Óveður Slökkviliðið á Sauðárkróki aðstoðaði starfsmenn Rarik við að afísa rafspenna með heitu vatni í óveðrinu sem gekk yfir landið í síðustu viku.
Óveður Slökkviliðið á Sauðárkróki aðstoðaði starfsmenn Rarik við að afísa rafspenna með heitu vatni í óveðrinu sem gekk yfir landið í síðustu viku. — Ljósmynd/Birgir Bragason
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við þurfum öll að leggjast á árar og finna farsæla lausn á þessum málum,“ segir Svavar Atli Birgisson, slökkviliðsstjóri í Skagafirði og fulltrúi í almannavarnanefnd sveitarfélagsins.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við þurfum öll að leggjast á árar og finna farsæla lausn á þessum málum,“ segir Svavar Atli Birgisson, slökkviliðsstjóri í Skagafirði og fulltrúi í almannavarnanefnd sveitarfélagsins.

Almannavarnanefnd Skagafjarðar sendi frá sér harðorða ályktun í kjölfar ofsaveðursins sem gekk yfir í síðustu viku. Er þar krafist að farið verði í bráðaaðgerðir til að tryggja almannaöryggi í Skagafirði; tengingu Gönguskarðsárvirkjunar við rafmagnskerfi Sauðárkróks, Tetra-sendir verði settur upp í Hegranesi og á þaki sjúkrahússins á Sauðárkróki auk þess sem tvær varaaflsstöðvar verði settar upp að nýju.

Í ályktuninni kemur fram að ekki hafi mátt miklu muna að illa færi í óveðrinu mikla: „Það var eingöngu tilviljun ein og í raun mikil mildi að ekki varð manntjón í óveðrinu þegar senda þurfti björgunarsveitarmenn upp á Tindastól til að slá Tetrasendinum þar inn á meðan veðrið hér stóð sem hæst.“

Svavar Atli segir í samtali við Morgunblaðið að tveir menn hafi verið sendir upp á Tindastól á vélsleðum auk þess sem snjóbíll fór aðra leið upp. Tindastóll er 989 metrar á hæð.

„Það var gufubrjálað veður og virkilega mikill vindhraði. Sleðamennirnir týndu hvor öðrum á tímabili og snjóbíllinn var ekkert nálægt. Það var engin staðsetning á þeim og stöð annars þeirra var að verða batteríslaus, hún var komin á rautt en hékk þó inni. Þetta bjargaðist en hefði getað orðið verra á stuttum tíma,“ segir hann. Gripið var til þess ráðs að skilja annan sleðann eftir uppi á fjallinu.

Svavar segir að þessi uppákoma sýni vel að úrbóta sé þörf. Hann segir að Neyðarlínan hafi viljað leggja ljósleiðara upp á fjallið sem myndi tryggja öruggara samband við sendinn en hafi ekki náð saman við landeiganda. Svavar segir að auk truflana á Tetra-kerfi í óveðrinu hafi fjarskiptakerfi við skip skaddast í óveðrinu á Tindastóli.

„Við vorum búin að funda með Neyðarlínunni í ágúst síðastliðnum þar sem við viðruðum áhyggjur af Tetra-sambandinu í firðinum. Það var reifað á þessum fundi að við þyrftum nýja senda og Neyðarlínan var sammála því að fara þyrfti í þá vinnu. Við teljum til dæmis að aukasendi vanti á Þverárfjalli og sendum bréf þess efnis á Fjarskiptasjóð fyrir fjórum mánuðum. Við höfum ekki fengið nein svör við því bréfi.“

Mótmæla yfirlýsingum

Fjölmargir viðbragðsaðilar á Norðurlandi vestra sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þeir mótmæltu málflutningi framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar í Kastljósi á mánudag.

Segir í yfirlýsingunni að „ekki hafi verið hægt að treysta á Tetra-kerfið“ meðan aftakaveður gekk yfir landið.

Upplifun þeirra af virkni kerfisins og uppitíma hafi verið önnur en framkvæmdastjórinn hafi gefið upp í umræddum þætti.