Curio flakar fisk frá 300 grömmum upp í 20 kíló með sex mismunandi útgáfum af flökunarvélum. Fyrirtækið framleiðir um eina vél á viku, eða um 52-54 vélar á ári.
Curio flakar fisk frá 300 grömmum upp í 20 kíló með sex mismunandi útgáfum af flökunarvélum. Fyrirtækið framleiðir um eina vél á viku, eða um 52-54 vélar á ári.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Afar spennandi tímar eru framundan hjá tæknifyrirtækinu Curio. Marel festi nýlega kaup á stórum hluta í fyrirtækinu sem getur nú með aukinni framleiðslugetu nýtt sér víðfeðmt sölunet Marels. Stofnandi Curio segir ekki langt þar til sameiginlegar vörur fyrirtækjanna verði til.

Pétur Hreinsson

peturh@mbl.is

Það er auðvitað spennandi að fara úr tveimur sölumönnum í um það bil 792. En ég myndi segja að stóra málið frá mínum bæjardyrum séð sé að samnýta þróunar- og tæknisviðin. Að stytta okkur leið og flýta fyrir fæðingu á nýjum tækjum. Það er örugglega ekki langt í það að það fæðist sameiginlegar vörur,“ segir Elliði Hreinsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Curio, um samstarf fyrirtækisins við Marel sem festi kaup á 40% hlut í Curio fyrir stuttu. Við þann hlut bætast 10% árið 2021 auk forkaupsréttar á stærri hlut síðar meir.

Elliði hefur í nógu að snúast þessa dagana og er blaðamaður sló á þráðinn hafði hann nýlokið fundahöldum með „stóra bróður“ í Garðabæ, eins og hann kallar Marel.

„Það er verið að hrista saman deildirnar. Við keyrum áfram sem sjálfstæð eining en gerum samstarfssamninga í sölu-, markaðs- og þróunarmálum. Marel verður sjálfkrafa umboðsaðili alls staðar þar sem við erum ekki með umboðsaðila fyrir. Við bætum því við okkur stóru markaðssvæði. Jafnvel nokkrum heimsálfum,“ segir Elliði og hlær og bætir því við að Curio hafi verið tannhjól sem fellur vel inn í starfsemi Marels.

„Við rekumst hvergi á Marel í framleiðslu. Marel vantaði okkar vöru inn í hvítfiskslínurnar hjá sér til þess að loka pakkanum. Það að bjóða heildarlausnir er alltaf að aukast; að einn aðili komi og skaffi allt í verksmiðjurnar. Þá lá beinast við að draga okkur að borðinu. Við höfðum unnið með Marel áður í verkefnum sem heppnuðust mjög vel bæði innanlands og utan.“

Heppilegur tímapunktur

Að hans sögn er þó mikilvægt fyrir Curio, sem hlaut nýsköpunarverðlaun Íslands í ár, að fara skipulega og rólega af stað. „Svo við verðum ekki kafkeyrð,“ segir Elliði sem stofnaði Curio árið 2008.

Aðalstarfsemi fyrirtækisins, sem framleiðir og þróar fiskvinnsluvélar, fer fram hér á landi. Curio er starfandi í fjórum húsum í Hafnarfirði og hefur auk þess útibú, þjónustu- og framleiðsludeild á Húsavík. Spurður hvort fyrirtækið geti nýtt sér hið mikla sölunet Marels um allan heim og annað allri þeirri eftirspurn sem slíkt net býður upp á, segir Elliði að fyrirtækið sé í góðri stöðu.

„Það vill svo skemmtilega til með þennan tímapunkt að við höfum nýlega lokið við fimm ára uppbyggingu. Við vorum að byggja hérna tvö hús og bæta við okkur fjölda framleiðsluvéla og tækja. Við vorum líka að taka í notkun nýja þjónustu- og framleiðsludeild í Skotlandi. Þetta passar því vel og við erum klár til þess að gefa ansi vel í núna,“ segir Elliði en fyrirtækið hefur hreiðrað um sig í Peterhead í Skotlandi, skammt frá Aberdeen. Ástæðan fyrir þeirri staðsetningu er einföld.

„Þar er stærsti fiskmarkaður í Evrópu. Við sjáum fram á að þar verði mikil uppbygging í fiskvinnslu á næstu árum.“

Klár í slaginn í janúar

Að sögn Elliða hefur sala á vélum ekki stjórnað veltu fyrirtækisins heldur er það framleiðslugetan sem hefur verið í botni. Þrátt fyrir fyrrnefnd orð um að vilja fara skipulega og rólega af stað hyggst fyrirtækið aftur á móti nýta sér aukinn tækjakost og rými og stefnir á að tvöfalda framleiðsluna á næsta ári.

