Skeggbragar Í Íslandsheimsókn sumarið 1879. Willard Fiske, Arthur Middleton Reeves, Matthías Jochumsson og William H. Carpenter.
Skeggbragar Í Íslandsheimsókn sumarið 1879. Willard Fiske, Arthur Middleton Reeves, Matthías Jochumsson og William H. Carpenter.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli | Bókasafnarinn Willard Fiske var mikill Íslandsvinur og velgjörðarmaður. Kristín Bragadóttir rekur sögu hans í nýrri bók og segir meðal annars frá ástríðufullri söfnun hans á íslenskum ritum af ýmsu tagi.

Þegar Fiske bjó í Íþöku hafði hann átt í leynilegu ástarsambandi við auðmannsdótturina Jennie McGraw. Samband þeirra hófst árið 1869. Jennie var fædd 14. september 1840 og hún var veik af berklum frá unga aldri. Faðir hennar, John McGraw, var einn af fyrstu stjórnarmeðlimum og fjárhaldsmönnum háskólans í Cornell og það var hann sem gaf bygginguna fyrir bókasafnið. Faðir Jenniear hafði verið andvígur sambandi þeirra Fiskes, en hann lést 4. maí 1877.

Jennie var mikill listunnandi og naut þess að ferðast um Evrópu, skoða söfn og kaupa listaverk. Jennie fór einu sinni til Norðurlanda og ferðaðist þá um Noreg. Kom hún meðal annars í Guðbrandsdal og fannst náttúran og þorpin, sem hún fór um, heillandi.

Haustið 1879 fór Jennie í eina af mörgum Evrópuferðum sínum. Hún var stödd í Róm þegar Fiske kom frá Íslandi til Berlínar í byrjun nóvember. Milli þeirra gengu bréf og þau hittust í Feneyjum um veturinn og trúlofuðust. Þau héldu brúðkaup sitt 14. júlí 1880 í bandaríska sendiráðinu í Berlín að viðstöddum Andrew White, fornvini þeirra, og nokkrum öðrum kunningjum frá Íþöku, þar á meðal Douglass Boardman dómara.

Á þessu ári, 1880, hafði Fiske fengið dálæti á ítalska skáldinu Petrarca (1304-1374) og hóf söfnun á ritum hans. Það tók drjúgan tíma og atorku. Jennie deild að nokkru áhuga hans á því sviði og gaf honum hátíðarútgáfu þýðinga frá 1534 af verkum Petrarca í fólíóbroti. Hún er meðal þess dýrmætasta í sérstöku Petrarca-safni Fiskes.

Jennie þjáðist mjög af veikindum sínum og fluttu þau hjónin sig til Egyptalands í hlýrra loftslag. Þau leigðu sér svokallaðan dahabeah-fljótabát, sem kallaður var Vonin, og sigldu á Nílarfljóti veturinn 1880-1881 í von um að henni batnaði. Fiske skrifaði Warner, vini sínum, frá Kaíró í október 1880 að þau væru að búa sig undir siglinguna og hefðu ráðið heimamann, Hassan Muhammed Speke, til að vera leiðsögumaður. Honum hafði Fiske kynnst í fyrstu ferð sinni til Egyptalands. Í siglinguna fylgdi líka Hussein Ali sem hafði verið í för með Warner árið 1875. Þeirri ferð lýsti Warner í bók sinni My Winter on the Nile Among the Mummies and Moslems . Að nokkru leyti fóru Fiske-hjónin í spor hans í siglingu sinni. Þau voru ánægð með allan aðbúnað í skipinu sem var íburðarmikið og hafði verið smíðað fyrir fyrrverandi fjármálaráðherra Egyptalands.

Þægindin voru mikil og allt gert til þess að þeim liði vel á siglingunni. Í skipinu var að finna bókasafn, setustofur og matsal auk rúmgóðra svefnklefa. Um borð voru túlkur og leiðsögumaður, þrír þjónar, tveir matreiðslumenn, skipstjóri og sautján hásetar... Þá var skipið lýst með meira en 100 ljóskerum í öllum regnbogans litum.

Nú dró Fiske fram ljóðin sem hann hafði ort til Jenniear mörgum árum áður. Hann gaf ljóðin út á bók eftir andlát hennar ásamt Íslandsljóðum sínum og kallaði bókina J, eins og upphafsstafinn í nafni Jenniear. Ljóðin sýna hug hans til hennar áratug áður, þegar þau voru bæði í Íþöku og John faðir hennar hafði lagst gegn sambandi þeirra. Ljóðunum hafði Fiske því haldið leyndum lengi. Ef til vill gerði hann sér grein fyrir því að tími Jenniear væri senn á þrotum.

