Mitch McConnell
Mitch McConnell
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings gagnrýndi demókrata harðlega í gær eftir að þeir samþykktu í fyrrinótt að ákæra Donald Trump Bandaríkjaforseta til embættismissis.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings gagnrýndi demókrata harðlega í gær eftir að þeir samþykktu í fyrrinótt að ákæra Donald Trump Bandaríkjaforseta til embættismissis. Trump er þriðji forsetinn í sögu Bandaríkjanna sem er ákærður á þennan hátt.

Atkvæði í fulltrúadeildinni féllu nær alfarið eftir flokkslínum í deildinni. Var samþykkt með 230 atkvæðum gegn 197 að ákæra Trump fyrir að misbeita valdi sínu og með 229 gegn 198 að ákæra hann fyrir að reyna að hindra framgang réttvísinnar.

Sagði McConnell að það væri skylda öldungadeildarinnar að leiðrétta mistök fulltrúadeildarinnar, sem hefðu stýrt „snarhastalegustu, minnst ítarlegu og ósanngjörnustu rannsókn“ á afglöpum forseta í embætti sem farið hefði fram á síðari tímum.

Sakaði McConnell demókrata um að hafa verið að leita að tilefni til að ákæra Trump frá því hann tók við embætti og að demókratar væru blindaðir af pólitískri reiði.

Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, vísaði í orð McConnells og sagði ljóst að McConnell hefði í hyggju að standa að snarhastalegustu, minnst ítarlegu og ósanngjörnustu réttarhöldum yfir forseta sem farið hefðu fram á síðari tímum. Þá hefði McConnell forðast að svara þeim ásökunum sem bornar væru á Trump.

Sakaði Schumer McConnell ennfremur um að ætla að koma í veg fyrir að vitni verði kölluð fyrir öldungadeildina í réttarhaldinu, sem mun líklega fara fram í næsta mánuði.

Nær öruggt er talið að Trump verði sýknaður af ákærunum, líkt og þeir tveir fyrri sem ákærðir hafa verið til embættismissis, Andrew Johnson árið 1868 og Bill Clinton árið 1998. Allt stefndi í að Richard Nixon yrði ákærður 1974, en hann sagði af sér áður en ákæran var samþykkt.