Flott Jólatréð mun ekki taka mikið pláss í geymslunni eftir jól.
Flott Jólatréð mun ekki taka mikið pláss í geymslunni eftir jól.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Járnsmiðurinn Alexander Bridde smíðaði á dögunum jólatré úr járni fyrir konu sína sem er með hvimleitt ofnæmi fyrir greni. Járnjólatréð prýðir nú heimili þeirra hjóna og gleður bæði unga sem aldna í fjölskyldunni.

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Jólin verða með óhefðbundnara sniði en venjulega hjá fjölskyldu járnsmiðsins Alexanders Bridde þetta árið en hann smíðaði á dögunum jólatré fyrir fjölskylduna úr járni. Járnjólatréð prýðir nú stofuna á heimili hans, hangandi úr loftinu, fullbúið ljósum og jólaskrauti með járnstjörnu sem trónir á toppnum.

Lifandi tré í 37 ár

Er þetta í fyrsta sinn í 37 ár sem fjölskyldan er ekki með lifandi jólatré en Alexander segir að ofnæmi eiginkonu hans, Ingibjargar Sigurðardóttur, fyrir greni hafi verið tilefni til breytinga. Hún hafi hingað til þurft að sætta sig við óþægindi vegna ofnæmisins og þurft að reiða sig á ofnæmistöflur yfir hátíðirnar. Alexander segir að Ingibjörg hafi verið ákaflega ánægð með nýja jólatréð enda fegin að þurfa ekki að taka ofnæmistöflurnar.

„Hún sætti sig strax við það þegar ég stakk upp á því að smíða bara járntré. Það þurfti ekkert að ræða það meira,“ segir hann og hlær.

Smíðar flestar gjafir sjálfur

Alexander, sem rekur verkstæðið Prófílstál, segist hafa mikla reynslu af því að hanna og smíða hluti úr járni. Segist hann til að mynda smíða flestar gjafir sem hann gefur sjálfur.

„Ég er náttúrulega járnsmiður og smíða gríðarlega mikið af alla vegana hlutum og gjöfum. Ég er frjór í þessu, eins og maður segir, og hef smíðað minni tré með seríum í hundraðavís,“ segir Alexander og bætir við að flest hafi járntrén verið gefin til vina og vandamanna. Járnjólatré fjölskyldunnar þetta árið er þó, að sögn Alexanders, það stærsta sem hann hefur smíðað en það er rúmlega 180 sentimetrar á hæð og er stærsti og neðsti járnhringur trésins 90 sentimetrar.

Segist hann alla tíð hafa langað að smíða jólatré fjölskyldunnar úr járni og hafi loks látið vaða í ár en hann lauk verkinu sl. laugardag. Segist hann hafa fengið ákveðinn innblástur þegar hann las blaðagrein um jólahefð frá því seint á miðöldum í Þýskalandi þar sem jólatré voru hengd úr loftinu í stað þess að láta þau standa á gólfi. Alexander ákvað því að járnjólatréð yrði einnig hengt upp í loft og segir það njóta sín best þannig.

Sonurinn smíðaði stjörnuna

Jólastjarnan sem trónir á toppi trésins er það eina sem Alexander smíðaði ekki sjálfur en hana gerði sonur hans, Guðni Bridde, sem einnig er járnsmiður.

„Ég var búinn að ákveða að setja gamla toppinn okkar á tréð en hann vildi það ekki og skaut þessu saman á engri stundu,“ segir Alexander. „Hann smíðaði [stjörnuna] í þrívídd. Hún er þykk og mikil og látin tróna efst náttúrulega,“ bætir hann við.

Alexander segir að nýja jólatrénu hafi fylgt mikill spenningur fyrir barnabörn hans og Ingibjargar. Segir hann að þeim hafi þótt spennandi að hengja jólatréð upp í loft og hjálpa ömmu og afa að skreyta tréð.

„Þeim fannst þetta bara fyndið og flott. Þetta var mest spennandi af því að tréð hékk í loftinu. Þau skriðu náttúrulega undir það, inn í það og ofan á það, eins og krakkar gera. Það þurfti að reka þau undan því og innan úr því,“ segir Alexander og hlær.

Aðspurður segir hann að vitanlega verði gjafirnar geymdar undir trénu á jólunum samkvæmt hefðinni. Öll stórfjölskyldan verður að sögn hjá þeim hjónum á aðfangadag. Býst Alexander við að barnabörnin tvö muni halda lífi í mannskapnum á aðfangadagskvöld.