Fiske hafði lengi verið hugfanginn af fornleifum. Frá bænum Is-m-kheb skrifaði hann Warner og sagði frá rústum fornra bygginga, opnum grafhýsum þar sem hann tók með sér nokkra muni, meðal annars hluta af múmíu sem hafði legið í grafhýsinu í 3.000 ár. Steinkistur, sem voru fjölmargar á þessum slóðum, freistuðu hans.

Líkt og á Íslandi hafði Fiske auga fyrir verklagi og framförum. Hann tók eftir margs konar framfaraverkum og fannst fráveitukerfi bæjarins afar merkilegt og nútímalegt.

Málamaðurinn Fiske hafði mikinn áhuga á egypska stafrófinu, einkum í sambandi við nútíma-egypsku, og hvernig mætti einfalda það fyrir alþýðufólk. Honum fannst að forn-egypska eða eldra málið væri mál sem ætti við trúna, en nútíma-egypska hentaði fyrir daglegt mál og hversdagslegar gjörðir. Í ferðinni kynntist hann Socrates Spiro Bey, málvísindamanni af grískum ættum, og fékk hann til að taka sig í nokkrar kennslustundir í egypsku. Þarna vaknaði áhugi sem hann átti eftir að þroska og þróa um árabil...

Eftir dvölina í Egyptalandi héldu Fiske-hjónin til Ítalíu á ný. Fiske var enn með hugann við Ísland og ýmis þjóðþrifamál þar. Í maí 1881 skrifaði hann Birni M. Ólsen frá Feneyjum og bað hann að greiða Magnúsi Stephensen 50 krónur til stuðnings Bókmenntafélaginu. Einnig vildi hann láta 50 krónur renna til Lærða skólans til að binda inn bækur lestrarfélagsins og 50 krónur til að greiða Kristjáni Ó. Þorgrímssyni bóksala en hann sendi hærri upphæð til þess að eiga varasjóð hjá Kristjáni til þess að geta pantað prentefni öðru hverju. Þetta átti Björn að annast. Fiske bað líka um upplýsingar um afdrif gufuskipsins Phønix, hvenær það hefði strandað og hvar, hverjir hefðu verið um borð. Hann bætti við að hann hefði ekki séð íslensk blöð mánuðum saman og það fannst honum til vansa. Hann óskaði eftir að bóksalinn sendi sér blöð allt frá 15. desember 1880.

Björn svaraði því til að hann hefði beðið Kristján að senda blöðin Þjóðólf og Ísafold eins og Fiske hafði beðið um og þar mætti lesa um Phønix. Björn var fús til að annast alls kyns fyrirgreiðslu og gera upp reikninga. Það var þó stundum snúið og hann skrifaði: „Allar póstávísanir frá útlöndum og Danmörku verður að senda yfir Kaupmannahöfn.“

Eftir lærdómsríka dvöl en ekki að sama skapi til bóta fyrir heilsu Jenniear héldu hjónin um vorið 1881 frá Egyptalandi um Ítalíu, eins og að ofan greinir, til Parísar. Þegar Jennie hafði safnað nægilegum kröftum til ferðarinnar lögðu hjónin af stað frá Feneyjum til Parísar 21. maí 1881. Miðvikudagskvöldið 25. maí komu þau á Hôtel du Rhin í París til gistingar.

Þrátt fyrir andstreymi vegna hrakandi heilsu Jenniear var Fiske eins og alltaf með hugann við bækur sínar. Hann skrifaði frá Feneyjum til George Harris sem gegndi bókavarðarstarfinu við Cornell-háskólabókasafnið á meðan Fiske var fjarverandi og sagði að í einum af kössunum, sem hann sendi, væru nokkrar bækur. Tvær þeirra (eintök nýbundin í skinn af Gråberg), eins og hann skrifaði, tilheyrðu íslenska kostinum. Hann fyrirskipaði að kassarnir yrðu sendir til Íþöku og ítrekaði að tvær ákveðnar íslenskar bækur væru þar á meðal.

Fiske skrifaði Birni frá París og bað hann um að taka við meðfylgjandi peningum og greiða fyrir auglýsingu um kaup á bókum fyrir sig. Síðan bað hann um að afgangurinn af peningunum færi til „nefndarinnar“ sem væri að undirbúa að reisa styttu af Jóni Sigurðssyni. Í sama bréfi taldi hann upp það sem hann hafði sent Lærða skólanum og Möðruvallaskóla með gufuskipi Slimons frá Leith og bað Björn um að koma varningnum til skila til beggja skólanna. Þetta var meðal annars smásjá, pakki af slæðum fyrir smásjána, nokkrar bækur og tímarit fyrir Íþöku, bækur í náttúrufræði, eðlis- og efnafræði svo og landakort. Tíminn var vel nýttur og margar ákvarðanir teknar því áhugamálin voru margvísleg.