börnum og allri fjölskyldu votta ég samúð mína og fjölskyldu minnar, kveð minn vin með söknuði en er þó þakklæti efst í huga.

Steingrímur J. Sigfússon.

Helgi Seljan, fyrrverandi alþingismaður er látinn. Við þá frétt leitar hugurinn til þess tíma sem við vorum í senn samstarfsmenn og keppinautar í stjórnmálum á Austurlandi sem þingmenn Austurlands. Ég kynntist honum fyrst árið 1978 eftir herfilegann ósigur í kosningum þar sem flokkur hans varð stærri en Framsóknarflokkurinn á Ausurlandi eftir áralanga velgengni okkar. Nú er farið að fækka til mikilla muna í þeim hópi sem tókst á í stjórnmálum á Austurlandi á þessum árum.

Helgi var ætíð áberandi í stjórnmálunum meðan hann var á þeim vettvangi, og ég varð strax þess áskynja hvað hann var ötull í persónulegum samskiptum við fólkið, og hafði ýmsa hæfileika sem hjálpuðu honum til þess. Hann var í fyrsta lagi mjög duglegur að ferðast um og hitta fólk að máli, og var áhugasamur um að leysa úr vandamálum einstaklinga. Hann beitti sér í ýmsum málum sem varðaði fatlað fólk og þá sem minna máttu sín, enda fór hann að starfa á þeim vettvangi þegar þingmennsku lauk. Þar að auki var hann skáldmæltur og góður söngmaður og uppstandari og það voru dýrmætir hæfileikar í stjórnmálabaráttunni.

Þó að við Helgi Seljan værum á öndverðum meiði í stjórnmálum áttum við þó ýmislegt sameiginlegt, ekki síst áhuga á því að vinna fyrir kjördæmið okkar. Auk starfa á Alþingi voru gerðar miklar kröfur til alþingismannanna að vera á ferðinni, og þá voru haldnir framboðsfundir fyrir kosningar fjórtán að tölu. Haust- og vetrarkosningar útheimtu erfið ferðalög á sjó og á landi og í lofti og ýmis samskipti önnur. Ég varð þess var sérstaklega seinni árin að ferðalögin voru Helga oft á tíðum erfið vegna þess að hann var veill í baki.

Við Helgi vorum ekki saman á Alþingi sem aðalmenn nema eitt kjörtímabil, en eftir að hann var kominn til starfa hjá fötluðum áttum við margvísleg samskipti og voru þau öll með ágætum.

Við leiðarlok hjá honum er komið að því að þakka samstarfið og góð kynni og votta fjölskyldu Helga innilega samúð.

Jón Kristjánsson.

Með Helga Seljan kveður óvenju ötull baráttumaður á vettvangi félags- og stjórnmála. Aðeins 19 ára að aldri var hann orðinn fullveðja kennari á Fáskrúðsfirði og flutti sig þaðan með Jóhönnu eiginkonu sinni yfir í heimabyggðina Reyðarfjörð þar sem hann kenndi og stýrði skóla um 15 ára skeið. Fyrr en varði var Helgi orðinn þar formaður verkalýðsfélagsins, sveitarstjórnarfulltrúi og driffjöður í leikfélagi staðarins. Þá eignuðust þau hjón á innan við áratug fimm börn sem öll eru þekkt af farsælum störfum hvert á sínu sviði. Fósturforeldrar Helga í Seljateigi voru traustur bakhjarl fjölskyldunnar. Þangað sótti Helgi í senn víðsýni í stjórnmálum og kynni af landbúnaði sem hann stundaði í hjáverkum.

Þegar í alþingiskosningunum 1956 skipaði Helgi sæti á framboðslista Alþýðubandalagsins í Suður-Múlasýslu og kom inn sem varaþingmaður 1958 og aftur haustið 1969. Hann var því enginn nýgræðingur þegar hann var kjörinn þingmaður vorið 1971. Alþingi varð síðan vettvangur hans um 16 ára skeið og á þeim tíma varð hann brátt þjóðþekktur af störfum sínum og framgöngu.

