Árni Gunnarsson
Árni Gunnarsson
Öryggi farþega var ekki stefnt í hættu þegar slökkva þurfti á öðrum hreyfli flugvélar Air Iceland Connect og snúa henni við til lendingar skömmu eftir flugtak á Reykjavíkurflugvelli í ágúst í fyrra.

Öryggi farþega var ekki stefnt í hættu þegar slökkva þurfti á öðrum hreyfli flugvélar Air Iceland Connect og snúa henni við til lendingar skömmu eftir flugtak á Reykjavíkurflugvelli í ágúst í fyrra.

Þetta segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins. Rannsóknarnefnd samgönguslysa gaf út lokaskýrslu um atvikið í gær, sem flokkað er sem alvarlegt flugatvik. Þar er reynsluleysi flugvirkja sögð frumorsök atviksins, sem og að yfirmenn og flugvirkjar á viðhaldssviði hafi ekki fylgt verklagi.

Flugmenn vélarinnar, sem er af gerðinni Bombardier DHC-8-402, lýstu yfir neyðarástandi tveimur mínútum eftir flugtak frá Reykjavíkurflugvelli eftir að vélin hafði misst olíuþrýsting á hægri hreyfli. Lendingin gekk vel.

„Það er einfaldlega slökkt á hreyflinum við þennan olíuleka og það að fljúga á einum hreyfli er ekki vandamál fyrir þessar vélar þannig að það er ekki hægt að segja um þetta atvik að það hafi verið mikil hætta á ferðum,“ segir Árni.

Verklagi breytt eftir atvikið

Flugvélin var grandskoðuð eftir lendingu og í ljós kom mikill olíuleki á hægri hreyflinum. Þrír flugvirkjar áttu að vera á svokallaðri línuvakt en aðeins tveir voru á vakt vegna sumarfría og aðeins annar þeirra var með tilskilin réttindi á vélina sem um ræðir. Hann var hins vegar upptekinn í öðrum verkefnum og náði ekki að yfirfara vélina.

Air Iceland Connect rannsakaði einnig atvikið og var vaktakerfi í viðhaldsstöð breytt í kjölfarið. Árni segir að breytingarnar tryggi að atvik á borð við þetta komi ekki upp aftur og ávallt séu flugvirkjar á vakt með tilskilin réttindi á vélar flugfélagsins. „Við fórum vandlega í gegnum þetta atvik innanhúss og það var brugðist við því strax. Við teljum okkur vera komin með verklag sem kemur í veg fyrir að svona atvik gerist aftur,“ segir Árni og ítrekar að breytingarnar séu í samræmi við niðurstöður skýrslu nefndarinnar.