Skáldið „Okfruman er forvitnilegt og vel lukkað byrjendaverk,“ segir um ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur, „persónulegt, frumlegt og agað verk“.
Skáldið „Okfruman er forvitnilegt og vel lukkað byrjendaverk,“ segir um ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur, „persónulegt, frumlegt og agað verk“. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Brynju Hjálmsdóttur. Una útgáfuhús, 2019. Kilja, 79 bls.

Í upphafi ekkert

og svo

sprenging

Þannig hefst fyrsta ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur, Okfruman , með lýsingu á okfrumu að verða til, frumfrumunni að nýjum einstaklingi:„ein + ein = ein“, eins og segir á næstu síðu og „svo verður ein tvær / tvær fjórar / fjóra átta“ og fjöldi frumnanna tvöfaldast sífellt við skiptinguna, þær „hrannast upp / eins og maðkar“.

Frumuskiptingin í nýjum einstaklingi er rétt að hefjast og

Þegar barnið kemur út

úr kviðnum halda frumurnar áfram

að hrannast upp

hætta því

aldrei það þarf stöðugt

að endurnýja...

en barnið sem eldist og breytist er samt óbreytt í „mynd af barni sem lifir að eilífu / skorðað í rammann / á náttborðinu hennar mömmu“.

Ljóð eftir Brynju hafa áður birst í tímaritum og safnbókum en hún starfar sem bóksali, jafnframt því að skrifa reglulega um kvikmyndir í Morgunblaðið. Okfruman er forvitnilegt og vel lukkað byrjendaverk og sýnir fín tök á ljóðmáli og persónulegri myndasmíð. Þá er bókin heilsteypt og má tala um vel samfelldan og samhangandi bálk sem ónefnd ljóðin mynda, með sterkan ljóðmælanda að baki.

Í einu fyrstu ljóðanna les pabbinn „ævintýri fyrir litlu rófuna“ – barnið sem okfruman var upphafið að – og það er ævintýrið um hinn brögðótta Grámann í Garðshorni sem verður einskonar ógnandi leiðarstef gegnum bókina og tengist uppgötvunum ljóðmælandans. Til að mynda þegar stúlkan vaknar skelfingu lostin um nótt og sér „að hún hefur gjört í rúmið blóð / úti um allt skilur allt / í einu auðvitað kom Grámann / með rauðgraut í dálítilli skjólu og lét / drjúpa á rekkjuvoðirnar...“

Önnur skepna sem gerir vart við sig er svartur hundur, það þekkta tákn þunglyndis, sem ljóðmælandinn berst við sannfæra sig um að sé ekki á staðnum, slíkum skepnum hafi verið útrýmt.

En okfrumur skjóta aftur upp kollinum og það eftir að dauðinn hefur verið uppgötvaður, og mikið af dauða – „jarðarfarirnar hrannast upp“, dauða sem að lokum er sýndur með krossum sem fylla heila opnu bókarinnar. Okfruman þarf samt ekki að vera ávísun á líf og hvað það varðar má finna fyrir harmi í ljóðum, sum fóstur verða ekki að barni:

Okfruma er ekki ávísun

á líf

heldur fáránlegur gúmmítékki

fyrsta fruman

fyrsta okið

ráshnappur (tikk takk

tikk takk) við erum öll

tíma

bundin

Okfruma er boðskort í hólmgöngu

barist upp á líf og dauða

okfruma er rauðgrautur í klósetti

okfruma er undanfari bálfarar

okfruma er innsiglaður samningur

um að allt springi í loft upp

Í bókarlok má finna fyrir einmanakennd og vissum trega, auk innlits í höfuðhvel svo minnir á eldri ljóðabækur Gyrðis Elíassonar. Ljóðmælandinn flettir þar gegnum gömul blöð, rekst á orð og minningar, og í áhrifaríku lokaljóði „lítur hún til baka / og sér / móta fyrir mjúku dýri / sem / gengur / þungum / skrefum / um heilabúið // hverfur sjónum áður en hún nær að klappa því / skilur ekkert eftir sig / nema torræð fótspor // stöku hárlufsur / fjúka til og frá í sandrokinu...“

Bókin er skreytt með níu hringformum í gráskala, teikningum eftir skáldið sem minna á léttleikandi hátt á frumur; aftast brosir ein þeirra til okkar – okfruman?

Við uppsetningu bókarinnar hefur letur ljóðanna verið gert bagalega smátt. Við lesturinn sótti þessi miðaldra rýnir sér í fyrsta skipti stækkunargler til að ljóðlínurnar nytu sín sómasamlega fyrir augum hans. Hlýtur það að skrifast á reynsluleysi hjá ungri útgáfu, því markmiðið við uppsetningu texta hlýtur að vera að sjá til þess að hann, og þar með verkið, njóti sín sem best.

En þetta er fyrirtaks byrjun hjá ungu skáldi, býsna persónulegt, frumlegt og agað verk.

Einar Falur Ingólfsson