Jakob Pálmi Hólm Hermannsson fæddist 26. desember 1929 á Hruna í Naustahvammi á Neskaupstað. Hann lést á Grund í Reykjavík 29. nóvember 2019.

Foreldrar hans voru Hermann Jónsson frá Auðnum í Sæmundarhlíð, f. 22. nóvember 1897, d. 31. ágúst 1991, og Jóhanna Hjörleifsdóttir frá Naustahvammi, f. 25. október 1903, d. 29. desember 1993. Systkini Jakobs eru Magnús Halldór, f. 27. júní 1926, d. 29. nóvember 2001, og Margrét Guðbjörg, f. 24. júlí 1937. Kjörsystir Jakobs er Hjördís Þóra Hólm, f. 13.4. 1956.

Jakob kvæntist Ástu Garðarsdóttur 20. október 1951. Hún er fædd 6. mars 1931 á Fáskrúðsfirði. Foreldrar hennar voru Garðar Kristjánsson frá Kirkjubóli í Stöðvarfirði, f. 27. september 1909, d. 6. febrúar 1964, og Guðbjörg Erlín Guðmundsdóttir frá Búðum, Fáskrúðsfirði, f. 15. júlí 1911, d. 24. mars 2003.

Börn Jakobs og Ástu eru: 1) Jóhanna Jakobsdóttir, f. 16. nóvember 1952, gift Dennis Magditch. 2) Björg Hólm Jakobsdóttir, f. 13. mars 1954, gift Ómari Eyfjörð Friðrikssyni. 3) Hjörleifur Þór Jakobsson, f. 7. apríl 1957, kvæntur Hjördísi Ásberg. 4) Herdís Hólm Jakobsdóttir, f. 14. ágúst 1961. Barnabörn Jakobs og Ástu, beint og á ská, eru átján og barnabarnabörnin tuttugu og sex.

Jakob ólst upp á Norðfirði. Þar voru hans rætur og var hann virkur í félagslífi þar í bæ. Jakob hóf nám í vélvirkjun árið 1948 í Iðnskólanum á Norðfirði og lauk sveinsprófi þaðan árið 1952 og síðar meistaraprófi í sömu grein. Vélvirkjun átti hug hans allan en hann þurfti að hætta í þeirri vinnu vegna liðagigtar. Í framhaldinu vann Jakob hjá Sparisjóðnum á Norðfirði í stuttan tíma en þau hjónin fluttu síðan með börnin til Reykjavíkur 1963 þar sem Jakob starfaði sem fulltrúi hjá Einari J. Skúlasyni og síðar sem skrifstofustjóri hjá Jóni Loftssyni.

Eftir að Jakob og Ásta hættu að vinna byggðu þau sumarbústað í Skorradal.

Jakob dvaldi síðasta rúma árið á Grund þar sem hann lést.

Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 20. desember 2019, klukkan 11.

Hann pabbi er dáinn. Hann átti 27 daga í nírætt þegar hann dó. Heilsan hafði ekki verið góð undanfarin ár en samt kom þetta okkur á óvart. Hugsun hans var mjög skýr, minnið óbrigðult og húmorinn beittur. Maður gat ennþá talað við kallinn um alla hluti og og við héldum að hann ætti mörg ár eftir. Sennilega var það bara afneitun; lífsviljinn var horfinn, pabbi ágætlega sáttur við sitt lífsverk og tilbúinn að kveðja.

Pabbi var vel af guði gerður og átti góða æsku. Hann var virkur í félagsstarfi, spilaði á mandólín, söng í kór og var áhugaljósmyndari. Hann fór í vélvirkjun því að nákvæmnisvinna hentaði honum vel og dúxaði öll árin í iðnnáminu. Pabbi kynntist mömmu ungur og þau stofnuðu heimili á Norðfirði og börnin komu eitt af öðru.

Pabbi þurfti að hætta í vélvirkjun vegna handameina og ungu hjónin fluttu í bæinn þar sem pabba bauðst starf hjá Einari J. Skúlasyni (EJS). Starfið fólst í því að vera fulltrúi Einars, sjá um innkaup, starfsmannamál og rekstur verkstæðis. Lífið gekk vel á mölinni. Pabbi vann hjá Einari í mörg ár og færði sig svo yfir til Jóns Loftssonar sem skrifstofustjóri. Strax um haustið ´64 keyptu þau hálfbyggt hús í Kópavoginum og tveimur árum seinna fluttum við þar inn, allt fullklárað og teppi út í horn. Pabbi var mjög ánægður að koma fjölskyldunni í öruggt umhverfi. Hann sagði okkur að Heddý litla hefði strax hlaupið út á götu og stappað í jörðina og sagt „hér má ég leika“ en slíkt var illa hægt á Hverfisgötunni. Kópavogurinn varð okkar heimili, þar eignuðumst við okkar vini og þarna eru ræturnar.

Fyrir sunnan tók pabbi upp önnur áhugamál; hann fór að keppa í skotfimi, æfði júdó og síðan hafði hann mikinn áhuga á fótbolta og sat í stjórn knattspyrnudeildar Breiðabliks í mörg ár. Hann var mikill bílaáhugamaður og átti alltaf flotta bíla sem hann var óspar að lána börnum sínum þegar þau fengu bílpróf.

Pabbi hætti að vinna aðeins 54 ára gamall. Pabbi fékk tinnitus sem er stöðugt ýl fyrir eyrunum. Hann leitaði sér lækninga víða; fór til Þýskalands og Bandaríkjanna en náði ekki bata. Þetta er sjúkdómur sem sést ekki utan á fólki og erfitt er að mæla og ómögulegt að höndla.

Honum leið oft illa vegna þess og fékk sjaldan hvíld. Þegar maður spurði hann hvernig hann hefði það þá kom svarið oftast í desíbelum.

Þegar pabbi hætti að vinna stóðu þau mamma vel; áttu húsið skuldlaust og pabbi með ágætis lífeyrisréttindi. Þau byggðu sér sumarhús í Skorradalnum og undu hag sínum vel þar næstu 15 árin og þaðan eiga barnabörnin góðar minningar.

Pabba var umhugað um fjölskylduna og studdi okkur krakkana í öllu sem við gerðum án þess að vera ofan í öllum hlutum. Ef við þurftum hjálp gátum við alltaf leitað til pabba en að öðru leyti vildi hann að við værum sem sjálfstæðust. Ekkert okkar systkinanna man nokkurn tíma eftir því að pabbi hafi skammað okkur eða reiðst. Það var bara ekki hans stíll.

Pabbi gaf okkur gott veganesti út í lífið og sem við vissum að var hans aðalmarkmið. Við erum stolt af pabba og munum ávallt sakna hans.

Jóhanna, Björg, Hjörleifur og Herdís.