Kynni okkar Helga hófust fljótlega eftir að við Kristín settumst að í Neskaupstað 1963. Alþýðubandalagið var þá að festast í sessi og á árunum 1965-1966 áttum við hlut að stofnun félagseininga og kjördæmisráðs AB á Austurlandi. Þegar kom að framboði til Alþingis 1967 bárust böndin að okkur Helga að skipa sæti á eftir Lúðvík. Hvorugur vildi taka 2. sætið, Helgi vegna starfa síns sem skólastjóri og ég með önnur áform í huga. Helgi sættist loks á þetta gegn því að ég fylgdi á eftir. Í kosningunum 1971 bættist Sigurður Blöndal í hópinn. Við vorum kröfuhörð við þá félaga að sýna sig á fundum, einnig í þinghléum um hávetur. Leiddi þetta samspil ásamt öðru til þess að Alþýðubandalagið varð stærsti flokkur í kjördæminu í þingkosningunum vorið 1978 með þrjá kjörna þingmenn.

Haustið 1979 tók Helgi við forystusæti á framboðslista AB eystra. Við fylgdumst síðan að á þingi til 1987 með Svein Jónsson sem varaþingmann. Aldrei bar skugga á okkar samstarf þessi ár eða síðar. Við héldum uppteknum hætti að heimsækja byggðarlög í kjördæminu, halda opna fundi og settum markið við að a.m.k. þrír heimamenn sýndu sig. Þetta brást aðeins einu sinni. Helgi varð ókyrr og við fórum heim. Þá kom í ljós að 15 voru mættir klukkutíma of seint að sveitarsið! Daginn eftir hringdi Helgi á flesta bæi í sveitinni til að gera gott úr þessu.

Ákvörðun Helga 1987 að hætta þingmennsku þótti okkur liðsmönnum AB miður, en þó skiljanleg eftir 16 ára ötult starf hans á Alþingi. Hann átti lengi við veilu í baki að stríða og því reyndust lýjandi ferðalög honum mótdræg. Styrkur Helga fólst ekki síst í áhuga hans á hag hvers einstaklings og einlægum vilja til að rétta hjálparhönd. Léttleiki hans og glettni í og utan ræðustólsins greiddu götu hans að áheyrendum. Á það reyndi áfram þegar ný og krefjandi viðfangsefni tóku við af þingstörfum. Aðeins fáir ná að skila slíku dagsverki.

Jóhönnu og afkomendum sendum við Kristín samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson.

„Þeir drukku, en ekki við,“ útskýrði gamall samherji Helga Seljan þegar ég spurði hvers vegna sósíalistar hefðu notið miklu meira trausts en kratar á Austurlandi. Það var þó ekki fyrr en ég kynntist Helga sjálfum að ég gerði mér grein fyrir hve mikið vit var í þessari stjórnmálafræði. Hjá honum var reglusemi og ráðvendni órofa þáttur í baráttunni fyrir betra og fegurra mannlífi, arfur hins gamla ungmennafélagsanda þar sem saman fóru félagshyggja og virðing fyrir kristnum gildum. Í þjóðfélagsmálum skyldi hver maður byrja á sjálfum sér. Þeirri lífsreglu fylgdi Helgi Seljan.

Undir lok síðustu aldar varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa náið með Helga á fámennri skrifstofu Öryrkjabandalags Íslands. Liðlega fimmtugur hafði hann lokið löngu og farsælu starfi í stjórnmálum þar sem hann sakir ljúfmennsku sinnar og mannkosta naut virðingar hjá öllum, jafnt samherjum sem andstæðingum. Í stað þess að þiggja einhvern þægilegan bitling tók hann þá ákvörðun að helga sig mannréttindabaráttu öryrkja. Fyrir ungan formann var ómetanlegt að hafa sér við hlið svo hollráðan atgervismann sem Helgi var. Enn þann dag í dag er mér ráðgáta hvernig hann komst yfir öll þau vandasömu verkefni sem leysa þurfti, að viðbættri ritstjórn efnisríks tímarits, setu í ráðum og nefndum, að ekki sé minnst á allan þann fjölda sem til hans leitaði, oft um sín viðkvæmustu mál.

