Nuuk Nýja skólabyggingin mun falla vel að umhverfinu en þó mun hún vekja athygli vegfarenda.
Nuuk Nýja skólabyggingin mun falla vel að umhverfinu en þó mun hún vekja athygli vegfarenda.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Ístak hefur orðið hlutskarpast í útboði um uppbyggingu nýs grunnskóla í Nuuk, höfuðstað Grænlands. Tilboð Ístaks hljóðaði upp á 615 milljónir danskra króna, jafnvirði 11,3 milljarða króna.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Ístak hefur orðið hlutskarpast í útboði um uppbyggingu nýs grunnskóla í Nuuk, höfuðstað Grænlands. Tilboð Ístaks hljóðaði upp á 615 milljónir danskra króna, jafnvirði 11,3 milljarða króna. Karl Andreassen, forstjóri Ístaks, er að vonum ánægður með niðurstöðuna en í lokahluta útboðsins atti fyrirtækið kappi við verktakafyrirtækið MT Højgaard. Athygli vekur að tilboð Ístaks var fimm milljónum DKK hærra en keppinautarins en varð þó fyrir valinu.

„Við unnum samkeppnina á stigum þótt verðið hafi verið eilítið hærra. Útfærslan hjá okkur þótti henta betur, m.a. hvernig byggingin mætir þörfum skólans og þeirrar starfsemi sem þarna mun fara fram,“ segir Karl.

Viðhaldskostnaður skoðaður

Hann bendir á að í útboðinu hafi m.a. verið gerð krafa um að þátttakendur gerðu grein fyrir því hvernig rekstrarkostnaður hússins yrði til næstu 30 ára.

„Þar skiptir miklu að sýna fram á að verið sé að nota viðhaldslétt og slitsterkt byggingarefni. Einnig er mikilvægt að útlista með hvaða hætti umhirðu og öllum rekstri hússins skuli háttað á þessu tímabili til þess að lágmarka viðhalds- og rekstrarkostnað hússins.“

Segir Karl að þessi þáttur tilboðsins hafi verið unninn í samstarfi við danska ráðgjafarfyrirtækið OBH sem sérhæfir sig í rekstri bygginga.

Tilboðið vann Ístak í samstarfi við Verkís og KHR. Fyrirtækin eru alls ekki ókunnug þegar kemur að verklegum framkvæmdum á þessu svæði. Ístak vann m.a. að uppbyggingu nýrrar stórskipahafnar í Nuuk sem tekin var í gagnið í fyrra og hefur komið að uppbyggingu nær allra vatnsaflsvirkjana á Grænlandi. Þá unnu Ístak og KHR saman að annarri skólabyggingu í bænum fyrir nokkrum árum þegar Hans Lynge-grunnskólinn var reistur. Karl segir að nýja grunnskólabyggingin muni gegna mikilvægu hlutverki í bæjarfélaginu. Þannig mun hún ekki aðeins hýsa 1.200 grunnskólanemendur og 120 börn á dagheimili og í leikskóla.

Menningarmiðstöð í Nuuk

„Skólinn verður einnig nýttur sem félagsmiðstöð eða menningarhús á kvöldin. Þannig er í raun verið að byggja yfir unga sem aldna. Stór hluti skólans, þ.e. íþróttahúsið og samkomusalurinn verða nýtt með þessum hætti og eru nefnd hjartarýmið (d. hjerterum).“ Segir Karl að þessi nálgun geri það að verkum að skólinn verði einskonar miðpunktur í bæjarlífinu og að hann tengi sömuleiðis við miðbæinn sem endastöð svæðis sem nefnt er Kulturaksen.

Íslendingar sem ferðast hafa til Nuuk hafa margir hverjir dvalið á Hans Egede-hótelinu en byggingarsvæðið er við hliðina á því.

„Byggingin verður í heildina um 16.000 fermetrar og hún er fremur lágreist. Okkur fannst upplagt að láta hana falla vel inn í umhverfið en á sama tíma má hún ekki vera of einföld í útliti. Dagheimilið og leikskólinn verða í öðrum endanum og á einni hæð en eftir því sem ofar dregur á skólastiginu eru hæðir hússins fleiri. Byggingin verður því einskonar tröppugangur.“

Karl segist spenntur fyrir þessu verkefni og að það sé gaman að vinna að uppbyggingu í Grænlandi.

„Við gerum ráð fyrir að verktíminn verði um þrjú ár. Núna höldum við áfram með hönnunarvinnuna og við byrjum að flytja búnað og mannskap til Nuuk í mars eða apríl.“

Erfitt að fá starfsfólk í Nuuk

Gerir hann ráð fyrir að um 60 manns muni vinna að byggingunni frá Ístaki þegar mest lætur en að með undirverktökum telji hópurinn vel yfir 100.

„Við viljum fá sem flesta heimamenn að verkinu en það er erfitt að fá starfsfólk því það er mikill uppgangur í Nuuk.“

Spurður út í framkvæmdakostnaðinn segir Karl að hann sé að mörgu leyti sambærilegur við þann kostnað sem við sjáum hér á landi.

„Það verður þó að taka tillit til þess að öll aðföng eru mjög dýr á Grænlandi og við þurfum að gera miklar ráðstafanir, t.d. að flytja öll tækin okkar á staðinn ásamt því að hýsa og fæða mannskap okkar.“

Hann segir einnig að það geti valdið misskilningi í samanburði við framkvæmdakostnað hér á landi að í tölunum á Grænlandi er ekki að finna neinn virðisaukaskatt.

„Það kemur einfaldlega til af því að það er enginn virðisaukaskattur innheimtur á Grænlandi. Væri hann svipaður og á Íslandi myndi verkkostnaðurinn hækka töluvert.“