„Akkúrat núna erum við að taka í notkun rúmlega 1.300-1.400 fermetra í viðbót og erum að fá meira af nýjum framleiðsluvélum. Á næsta ári hugsa ég að við ættum að geta farið létt með að tvöfalda framleiðslugetu okkar. Við verðum klár í slaginn strax í janúar,“ segir Elliði.

Tekjur Curio munu að sögn Elliða nema 10-12 milljónum evra í ár, eða um 1,4 til 1,7 milljörðum króna. Stærstur hluti tekna fyrirtækisins felst í sölu á flökunarvélum sem aðgreindar eru í sex mismunandi útfærslum. Fyrirtækið framleiðir um það bil eina vél á viku, eða um 52-54 vélar á ári, en þar af nemur fjöldi flökunarvéla um 17-20, sem jafnframt eru dýrustu vörur fyrirtækisins.

„Við erum að flaka fisk í dag með mismunandi útfærslum á vélinni frá 300 grömmum upp í 20 kíló. Fisk sem er 300 grömm með haus; hornsíli. Stærsti fiskurinn sem við getum flakað er 20 kíló. Við ráðum því við ofboðslega breitt svið. Um er að ræða fimm vélar fyrir hvítfisk, frá „extra small“ til „extra large“. Svo erum við með eina vél fyrir lax og silung sem verið er að leggja lokahönd á,“ segir Elliði, en auk þess framleiðir fyrirtækið fjöldann allan af öðrum vélum.

„Svo framleiðum við hausara fyrir hvítfisk og lax í nokkrum útgáfum sem sker hausinn af. Og svo erum við að framleiða roðflettivélar, brýningarvélar og ýmislegt annað í kringum þetta. En flökunarvélarnar eru aðalvaran,“ segir Elliði.

Langur listi þróunarverkefna

Í ofanálag eru ýmis þróunarverkefni í gangi hjá Curio. Fyrirtækið hlaut fyrr á þessu ári 2,3 milljóna evra styrk frá Evrópusambandinu um nýja klumbuskurðarvél, sem sker klumbubeinið af bolfiski.

„Klumban er beinið sem liggur aftan við hausinn, frá hnakkastykki og niður á maga og er svolítið stórt bein. Þeir sem flaka fiskinn svona þurfa að byrja á því að skera þetta bein af. Það hefur ýmist verið gert í höndum eða þá í breyttum vélum sem eru kannski ekki beint til þess ætlaðar, og oft með lélegum árangri. Þessi vél tekur fiskinn inn, tölvumælir þykkt hans, hæð, og lengd og er svo með tölvustýrða róbóta sitt hvorum megin sem skera beinið af í ákveðnu bogaskurðarferli til þess að hámarka nýtingu,“ segir Elliði.

Aðspurður hvort fyrirtækið geti haldið endalaust áfram að þróa nýjar vélar og hvort fiskiðnaðurinn sé að nálgast endastöð hvað þessa þróun varðar, segir Elliði það af og frá.

„Við erum með mjög langan lista af þróunarverkefnum,“ segir Elliði og hlær.

„Það sem er að eiga sér stað í fiskiðnaði er hin umtalaða fjórða iðnbylting. Það er verið að vélvæða mörg störf. Þetta hélt innreið sína í kjöt- og kjúklingaiðnaði fyrir rúmum 20 árum. Og núna er þetta farið á fullt í fiskiðnaði. Það opnar náttúrlega gífurlega mikið af tækifærum til að hanna og þróa nýjan vélbúnað. Það er nóg eftir. Þetta byggist allt á því að byrja á því að taka erfiðustu störfin út þar sem hægt er að auka nýtinguna. Svo er hreinlega verið að minnka leiðigjörn störf þar sem fólk er kannski að raða bitum allan daginn,“ segir Elliði.

Hann nefnir einnig mikilvægi þessarar sjálfvirknivæðingar fyrir íslenska fiskvinnslu í heild sinni.

„Við verðum náttúrlega að horfast í augu við það að Ísland er með mjög dýrt vinnuafl miðað við t.d. Austur-Evrópu eða Kína. Menn þurfa að leita allra leiða hér ef þeir ætla að geta keppt. Þá þarf að finna leiðir til þess að fjölga kílóum á tímann í gegnum vinnslurnar þannig að launakostnaður hér sé sambærilegt hlutfall við það sem gerist annars staðar,“ segir Elliði.