Það verður seint metið til fulls hve mikið lán það var fyrir Öryrkjabandalagið að fá til liðs þann drengskaparmann sem Helgi var, mann sem með nærveru sinni einni gat glatt og hughreyst hvern þann sem til hans leitaði, hvort heldur það voru áhyggjufullir samstarfsmenn eða skjólstæðingar í sárri neyð. Þegar upp er staðið voru það þessi hlýja og ljúfmennska sem alla tíð munu sitja eftir í huga okkar sem vorum svo lánsöm að eignast Helga Seljan að vini. Blessuð sé minning hans.

Garðar Sverrisson.

Suður-Múlasýsla var eitt sterkasta vígi Sósíalistaflokksins um miðja síðustu öld. Það gerði fylgið í Neskaupstað. Í kosningum 1949 var sýslan þriðja sterkasta kjördæmi flokksins utan Reykjavíkur með 651 atkvæði. Í kosningunum 1953 voru atkvæðin 614 og Framsókn hirti báða þingmenn kjördæmisins. En 1956 sveiflast fylgið í 771. Þá er kominn til sögunnar kornungur frambjóðandi frá Reyðarfirði, Helgi Seljan, 22 ára. Sá hafði áður unglingurinn tengst Þjóðvarnarflokknum og 1956 bauð Alþýðubandalagið fram í fyrsta sinn. Þar með hófst vegferð sem stóð yfir í 31 ár; Helgi Seljan lét af þingmennsku 1987. Kom fyrst inn á þing sem varamaður Lúðvíks Jósepssonar á útmánuðum 1958. Fyrsta þingmálið var tillaga til þingsályktunar um skipaferðir frá Austfjörðum til útlanda. Síðasta þingmál Helga vorið 1987 var „Tillaga til þingsályktunar um endurskoðun afmarkaðra þátta tryggingalöggjafarinnar. Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að endurskoða þau ákvæði almannatryggingalaga sérstaklega sem lúta að greiðslum vegna umönnunar aldraðra, svo og heimilisuppbótar til þeirra öldruðu er vilja sem lengst búa að sínu. Hið sama verði athugað varðandi samsvarandi greiðslur tryggingabóta til fatlaðra.“ Alltaf á vaktinni og þegar Helgi lét af þingmennsku varð hann einn af forystumönnum Öryrkjabandalagsins.

Alþýðubandalagið varð til sem verkalýðsflokkur. Formaður Dagsbrúnar var lengst af í þingflokki Sósíalistaflokksins og Alþýðubandalagsins. Þegar samtökum fatlaðra óx fiskur um hrygg þá var það í samræmi við stefnuna að sinna samtökum þeirra sérstaklega. Þegar við vorum aðilar að ríkisstjórnum eins og þegar ég var félagsmálaráðherra þá var Helgi trúnaðarmaður minn númer eitt um allt sem laut að hagsmunum öryrkja. Áhrif hans komu fram í alls konar löggjöf og stjórnvaldsákvörðunum. Hann sat í stjórnarnefnd um málefni fatlaðra 1979-1983 og 1988 og í tryggingaráði 1989-1991. Helgi var líka maðurinn í bindindishreyfingunni, flutti anda hennar inn í þingflokkinn þar sem við reyndum að standa okkur eins og best við gátum. Þar var Helgi okkar bakhjarl. Fyrir allt þetta er ég þakklátur.

