Helgi Brynjar Þórisson fæddist 19. janúar 1942. Hann lést 18. nóvember 2019.

Útför Helga fór fram 13. desember 2019.

Röng útgáfa greinarinnar birtist á útfarardag en þar vantaði síðustu málsgreinina og er hún því endurbirt í held sinni.

Fyrst kynntumst við á tilraunadagheimilinu Ósi við Dugguvog. Þar var dóttir þeirra Sonju Andrea og strákarnir okkar Nínu Benni og Gestur. Svo urðu það hestar sem tengdu okkur saman, síðan margvísleg verkefni og skemmtun, einkum ódýrar heimagerðar skemmtanir. Helgi var allra manna greiðviknastur. Þegar þurfti að flytja fyrst af Brekkustíg á Holtsgötu, svo þaðan í Drápuhlíð og svo seinna í Ártúnsblett og austur á Eyrarbakka þá var Helgi þar að flytja, bera, mála, tengja og setja í samband. Þegar það þurfti að undirbúa veislur eða jól þá var Helgi þar að hátta rjúpurnar og gera þeim til góða. Þegar þurfti að sækja kjöt af heimaslátruðu út á land þá mætti hann og við keyrðum saman náttlangt. Þá var margt rætt, til dæmis hestar. Við fórum saman á landsmót hestamanna í Skógarhólum 1978 og horfðum stóreygir að ekki sé meira sagt á Náttfara frá Ytra-Dalsgerði liggja flatan á skeiði. Um það var oft rætt mikið og lengi með viðeigandi hlátrum, kumri og gleði. Þegar við urðum matarlaus og veðurteppt að drepast úr kulda í hestaferð uppi á Kaldadal þá ók bíll framhjá okkur og ég lét bílstjórann hafa miða með símanúmeri Helga og Sonju. Ótrúlega skömmu seinna kom rauður sendiferðabíll með mat, föt og lífsvökva. Helgi og Sonja.

Helgi Þórisson var allra manna skemmtilegastur. Á löngum ferðum okkar sagði hann sögur úr Grímsey en ég af Fellsströndinni. Endaði með því að okkur fannst báðum að við þekktum þessi pláss utan að og mundum ekki alveg hvor okkar var frá Grímsey og hvor af Fellsströndinni. Hitt man ég hvað okkur fannst báðum að við værum ofboðslega skemmtilegir. Þegar sögurnar þraut var sungið; er ekki viss um að við hefðum verið teknir í Metrópólitan en tilþrifin voru gríðarleg. Ekki síst var það fyrsta plata Megasar sem varð fyrir barðinu á þessum geigvænlegu hljóðum. Sumir gagnrýnendur hefðu kannski talað um óhljóð; skilningslausir á inntakið sem var gleðin. Stuðið.

Aðallega voru það samt hestarnir. Venus og Perla og Stóri-Blesi sem Sonja átti. Þvílíkt fólk, þvílíkir hestar. Og krakkarnir þeirra Sonju:

Andrea snemma skýr blandaði sér í umræður og vildi tafarlaus svör: Ertu hommonisti Svavar, og Ómar lagði gjörva hönd á margt, til dæmis minkabú í Flóanum sem hann vildi opna eins og eðlilegt var fyrir innilokuðum dýrunum.

Ég vil fyrir mína hönd og þeirra sem næst mér standa þakka fyrir að hafa átt Helga að vini og hjálparhellu. Flyt með þessum línum samúðarkveðjur okkar til Sonju og allra krakkanna.

Helgi Þórisson var drengur góður.

Svavar Gestsson.