Stefan Ingves bankastjóri.
Stefan Ingves bankastjóri.
Sænski seðlabankinn hækkaði í gær stýrivexti bankans sem eru nú í fyrsta sinn í fimm ár ekki neikvæðir. Stýrivextir voru hækkaðir úr -0,25 prósentustigum í 0.
Sænski seðlabankinn hækkaði í gær stýrivexti bankans sem eru nú í fyrsta sinn í fimm ár ekki neikvæðir. Stýrivextir voru hækkaðir úr -0,25 prósentustigum í 0. Ástæðan er sögð vera auknar áhyggjur af áhrifum neikvæðra stýrivaxta á hagkerfi landsins, fyrirtæki og fjárfesta, að því er segir í Financial Times. Í leiðsögn bankans kom fram að stýrivextir yrðu við núllið á næstu árum en peningastefnunefnd bankans bætti þó við að hún gæti þurft að lækka þá fari efnahagshorfur versnandi. Peningastefna sænska seðlabankans, sem er sá elsti í heimi, hefur verið gagnrýnd allt frá fjármálahruninu árið 2008. Bankinn hækkaði stýrivexti árin 2010 2011 og var fyrir það harðlega gagnrýndur af nóbelsverðlaunahafanum Paul Krugman, sem lýsti peningastefnu bankans sem „sjálfskvalarpeningastefnu“. Stýrivextirnir fóru lægst niður í -0,5%, frá 2016 til byrjunar þessa árs. Bankinn hélt vöxtum svo lágum þetta lengi í þeirri viðleitni að ná fram 2% verðbólgumarkmiðum eftir að hafa nálgast stig verðhjöðnunar. Hækkunin hefur þegar verið gagnrýnd af hagfræðingum þar sem hún er sögð auka taumhald peningastefnunnar á sama tíma og sænskur efnahagur gefur eftir.