Í minningargreinum um stjórnmálamenn er oft sagt að þeir hafi alltaf tekið málstaðinn fram yfir sjálfa sig. Það er því miður yfirleitt ekki satt. En stundum. Einn þeirra fáu sem þetta á við var Helgi Seljan. Aldrei man ég eftir því að hann hafi sett sig framan við aðra í pólitískum mannjöfnuði. Hann var óvenju vandaður og traustur liðsfélagi.

Hann sóttist eftir því að hafa áhrif í þágu málstaðar en ekki eftir upphefðinni; hann var sósíalisti.

Þegar við Guðrún komum heim úr útlegðinni þá var Helgi mættur á samkomum Eldri vinstri grænna þar sem hann sagði sögur, skemmtisögur og þar hlífði hann ekki sjálfum sér ef það lá beint við. Skemmtilegur.

Með þessum línum flyt ég þakkir fyrir að hafa átt Helga að félaga.

Samúðarkveðjur flyt ég Jóhönnu og niðjum þeirra öllum fyrir hönd okkar Guðrúnar.

Svavar Gestsson.

Árið 1983 varð talsverð endurnýjun í stjórn Öryrkjabandalags Íslands. Jafnframt urðu talsverðar breytingar á vinnubrögðum og tóku stjórnarmenn að sér ýmis mál sem þeir sinntu vel.

Fljótlega varð ég þess var að einn þingmaður öðrum fremur sendi okkur erindi sem snertu málefni fatlaðra. Það örlaði ögn á pirringi hjá mér yfir því að þingmaðurinn skyldi ekki vinna heimavinnuna sína. Ég varð þess fljótt áskynja að heimavinnan hlyti að lenda á þeim sem stóðu málaflokknum næst.

Þetta var Helgi Seljan, atorkusamur þingmaður, vinsæll í öllum flokkum þótt hann væri í Alþýðubandalaginu. Stjórn Öryrkjabandalagsins taldi honum til tekna hvað hann héldi okkur vel við efnið.

Á aðalfundi Öryrkjabandalagsins árið 1986 tilkynnti formaður mér í upphafi fundar að hann segði af sér því að undirbúningur Lottósins væri í hámarki og yrði hann að sinna því. Ég varð því formaður mun fyrr en búist hafði verið við.

Stjórn Öryrkjabandalagsins var um þetta leyti önnum kafin við stefnumótun og eftir að samningar höfðu náðst um skipti teknanna frá Íslenskri getspá milli bandalagsins og hússjóðs var augljóst að bandalagið gæti tekið að sér frekari þjónustu við félögin.

Um svipað leyti varð Helgi á vegi okkar og kom þá í ljós að hann var atvinnulaus. Var ég spurður hvort ég ætlaði ekki að ráða hann til starfa.

Eftir að hafa rætt málið í stjórninni var ákveðið að bjóða Helga Seljan stöðu hjá bandalaginu. Skyldi fylgja henni stofnun tímarits bandalagsins og yrði hann jafnframt upplýsingafulltrúi.

Samþykkt var að Ólöf Ríkarðsdóttir, vinkona hans og samflokksmaður, bæri honum þessi boð. Tók hann því vel og var gengið frá starfssamningi.

Starf Helga varð afar farsælt. Hann átti auðvelt með að vinna með fólki, leysti greiðlega úr vanda fjölmargra einstaklinga og kom málum þeirra áfram á ýmsum stöðum.

Jafnframt stýrði hann blaði bandalagsins og mótaði þá stefnu sem það fylgdi fram yfir aldamótin.

Árið 2000 var leitað til mín um að ég tæki við framkvæmdastjórn bandalagsins, en Helgi hugðist hætta þá um áramótin. Kom ég til starfa í desember það ár og naut handleiðslu hans fram til áramóta.

Á þessum tíma var talsverð ásókn í að Öryrkjabandalagið styrkti alls konar málefni. Sem dæmi má nefna að maður nokkur hafði fest kaup á gömlu skólahúsi og gat ekki greitt fyrstu útborgun nema einhver tæki það á leigu og stofnaði til sumardvalar. Kom það í hlut undirritaðs að hafna þessari beiðni.

