Vernd 43 Venesúelamenn sóttu um vernd hér á landi í nóvember sl.
Vernd 43 Venesúelamenn sóttu um vernd hér á landi í nóvember sl. — Morgunblaðið/Eggert
Yfir helmingur umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi í nóvember, eða 43 einstaklingar, er frá Venesúela en alls bárust Útlendingastofnun 78 umsóknir um vernd þann mánuðinn. Þetta kemur fram í yfirliti sem stofnunin birti á miðvikudag.

Yfir helmingur umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi í nóvember, eða 43 einstaklingar, er frá Venesúela en alls bárust Útlendingastofnun 78 umsóknir um vernd þann mánuðinn. Þetta kemur fram í yfirliti sem stofnunin birti á miðvikudag. Er þetta töluverð fjölgun umsókna þaðan en 144 Venesúelamenn hafa nú sótt um vernd hér á landi það sem af er ári og eru þeir nú fjölmennastir fólks af einstöku þjóðerni sem sótt hefur um vernd á árinu. Til samanburðar hafa 128 Írakar, sem undanfarin ár hafa verið stærsti hópur umsækjenda sem ekki koma frá öruggum upprunaríkjum, sótt um vernd á Íslandi.

Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, segir í samtali við Morgunblaðið að fjölgunin sé í samræmi við það sem er að gerast í öðrum Evrópuríkjum.

Hún staðfestir að að hingað til hafi allar umsóknir Venesúelamanna, sem hafa verið afgreiddar á árinu, verið samþykktar hér á landi.

Þetta segir hún einnig vera sambærilegt í öðrum löndum. „Ástandið í Venesúela er bara talið vera þannig að það er mælst til þess að þessum einstaklingum sé veitt hvort heldur sem er vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi,“ segir Þórhildur. rosa@mbl.is