Aðgerð Fjölgað hefur á biðlistum.
Aðgerð Fjölgað hefur á biðlistum. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Yfir 90% þeirra sem voru á biðlista eftir brennsluaðgerð á hjarta í byrjun október höfðu beðið lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð og miðgildi biðtíma á tímabilinu var 42 vikur.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Yfir 90% þeirra sem voru á biðlista eftir brennsluaðgerð á hjarta í byrjun október höfðu beðið lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð og miðgildi biðtíma á tímabilinu var 42 vikur.

Viðmiðunarmörk embættis landlæknis um ásættanlegan biðtíma eftir aðgerð eru 90 dagar og er miðað við að 80% komist í aðgerð innan þess tíma.

Því er ljóst að bið eftir þessari tegund aðgerða, sem og fleiri aðgerða, er langt umfram viðmiðunarmörk um ásættanlegan biðtíma.

Þetta kemur fram í greinargerð embættis landlæknis um stöðu á biðlistum eftir völdum skurðaðgerðum.

Bið eftir fleiri aðgerðum er ekki ásættanleg, samkvæmt greinargerðinni, en af þeim 16 aðgerðum sem teknar eru fyrir í henni er biðin einungis ásættanleg í þremur tilfellum.

Athygli vekur að biðlistar á einkareknum stofum blikna verulega í samanburði við biðlista eftir aðgerðum á Landspítalanum.

Þær þrjár aðgerðir sem hafa verið hluti af biðlistaátaki, skurðaðgerðir á augasteini, valdar aðgerðir á grindarholslíffærum kvenna og brottnám legs voru allar með bið sem var lengri en ásættanlegt er.

60% kvenna bíða of lengi

Biðlistar eftir skurðaðgerðum á augasteinum hafa þó styst verulega frá upphafi átaksins sem hófst árið 2016, þó höfðu 36% beðið lengur en í þrjá mánuði í byrjun október, 326 á Landspítala, þrír á Sjúkrahúsinu á Akureyri en enginn á LaserSjón.

Sex af hverjum 10 konum sem biðu eftir völdum aðgerðum á grindarholslíffærum sínum höfðu beðið lengur en í þrjá mánuði.

Fjórar af hverjum 10 konum á biðlista eftir legnámi höfðu beðið lengur en þrjá mánuði. Biðtími stórs hluta kvenna sem fóru í aðgerð á Landspítala á tímabilinu 1. október 2018 til 30. september 2019 var þó innan ásættanlegra marka, að því er fram kemur í skýrslunni.

Biðtími eftir skurðaðgerð á maga vegna offitu hefur aukist mikið þrátt fyrir að aðgerðum hafi fjölgað. 51% þeirra 140 sem biðu eftir slíkri aðgerð í byrjun október hafði beðið lengur en í þrjá mánuði. Í greinargerðinni er tekið fram að of feitum Íslendingum sé að fjölga og offita geti auk annarra fylgikvilla valdið álagi á liði og aukið þörf fyrir liðskipti.

Umfjöllun um liðskiptaaðgerðir var ekki hluti af greinargerðinni en umfjöllun um þær verður birt síðar.

Í opnu bréfi til heilbrigðisráðherra sem birtist í blaðinu í dag lýsir Kjartan Halldór Antonsson veruleika þeirra sem kljást við íslenska heilbrigðiskerfið í von um liðskipti.

Loka mikilvægri þjónustu yfir jólin

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Allar dagdvalir heilabilaðra á landinu eru lokaðar yfir jól og áramót og veldur það aðstandendum áhyggjum.

Lokanirnar eru tilkomnar vegna þess að Sjúkratryggingar Íslands greiða bara ákveðinn fjölda komudaga á ári og eru helgar og hátíðisdagar ekki inni í þeim komudögum.

Þetta segir Hrönn Ljótsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Ísafoldar í Garðabæ. Þar verður einnig lokað 27. og 28. desember svo hægt sé að sinna viðhaldi.

„Við gætum gert þetta miklu betur ef við hefðum meira fjármagn. Það væri frábært ef við gætum haft opið hérna um helgar og þessa stórhátíðardaga og gætum þá haft meiri samfellu.“

Hrönn segir að dagdvöl fyrir heilabilaða sé mikilvægt og hlutfallslega ódýrt úrræði sem styður við áframhaldandi búsetu heilabilaðra á eigin vegum.

„Það er ljóst að þeim sem þurfa á þjónustu dagdvalar að halda mun halda áfram að fjölga. Það er því einkennileg og ómarkviss forgangsröðun hjá stjórnvöldum að draga úr fjármagni til rekstrarins.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra birti pistil í Morgunblaðinu í gær þar sem hún tók m.a. fram að þjónusta við heilabilaða yrði „að vera óslitin allt frá greiningu sjúkdómsins“.

Í samtali við blaðamann segir Svandís að hún þekki ekki til skertrar þjónustu dagdvala yfir hátíðirnar. Æskilegast sé þó að þjónustan sé óslitin eins og kostur er.