Helgi var mér sammála þegar ég sagði honum frá málinu og hló þegar ég greindi honum frá því hver kveðjuorð skólakaupandans urðu: „Ég sakna innilega forvera þíns, Helga Seljan.“

Helgi var stundum skemmtilega snöggur og í þetta sinn svaraði hann: „Andskotans maðurinn! Heldur hann að ég sé einhver gólftuska!“

Nú þegar Helgi er genginn almættinu á vald eru honum þökkuð margvísleg áhrif og öll þau málefni sem hann greiddi fyrir.

Eiginkonu hans, börnum og skylduliði votta ég mína dýpstu samúð.

Arnþór Helgason.

Við viljum í fáeinum orðum minnast Helga Seljan, heiðursfélaga MS-félagsins.

Helgi Seljan var sérstakur velunnari félagsins ásamt því að sitja í laganefnd félagins um margra ára skeið. Um hann má segja að hann var einstaklega bóngóður og gott að leita til um stuðning og ráðgjöf í hinum ýmsu málum.

Hann var gerður að heiðursfélaga á afmælishátíð félagsins 27. september 2008.

Eftirlifandi konu Helga, Jóhönnu Þóroddsdóttur, og börnum þeirra sendum við innilegar samúðarkveðjur og þökkum Helga innilega áratuga samvinnu, hjálpsemi og hlýhug í garð félagsins.

MS-félag Íslands,

Berglind Ólafsdóttir,

framkvæmdastjóri.

„Því óneitanlega er það örlítið betra, að unnt sé að segja, að gagn sé gert, að ekki sé til einskis unnið.“

Svo skrifaði þá nýráðinn félagsmálafulltrúi Öryrkjabandalagsins, Helgi Seljan, í fyrsta tímarit bandalagsins árið 1988 sem kom út undir heitinu Fréttabréf Öryrkjabandalags Íslands. Helgi hóf störf hjá bandalaginu í lok árs 1987 sem félagsmálafulltrúi og ritstjóri fréttablaðsins. Hann varð síðar framkvæmdastjóri 1998 þar til hann lét af störfum vegna aldurs í lok árs 2000.

Helgi var bandalaginu happafengur. Var hann sérlega góður í samstarfi og samskiptum. Tók öllum vel sem komu í viðtal til hans á skrifstofu ÖBÍ og vildi allt gera sem mögulegt var, enda baráttumaður með mikla réttlætiskennd.

Hann var vinamargur og þá skipti engu máli hvar þeir stóðu í stjórnmálum. Aldrei talaði Helgi illa um nokkurn mann en ef honum mislíkaði eitthvað hnussaði í honum.

Hann var léttur í lund, stutt í grínið en hann gat einnig verið ákveðinn og röggsamur ef því var að skipta. Eitt af fyrstu verkefnum Helga var að gefa út fréttabréfið og var það gert af myndarskap enda var eitt af lífsgildum hans að ganga í verkin strax og klára þau.

Áralöng þingmennska kom sér vel í störfum Helga en sem þingmaður hafði hann látið til sín taka þegar kom að málefnum fatlaðs fólks og öryrkja. Það kom berlega í ljós þegar hann tók hús á þingmönnum. Þá hafði hann það til siðs að bera aldrei upp erindið beint.

Fyrst þurfti að ræða um sameiginlega kunningja og ættir, og svo uppteknir voru flestir að hlusta á Helga að þeir urðu þess vart varir þegar erindið var svo loks borið upp.

Hann þótti enda orðheppinn mjög, kastaði reglulega fram stökum og málsnilld hans naut sín einkar vel á síðum fréttabréfs ÖBÍ.

Þar skrifaði hann reglulega pistla og greinar og við leyfum okkur að grípa niður í eina slíka.

