Ekki eru miklar líkur á því að Hafrannsóknastofnun breyti ráðgjöf sinni hvað varðar útgefnar veiðiheimildir í ýsu á þessu fiskveiðiári.

Ekki eru miklar líkur á því að Hafrannsóknastofnun breyti ráðgjöf sinni hvað varðar útgefnar veiðiheimildir í ýsu á þessu fiskveiðiári. „Við myndum ekki samkvæmt þeim forsendum sem við höfum gefa út breytta ráðgjöf,“ segir Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri botnsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun. Hann segir að það myndi vera algjör undantekning að kæmi ráðgjöf sem myndi hafa áhrif á þetta fiskveiðiár. „Það þyrfti eitthvað stórkostlegt að breytast til þess að við myndum breyta ráðgjöf okkar.“

Það sem af er fiskveiðiárinu hafa smábátar fengið talsvert magn af ýsu með þorsknum og voru smábátaútgerðirnar búnar að veiða 54% af veiðiheimildum sínum í ýsu á fyrsta fjórðungi fiskveiðiársins, borið saman við 43% á sama tíma á síðasta fiskveiðiári. Hefðbundið er að þessar útgerðir hafa getað leigt ýsukvóta en hann er af skornum skammti þar sem aflamark í ýsu var lækkað um 25% milli fiskveiðiára. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, hefur sagt hættu á því að starfsemi útgerða gæti stöðvast fá þær ekki aðgang að ýsukvóta.

Guðmundur segir stefnt að því að skoða stöðu ýsustofnsins í hefðbundnu vorralli Hafrannsókna- stofnunar og að ný ráðgjöf verði gefin út í júní á næsta ári með hefðbundnu sniði, „nema eitthvað mjög stórkostlegt kæmi upp.“

Þá hefur Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráð- herra, lýst því yfir að hann hyggst ekki breyta aflareglu fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 og mun hann því ekki knýja Hafrannsóknastofnun til að endurskoða stofnmat sitt og útreikninga um aflamark.