Dimmari Fram til þessa hefur Hilmar skrifað meinlausari bækur, en segir að sig hafi langað til að glíma við dimmari og þyngri hluti.
Dimmari Fram til þessa hefur Hilmar skrifað meinlausari bækur, en segir að sig hafi langað til að glíma við dimmari og þyngri hluti. — Ljósmynd/Sigurður Unnar Ragnarsson
Árni Matthíasson arnim@mbl.is Húsið í september heitir ný skáldsaga eftir Hilmar Örn Óskarsson sem Björt bókaútgáfa gaf út fyrir stuttu.

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Húsið í september heitir ný skáldsaga eftir Hilmar Örn Óskarsson sem Björt bókaútgáfa gaf út fyrir stuttu.

Í bókinni segir frá ungri stúlku, Áróru, sem býr í bæ á afskekktri eyju og þráir ekkert heitar en að komast burt þaðan. Eyjan vill aftur á móti ekki sleppa henni.

Andinn í bókinni er myrkur, ógn í aðsigi og mikil átök framundan. Fram til þessa hefur Hilmar skrifað meinlausari bækur, en segir að sig hafi langað til að glíma við dimmari og þyngri hluti en hann hafi gert í fyrri bókum. „Ég hef alltaf verið hrifinn af hryllingi og langaði að hleypa þeirri ástríðu aðeins inn í eigin verk. Það er gaman að vera fyndinn fyrir 8-12 ára börn en allt öðruvísi gaman að leika sér með myrkur og hrylling.“

– Hvernig varð þessi bók til, hvort kom á undan Áróra eða húsið í september?

„Þessi bók byrjaði með Áróru, söguhetjunni. Hún er nautsterk kvenpersóna – eins og reyndar Kamilla Vindmylla, söguhetjan í samnefndum bókum. Hugmyndin um húsið kom síðan skömmu síðar og sagan varð til á meðan ég tengdi þessar tvær hugmyndir. Hugmyndir ala af sér hugmyndir. Maður má bara ekki þvælast of mikið fyrir því ferli.“

– Það má flokka bókina þína með því sem gjarnan er kallað furðusögur, í undirflokkinn gufupönk. Það hefur verið mikil gróska í slíkum bókum hér á landi undanfarin ár, hvað veldur?

„Ég held að það sé fyrst og fremst skorturinn á góðum bókum af þessu tagi. Bæði það og að höfundar eru orðnir djarfari að prófa sig áfram með nýja hluti. Það er svaka gaman að leika sér í furðusagnaheimi. Ungmennabækur þurfa ekki endilega að vera félagslega raunsæislegar og troðfullar af lífslexíum til að vera góðar.“

– Tími kemur við sögu í bókinni og á óvenjulegan hátt. Þetta er þó bók um meira en tíma og hrylling, hún er líka um vináttu og móðurást sem afskræmist af örvæntingu.

„Það er rétt, ég leik mér með tíma í bókinni enda alltaf verið jafn hugfanginn af svoleiðis fikti í bókum og kvikmyndum eins og hryllingnum. Maður þarf líka ekki að teygja sig mjög langt til að skilja „illmennin“ í Húsinu í september þótt hörmungarnar sem þau valda séu andstyggilegar. Vináttan er líka áberandi í bókinni eins og þú segir og ég kann líka að meta hvernig Áróra áttar sig á að það er ekki endilega til marks um styrk að standa ein og óstudd. Móðurástin sem afskræmist af örvæntingu – skemmtilega orðað – er áberandi í bókinni og mér finnst gaman að velta fyrir mér varðandi hana og fleira í bókinni hvar mörkin á milli manneskju og ófreskju liggja.“

– Hvað er svo fram undan?

„Ég er með tvö verkefni á teikniborðinu. Annars vegar þar sem ég feta mig áfram í þessum myrka heimi þar sem Húsið í september á sér stað og hins vegar verkefni sem liggur kannski mitt á milli bókanna um Kamillu vindmyllu og Hússins í september – eitthvað létt og skemmtilegt en samt þannig að maður geti stungið sig á oddum hér og þar.“