„Það verður ekki rifjað upp hér hvernig misskipting góðærisgróðans hefur verið, hversu þeir betur settu með aðstöðuna mata krókinn, meðan lítt hefur sést bola á bættum hag þeirra er skarðastan hlut bera frá borði, þegar góðærisflóðið hefur gjarnan sjatnað nokkuð. Niðurskurðarhnífnum má og á aldrei að beita þar sem bágast er fyrir.“

Þegar Helgi lét af störfum hjá Öryrkjabandalaginu kvaddi hann fulltrúa á aðalfundi bandalagsins með þessum orðum:

Litið yfir liðna tíð

lítil eftirtekjan reynist.

Erjað mun þó ár og síð,

eitthvað bitastætt þar leynist.

Ykkar kynni mjög skal mæra,

merluð hlýju og sólaryl.

Eigið þökk og kveðju kæra,

komin eru þáttaskil.

Við þau þáttaskil sem nú eru runnin upp viljum við hjá Öryrkjabandalaginu snúa þessum orðum upp á höfundinn sjálfan og þakka góð kynni og störf í þágu fatlaðs fólks og öryrkja. Aðstandendum færum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Gagn var gert og ekki var til einskis unnið.

Lilja Þorgeirsdóttir,

framkvæmdastjóri ÖBÍ,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.

Látinn er heiðursmaðurinn og bindindisfrömuðurinn Helgi Seljan.

Þegar IOGT var breytt úr reglu í félag um síðustu aldamót var sjálfgefið að leitað yrði til Helga um formennsku í IOGT á Íslandi fyrstu árin.

Helgi og Jóhanna voru félagar í st. Einingunni nr. 14, en þar lágu leiðir okkar saman í áratugi. Helgi var einarður og rökfastur bindindismaður og fylgdi skoðunum sínum fast eftir í ræðu og riti. Stúkan hefur misst traustan félaga og fremsta baráttumann fyrir stefnu hreyfingarinnar. Sá var siður stúkunnar að senda þeim félögum sem áttu hátíðleg afmæli ljóð og kom iðulega í hlut Helga að semja, enda átti hann einstaklega gott með vandaða ljóðagerð. Helgi samdi fjölda gamanljóða og skemmtisögur sem gladdi þá sem hlýddu á, hvort sem hann flutti þau sjálfur, með öðrum eða færði þau öðrum til flutnings. Ég naut þeirrar hæfni hans í ríkum mæli við dagskrárstjórn sparidaga eldri borgara á Hótel Örk.

Helgi lagði mörgum góðum málum lið, sat í stjórn félags eldri borgara í Reykjavík og stjórnaði vinsælum söngvökum við undirleik vinar síns Sigurðar Jónssonar tannlæknis.

Helgi var í stjórn Skálatúnsheimilisins um árabil þar sem undirritaður starfaði við framkvæmdastjórn. Helgi vakti athygli fyrir skrif sín í blöð þar sem réttsýni hans hreyfði við fólki, og margar hlýjar minningargreinar sýndu velvild hans til samferðamanna.

Helgi lagði gott orð til allra, enda vinmargur og traustur vinur sem virti skoðanir, já jafnvel stjórnmálaskoðanir annarra með vinsemd. Helgi var vandaður alþingismaður og sem starfsmaður Öryrkjabandalagsins leysti hann vanda margra sinna skjólstæðinga.

Skarð er fyrir skildi er Helgi er frá okkur farinn eftir stutta en erfiða sjúkdómslegu. Við stúkufélagar í IOGT þökkum dugnað hans og forystu gegnum tíðina og þökkum framlag hans til starfsemi stúkunnar og dagskrárgerðar.

Fyrr á þessu ári gerði Helgi tillögur um fjárhagsleg framlög stúkunnar til nauðsynlegra verkefna.

Þeim tillögum hans verður fylgt eftir á nýju ári.

Við vottum Jóhönnu konu hans, svo og fjölskyldunni allri, innilega samúð og biðjum þeim blessunar.

Minningin um góðan mann lifir.

Gunnar Þorláksson.