Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís Haraldsdóttir
Ein af helstu röksemdunum fyrir tilvist Ríkisútvarpsins er að það gegni öryggishlutverki. Þessi röksemd hljómar æ fjarstæðukenndari eftir því sem Rúv. bregst oftar þessu hlutverki. Nýjasta dæmið er ofsaveðrið sem gekk yfir landið í liðinni viku. Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafði orð á þessu í umræðum um fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra. Hún benti á að eitt af því sem væri að á fjölmiðlamarkaði væri „sú staðreynd að á markaðnum er risa, risa, risastórt ríkisrekið fyrirtæki. Á öllum öðrum mörkuðum myndum við telja það óæskilegt“, sagði hún.

Ein af helstu röksemdunum fyrir tilvist Ríkisútvarpsins er að það gegni öryggishlutverki. Þessi röksemd hljómar æ fjarstæðukenndari eftir því sem Rúv. bregst oftar þessu hlutverki. Nýjasta dæmið er ofsaveðrið sem gekk yfir landið í liðinni viku. Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafði orð á þessu í umræðum um fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra. Hún benti á að eitt af því sem væri að á fjölmiðlamarkaði væri „sú staðreynd að á markaðnum er risa, risa, risastórt ríkisrekið fyrirtæki. Á öllum öðrum mörkuðum myndum við telja það óæskilegt“, sagði hún.

Og hún bætti við: „Þá verð ég því miður að segja að mér finnst það hafa brugðist hérna á síðustu dögum. Ég verð líka vör við það þegar ég ferðast um landið að það virðist auðveldara að ná Bylgjunni eða K100 heldur en Rúv., ríkisfjölmiðlinum okkar. Ég skil ekki hvernig á því stendur þegar mikilvægt skilgreint hlutverk Rúv. er þetta öryggishlutverk.“

Sú staðreynd að meint öryggishlutverk er aðeins orðin tóm er ekki það eina sem sýnir hve óþarft Ríkisútvarpið er orðið. Tæknin hefur gjörbreyst frá því að talin var ástæða til að stofna útvarp ríkisins og aðgengi að upplýsingum er ekki takmarkað eins og þá var.

Ríkið þarf ekki að reka fjölmiðil til að landsmenn fái upplýsingar, fréttir og afþreyingu. Aðrir eru betur fallnir til að sinna þeirri þjónustu – að ekki sé talað um öryggishlutverkið. Rökin fyrir tilvist ríkisfjölmiðils eru þess vegna ekki lengur fyrir hendi.