Fjallað er um glímukappann og athafnamanninn Jóhannes Jósefsson á Borg í nýútkomnu hefti Veiðimannsins. Hann lifði draumalífi veiðimannsins og sótti í Borgarfjarðarárnar og vestur á Mýrar.

Fjallað er um glímukappann og athafnamanninn Jóhannes Jósefsson á Borg í nýútkomnu hefti Veiðimannsins. Hann lifði draumalífi veiðimannsins og sótti í Borgarfjarðarárnar og vestur á Mýrar. Engin veiðiför þótti honum þó góð nema seinni kona hans, Brynhildur Sigurðardóttir, væri með í för. Til hennar orti hann á gamals aldri kvæðið um konuna við ána, sem hefst svo:

Er fyllt var að barmi mín kvalanna krús,

sem kynngin og erillinn lána

þá byggði ég hvíldar og kærleikans

hús,

á klettunum frammi við ána.

Vinirnir farnir og ferillinn minn,

farið að styttast í ljána.

Eftir er konan með kærleikann sinn,

í kofanum frammi við ána.

Jón Kristánsson, fyrrv. ráðherra, skrifar á fésbókarsíðu sína: „Við hjónin vorum að ganga niður í bæ í dag framhjá fjármálaráðuneytinu og þar blasir við listaverk Steinunnar Þórarinsdóttur á þakinu, styttur af nöktu fólki. Þá varð til vísa.

Þarna standa þessi og hinn.

Þeir eru ekki glaðir.

Skulda allir skattinn sinn

skjálfandi og berrassaðir

Þegar óveðrið skall á lét kötturinn Jósefína Meulengracht Dietrich í sér heyra:

Á reiðiskjálfi ramba tré.

Rymja þil. Um glugga

út á hjarnið horfi og sé

að hér er margt að ugga.

Og enn orti Jósefína:

Stórviðrin og steytinginn og storminn

tel ég

rauð á lit sem rokið hvassa

rymjandi með fimbulbassa

Og enn orti hún:

Víst er að flest getur fokið

mér finnst það samt ansi hart

hvað tekur í rófuna rokið

og rífur í ótalmargt.

Á Boðnarmiði segir Örn Guðjónsson frá Svanhildi:

Svanhildur skildi við Svíann.

En svo var hún komin með nýjan.

Kannski einum of kvikk

því karlinn var klikk

og nú var hún neydd til að flýja'ann.

Að lokum er þjóðvísa:

Þegar lundin þín er hrelld

– þessum hlýddu orðum, –

gakktu með sjó og sittu við eld

svo kvað völvan forðum.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is