Absúrd „Sagan er spennandi og í henni birtast áhugaverðar kenningar um möguleika tækninnar að ógleymdum hinum sjaldfengna absúrdisma,“ segir meðal annars í gagnrýni um skáldsögu Úlfars Þormóðssonar, Hugvillingur.
Absúrd „Sagan er spennandi og í henni birtast áhugaverðar kenningar um möguleika tækninnar að ógleymdum hinum sjaldfengna absúrdisma,“ segir meðal annars í gagnrýni um skáldsögu Úlfars Þormóðssonar, Hugvillingur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Úlfar Þormóðsson. Veröld, 2019. Innbundin, 216 bls.

Absúrdismi í íslenskum skáldskap er vandfundinn í nútímanum. Því er gleðilegt og hressandi að rekast á einkenni hans, sem gjarnan eru tengd við leiklist en sóma sér einnig ákaflega vel í skáldskap, í Hugvillingi .

Bókin er einhvers konar yfirnáttúruleg spennusaga sem inniheldur þó frásagnir af atburðum sem gætu nokkurn veginn átt sér stað í nútímanum eða náinni framtíð. Það má jafnvel segja að Hugvillingur sé dystópía sem fjallar um möguleika tækninnar til að skyggnast inn í líf mannfólks og yfirtaka þau ef henni þóknast svo.

Í Hugvillingi birtist veruleiki þar sem ríkisafskipti eru gífurleg og framkvæmd með hjálp tækninnar. Þessi veruleiki minnir um margt á fréttir sem berast frá Rússlandi og meginlandi Kína um inngrip ríkisvaldsins í líf venjulegs fólks. Sá veruleiki er ýktur og færður inn í íslenskt samfélag og verður hann um leið örlítið afkáralegur, skondinn og ógnvænlegur samtímis.

Höfundur gerir heiðarlega tilraun til þess að láta söguna virðast raunverulega. Íslenskur veruleiki er samofinn hinum tilbúna veruleika, mikið er rætt um Hrunið með stóru H-i, staði og þá helst bekki í Reykjavík og tekur sögumaður sérstaklega fram að hann ætli sér ekki að nefna ráðamennina sem hann skrifar um á nafn, svo þeir verði ekki hafðir að háði og spotti.

Sum samtöl á milli persóna og atburðir í sögunni sveipa Hugvilling blæ absúrdismans. Spurningar og svör passa illa saman, undarlegum orðum er bætt inn í samtöl svo orðin virðast týnd innan samhengisins, fólk bregst undarlega við eðlilegustu aðstæðum eins og símhringingum og eina konan í allri sögunni ber karlmannsnafn.

„Kannski er einhver annar með sama númer og þú,“ stakk ég uppá.

Hann horfði á mig opinmynntur, tók við göngustafnum, sagði og liðaðist í burtu:

„Það er röng fullyrðing að allir fæðist jafnir.“

Sagan er spennandi og í henni birtast áhugaverðar kenningar um möguleika tækninnar að ógleymdum hinum sjaldfengna absúrdisma. Á tíðum verður sagan þó örlítið langdregin og spurning hvort kafa hefði mátt dýpra í hin tæknilegu inngrip og áhrif þeirra á þeim 216 blaðsíðum sem Hugvillingur breiðir sig yfir.

Ragnhildur Þrastardóttir