Smiðir Eyjólfur með nafna sínum og föður sem er Axelsson. Sá er meistari sonarins í námi hans í húsgagnasmíði.
Smiðir Eyjólfur með nafna sínum og föður sem er Axelsson. Sá er meistari sonarins í námi hans í húsgagnasmíði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnúss.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Eftir að hafa lært trésmíðina lít ég margt í framleiðslunni hér öðrum augum en var. Tilfinning mín fyrir faginu verður önnur og betri en var.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Eftir að hafa lært trésmíðina lít ég margt í framleiðslunni hér öðrum augum en var. Tilfinning mín fyrir faginu verður önnur og betri en var. Handverkið er mikilvægur þáttur í allri smíðavinnu, það er að huga að smáatriðunum og nostra við hlutina,“ segir Eyjólfur Eyjólfsson nýútskrifaður úr húsgagnasmíði. Hann brautskráðist frá Tækniskólanum – skóla atvinnulífsins sl. miðvikudag. Námið tók Eyjólfur á þremur önnum jafnhliða starfi sínu sem framkvæmdastjóri og annar eigenda trésmiðjunnar Axis í Kópavogi.

Fljótur með faggreinarnar

Að læra húsgagnasmíði segir Eyjólfur að hafi verið gamall draumur sinn. „Ég er nánast alinn upp hér í trésmiðjunni sem Axel Eyjólfsson afi minn stofnaði árið 1935. Hér vann ég á sumrin sem unglingur en þá var Eyjólfur Axelsson faðir minn tekinn við rekstrinum. Eftir stúdentspróf lærði ég lögfræði við Háskóla Íslands og starfaði eftir það í nokkur ár hjá sýslumanninum á Ísafirði og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Það var svo árið 2006 sem við Gunnar bróðir minn keyptum fyrirtækið af föður okkar og hér hef ég verið síðan,“ segir Eyjólfur.

Axis er stórt fyrirtæki og þar eru framleiddar innréttingar, borð, skápar, skrifstofuhúsgögn og svo framvegis. Starfsmenn eru í dag 28 talsins, að meirhluta menntaðir smiðir:

„Í svona rekstri þarf maður að vera vakandi yfir málum allar stundir. Þegar ég svo vissi að tími minn væri orðinn rýmri og svigrúmið meira ákvað ég síðan að skella mér í trésmíðanámið, eins og lengi hafði staðið til. Byrjaði í Tækniskólanum á haustönn í fyrra og gat þá strax flýtt fyrir mér með því að vera búinn með grunnáfanga bóknámsins og komst fljótt í gegnum margar faggreinar með raunfærnimati. Áfanga í fagteikningu og verklega námið í húsgagnasmíði tók ég hins vegar í skólanum og þá var ég – fimmtugur maðurinn – í tímum hjá kennurum sem margir voru mér yngri og samnemendurnir gjarnan um tvítugt. Þetta var samt mjög skemmtilegt.“

Skúrkurinn og sjússinn

Eyjólfur hefur verið á námssamningi hjá föður sínum. Sveinsprófið stendur til að taka í vor, en skólanáminu er lokið með eftirminnilegu lokaverkefni.

„Já, þegar ég var unglingur voru Dallas-þættirnir vinsælasta sjónvarpsefnið. Úr þeim þáttum var mér minnisstætt skrifborðið sem J.R. Ewing hafði og þurfti ekki annað en ýta á takka og þá opnaðist gat og upp kom viskíflaska. Skúrkurinn var líka alltaf að fá sér sjúss, kvölds og morgna. Ég fann gamla Dallasþætti á netinu þar sem J.R. var gjarnan að hella sér viskíi í glas en ég fann ekki barinn inni á skrifstofunni og þurfti því að teikna hann eftir minni. Það gerði ég í síðasta teikniáfanganum í skólanum. Svo var smíðað eftir þeim í verklega hluta námsins. Og hingað er húsgagnið nú komið; í trésmiðju í Kópavogi og sómir sér vel, rétt eins og gripurinn gerði hjá olíugreifunum í Texas.“