Heimleið Patrekur Jóhannesson snýr aftur til Íslands næsta sumar og tekur þá væntanlega við íslensku félagsliði á nýjan leik.
Heimleið Patrekur Jóhannesson snýr aftur til Íslands næsta sumar og tekur þá væntanlega við íslensku félagsliði á nýjan leik. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Reglulega berast nú tilkynningar um að kunnir handboltaþjálfarar ætli að breyta til. Á þriðjudag var það Gunnar Magnússon og í gær Patrekur Jóhannesson, þjálfari Skjern. Hann ætlar að flytja heim í sumar og láta gott heita í Danmörku í bili.

Handbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Reglulega berast nú tilkynningar um að kunnir handboltaþjálfarar ætli að breyta til. Á þriðjudag var það Gunnar Magnússon og í gær Patrekur Jóhannesson, þjálfari Skjern. Hann ætlar að flytja heim í sumar og láta gott heita í Danmörku í bili.

„Ég gerði þriggja ára samning við Skjern en það lá fyrir að ég yrði einn í Danmörku fyrsta veturinn. Eftir það stóð til að fjölskyldan myndi flytja út til mín en síðan breyttust aðstæður. Við hjónin teljum að betra sé fyrir börnin að vera áfram í sínu á Íslandi heldur en að draga þau hingað út. Þótt skemmtilegt sé fyrir mig að vera í handboltanum hjá Skjern þá teljum við betra fyrir fjölskylduna að vera heima,“ sagði Patrekur þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær.

Hann segist hafa verið í góðum samskiptum við forráðamenn Skjern og leikmenn liðsins fengu að vita af ákvörðun Patreks í gærmorgun. „Ég tók ekki þessa ákvörðun í gær heldur gerði þetta upp við mig um síðustu mánaðamót. Þá hafði liðið unnið þrjá leiki í röð og þessi ákvörðun var ekki tekin í einhverju fýlukasti. Ég tilkynnti leikmönnum hins vegar þessa ákvörðun í morgun og í framhaldinu var þetta tilkynnt á heimasíðu félagsins. Skjern er til fyrirmyndar og þessi ákvörðun hefur ekkert með handboltann að gera. Mér finnst jákvætt að aðstoðarþjálfarinn [Claus Hansen] taki við liðinu. Við höfum unnið vel saman og hann er mjög fær þjálfari. Ég er ánægður í starfi og forráðamenn félagsins eru ánægðir með mín störf en fjölskyldan er númer eitt.“

Mikil samkeppni í deildinni

Fyrir Patrek er góð áskorun að þjálfa Skjern. Í liðinu eru geysilega reyndir leikmenn eins og Bjarte Myrhol, Anders Eggert, Kasper Søndergaard og Thomas Mogensen. Enginn skyldi því afskrifa Skjern þegar komið verður í úrslitakeppnina en sem stendur er liðið í 4. sæti.

„Skjern gekk ekki vel í fyrra en árið þar á undan varð liðið meistari. Við erum ekki sáttir við stigasöfnunina hingað til og vitum að við erum með lið sem getur farið alla leið. Deildin er hins vegar mjög jöfn þótt Álaborg hafi verið sterkasta liðið hingað til og sýnt mestan stöðugleika. Þar á eftir koma lið frá tvö til tíu sem eru hrikalega jöfn.

Við þyrftum helst að vera á meðal fjögurra efstu þegar úrslitakeppnin byrjar en ég gerði mér alveg grein fyrir því að það tæki smá tíma að slípa liðið saman. Yfirleitt hefur gengið vel hjá mér á endanum.

Mér þykir mjög skemmtilegt að þjálfa þessa stráka. Nokkrir þeirra eru á síðustu metrunum í boltanum ef svo má segja. Kasper tilkynnti til dæmis að þetta yrði hans síðasta tímabil en hann er sá sigursælasti í Danmörku. Hann, Bjarte, Thomas og fleiri eru miklir atvinnumenn og gaman að vinna með þeim.“

Spurður um hvort Patrekur komi til með að leita sér að þjálfarastarfi á Íslandi frá næsta sumri segist hann ekki hafa gert það upp við sig. En í ljósi þess hvað hann hefur fengist við á vinnumarkaði í gegnum árin þá sé líklegt að hann muni starfa í kringum handboltann.

„Ég skal vera alveg hreinskilinn. Ég hef ekkert ákveðið né talað við nokkurt félag varðandi það. Þú þekkir mig og veist að ég segi bara hlutina eins og þeir eru. Kannski tek ég mér bara frí en ég loka að sjálfsögðu ekki á neitt. Ég hef verið í þessum handbolta frá því ég var krakki. Hef verið atvinnumaður, landsliðsmaður, þjálfari, landsliðsþjálfari og hef menntað mig í þessu. Þar af leiðandi er líklegt að ég starfi við handbolta en hvort það verði meistaraflokksþjálfun er ekkert öruggt. Ég mun þurfa að fá mér vinnu en hef ekki hugmynd um hvað það verður. Ég vildi ljúka málinu hjá Skjern og koma hreint fram.“

Markvarslan mjög góð

Björgvin Páll Gústavsson og Elvar Örn Jónsson leika undir stjórn Patreks hjá Skjern. Hvernig hafa þeir staðið sig?

„Þeir hafa staðið sig mjög vel á heildina litið. Ef ég byrja á Elvari þá mun taka hann tíma að komast inn í hlutina á fyrsta ári. Það þekkir maður sjálfur sem fyrrverandi atvinnumaður. Hann hefur átt góða leiki en dottið niður inn á milli. Hér er spilaður öðruvísi handbolti en heima. Hraðinn er mikill og leikmenn með mikla tækni. Leikirnir í þýsku bundesligunni eru til dæmis hægari en þar er meiri kraftabolti. Hér er mikill fjöldi leikmanna í háum gæðaflokki og Elvar hefur þurft að hafa fyrir hlutunum. Sjálfur gerði ég mér ekki grein fyrir því hversu sterk danska deildin er þegar ég samdi við Skjern. Þetta er eðlilegt og ég veit hvað í Elvari býr. Hann þarf bara aðeins meiri tíma til að verða stöðugri. Hann getur meira.

Þegar ég kom hingað þá var Bjöggi í þeirri stöðu að hann hafði lítið spilað. Við áttum góð samtöl fyrir tímabilið og hann hefur staðið sig ótrúlega vel. Hefur verið stöðugur og sá norski [Robin Paulsen Haug] líka. Fyrir fram höfðu menn mestar áhyggjur af markvörslunni en hún hefur verið okkar sterkasta vopn. Ég er því mjög ánægður með báða markverðina,“ sagði Patrekur Jóhannesson enn fremur.