Guðrún Erna Rúdólfsdóttir
Guðrún Erna Rúdólfsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Ofsaveðrið og rafmagnsleysið á Norðurlandi í síðustu viku hafði áhrif á margar matvöruverslanir.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Ofsaveðrið og rafmagnsleysið á Norðurlandi í síðustu viku hafði áhrif á margar matvöruverslanir.

Guðrún Erna Rúdólfsdóttir, verslunarstjóri Kjörbúðarinnar á Dalvík, sagði að tjón þar vegna rafmagnsleysis væri áætlað á aðra milljón.

„Það var kæli- og frystivara sem skemmdist. Ís, kjötvörur, pakkað álegg og fleira viðkvæmt sem þoldi ekki að missa kælinguna. Maður tekur ekki neina áhættu með það,“ sagði Guðrún. Rafmagnið fór snemma að morgni miðvikudags 11. desember og kom ekki aftur fyrr en aðfaranótt föstudags 13. desember. Verslunin var því lokuð í tvo daga. Þau fengu lánaðan dísilknúinn frystivagn frá GS Frakt ehf.

„Við náðum að bjarga öllu jólakjötinu og miklu af frystivöru,“ sagði Guðrún. Þau fylltu Sæplastskör af kælivöru eins og kældu kjöti og ostum, lokuðu þeim og settu aftast í tengivagninn þar sem varan hélst köld. „Þetta fór miklu betur en það hefði getað farið,“ sagði Guðrún.

Mokuðu út úr búðinni og svo aftur inn

Arna María Sigurbjargardóttir, verslunarstjóri Kjörbúðarinnar á Blönduósi, var ein í vinnunni eftir að óveðrið brast á þriðjudaginn 10. desember og lokaði klukkan 16.00. Venjulega er opið til kl. 18.00. Daginn eftir var ekki opnað fyrr en 12.30.

„Björgunarsveitin kom og mokaði mig út um fimmleytið á þriðjudeginum og ók mér heim. Svo sóttu þeir mig daginn eftir og mokuðu mig inn í búðina,“ sagði Arna María. Rafmagn var mjög óstöðugt aðfaranótt miðvikudags. Kælipressur búðarinnar duttu út vegna rafmagnstruflana og fóru ekki sjálfkrafa aftur í gang. Af því hlaust töluvert tjón.

„Ég þurfti að farga miklu af ís og smávegis af kjötvöru,“ sagði Arna María. „Ég var búin að hugsa um að búa um mig hér á búðargólfinu og vera hér um nóttina. Þessi verslun er eins og barnið mitt. En björgunarsveitin vildi ekki leyfa mér að sofa hér. Ef ég hefði verið hér hefði ég getað gert einhverjar ráðstafanir. Ég viðurkenni það að þegar ég kom hingað á miðvikudagsmorgun var ég rosalega buguð og það runnu tár.“ Í gær var allt að komast í samt lag í Kjörbúðinni á Blönduósi.

Ljósavél fékkst lánuð og bjargaði öllu

„Ég slapp alveg, sem betur fer, en þetta mátti engu muna,“ sagði Ásgeir Björgvin Einarsson, kaupmaður og eigandi hverfisverslunarinnar Hlíðarkaups ehf. á Sauðárkróki. Það hvað þetta fór vel þakkar hann ljósavél sem hann fékk lánaða.

„Ég keyrði á ljósavélinni síðasta sólarhringinn, annars hefði ég orðið fyrir stórtjóni, ég hugsa upp á 5-6 milljónir,“ sagði Ásgeir.

Rafmagnið fór af um kl. 13.30 á þriðjudeginum 10. desember. Ásgeir fékk rafmagn kl. 5.30 morguninn eftir í 1-1,5 klukkustundir. Hann sagðist hafa hringt aftur í Rarik klukkan 10.30 og beðið um að fá aftur rafmagn. „Ég hringdi á þriggja tíma fresti í Rarik og bað um rafmagn og þeir ætluðu að koma því til skila. Ég var að missa frystana ofan í -13 gráður. Ísinn þolir ekki mikið minna frost því þá fer hann að skemmast. Ég fékk engin viðbrögð. Þá gafst ég upp og fékk mér þessa vél,“ sagði Einar. Hann hafði samband við rafverkstæðið Tengil sem útvegaði ljósavélina að láni frá steypustöðinni á staðnum. Vararafstöðin var tengd við búðina á miðvikudeginum og keyrð alveg til kl. 14 á föstudeginum Veiturafmagnið kom aftur um kl. 18 á fimmtudeginum.