Jólasveinar Kertasníkir og Bjúgnakrækir taka „sjálfu“ af sér.
Jólasveinar Kertasníkir og Bjúgnakrækir taka „sjálfu“ af sér. — Morgunblaðið/Einar Falur
Samkvæmt könnun MMR reyndist Kertasníkir vinsælastur meðal jólasveinanna en 29% landsmanna, 18 ára og eldri, tilnefndu Kertasníki sem sinn uppáhaldsjólavein.

Samkvæmt könnun MMR reyndist Kertasníkir vinsælastur meðal jólasveinanna en 29% landsmanna, 18 ára og eldri, tilnefndu Kertasníki sem sinn uppáhaldsjólavein. Stúfur reyndist næstvinsælastur sem fyrr en saxaði aftur á móti verulega á forskot Kertasníkis og stökk úr 25% stuðningi í 28%.

„Þegar sagan er skoðuð sjáum við að stuðningur við Stúf hefur rokið svona upp áður og má sjá vísbendingar um að vinsældir hans fylgi svolítið þeirri poppmenningu sem er uppi hverju sinni.

Í ár var til að mynda gefin út bók um Stúf sem fengið hefur töluverða athygli og Stúfur sjálfur tekið þátt í almannatengslaherferð til að kynna bókina. Stúfur fór líka með himinskautum í vinsældum árið 2017, sama ár og hann var í aðalhlutverki í jólalagi Baggalúts og Friðriks Dórs,“ segir í fréttatilkynningu frá MMR. Hurðaskellir fylgdi svo á eftir í þriðja sætinu með 11% tilnefninga en röðun þriggja vinsælustu jólasveinanna hefur haldist óbreytt frá því að mælingar hófust árið 2015.