Rosalingar Myndskreyting eftir Halldór Baldursson úr Rosalingunum eftir Kristjönu Friðbjörnsdóttur.
Rosalingar Myndskreyting eftir Halldór Baldursson úr Rosalingunum eftir Kristjönu Friðbjörnsdóttur. — Teikning/Halldór Baldursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Yfirlit yfir nýútkomnar íslenskar barnabækur Erla María Markúsdóttir erla@mbl.is

Hæfileikabúnt í hjálparhellinum

Rosalingarnir – Kristjana Friðbjörnsdóttir &sstar;stjörnugjöf: 1&sstar;

JPV, 2019. 104 bls. innb.

Ýktur og hressandi stíll í Rosalingunum eftir Kristjönu Friðbjörnsdóttur gerir það að verkum að það er leikur einn að bruna í gegnum bókina. Rosalingarnir fjalla um Sólberg7 sem dreymir um að vera rappari og gleymir að hlusta á það sem kennarinn segir, Melkorku Marsibil vill helst vera bæði syngjandi og dansandi og Artúr sem sér heiminn í myndum þegar bókstafirnir fara á flug.

Ekkert af þessu kemur sér vel í hefðbundinni kennslustofu og því eru nemendurnir sendir í sérkennslu í hjálparhellinn til herra Halla, nýs sérkennslukennara sem þráir að gerast töframaður. Þegar hann hverfur einn daginn eru góð ráð dýr. Þremenningarnir komast á sporið og úr verður snörp en spennandi leit að Halla.

Rosalingarnir eru fjörug og heillandi frásögn sem öll börn ættu að tengja við á einhvern hátt, hvort sem það tengist draumum um að gerast rappari, dansari eða myndasöguteiknari, eða einfaldlega viljanum til að virkja hæfileika sem við búum jú öll yfir. Herra Halli, eða hækjan, er góðmennskan uppmáluð og hlý og góð persóna sem dregur það besta fram í börnunum sem glíma við alls konar hindranir í daglegu lífi.

Rosalingarnir eru sömuleiðis tilvalin bók fyrir börn sem eru að byrja að lesa sér til gamans. Bókin er uppfull af fjöri og það er nóg að gerast á hverri síðu. Myndskreytingar skopmeistarans Halldórs Baldurssonar lífga enn frekar upp á frásögnina og hrósa verður honum og Kristjönu fyrir túlkun og framsetningu á persónu Sólberg7, sem kemur rækilega á óvart, svo ekki sé meira sagt.

Myndskreytingarnar vöktu löngun hjá undirritaðri til að draga fram blýantinn, eða að minnsta kosti trélitinn og lita inn í myndirnar og það er því gaman að segja frá því að á heimasíðu bókarinnar, rosalingar.is, er hægt að nálgast teikningar úr bókinni, auk þess sem þar má hlusta á höfundinn lesa fyrstu kaflana í bókinni. Það er svo sannarlega til fyrirmyndar.

Ævintýri Randalínar og Munda halda áfram

Randalín, Mundi og leyndarmálið – Þórdís Gísladóttir ***--

Benedikt, 2019. 112 bls. innb.

Randalín, Mundi og leyndarmálið er fjórða bókin um vinina Randalín og Munda, sem trúlega eru á yngsta stigi grunnskólans en skólaganga kemur þó hvergi við sögu í nýjustu bókinni, frekar en þeim fyrri. Vinirnir eru of upptekin við að eignast nýja vini, njósna um nágranna sinn og stofna rapphljómsveit.

Frásögnin er skemmtilega upp byggð og útdráttur í upphafi hvers kafla er snjöll leið til að ná til yngstu lesenda. Bókin er ætluð allra yngstu lesendum og áheyrendum til 12 ára aldurs.

Þrjár af aðalpersónum; Andrés, Jakob Múhameð og Tinna Binna, eru töluvert og mikið eldri en Randalín og Mundi og þó svo að þau nái vel saman er erfitt að sjá hverjum frásögnin er í raun og veru ætluð.

Randalín er drifkrafturinn í sögunni og þegar hún skráir nýstofnuðu rapphljómsveitina í hæfileikakeppni grunnskólanna kemst fátt annað að. Auðvitað þarf að finna nafn á sveitina og þar sem pabbi Andrésar er með viðurnefnið skyndibitakóngurinn kýs Andrés að kenna sig við prins og úr verður að hljómsveitin fær nafnið Prins Andrés, sem er kannski ekki heppilegasta hljómsveitanafnið í dag.

En hvað um það. Í frásögninni er einnig tekið á viðkvæmum málum og sýnir nágranni Randalínar og Munda á sér óvænta hlið og læra þau mikilvæga lexíu að hlutirnir eru ekki alltaf eins og fólk heldur í fyrstu.

Í frásögninni má finna fjölmargar vísanir í samtímann sem fær fullorðna lesendur oftar en ekki til að skella upp úr, líkt og samræður um Tinder, en í önnur skipti er tilfinningin stundum eins og verið sé að reyna um of, það fer ekkert á milli mála að Hatari og Salka Sól eru í guðatölu hjá börnum í dag.

Þórarinn M. Baldursson myndskreytir og ferst vel úr hendi. Teikningarnar eru einfaldar en gæða frásögnina lífi, ekki síst þegar man bun-in er kominn í hárið og rappdressið er klárt.

Randalín, Mundi og leyndarmálið er hin ágætasta bók þó það sé svolítið á reiki hvaða lesendahópi hún er ætluð, en vonandi nær hún til breiðs hóps.

Lausnin við loftslagsvánni?

Nærbuxnanjósnararnir – Arndís

Þórarinsdóttir ****-

Mál og menning, 2019. 112 bls. innb.

Nærbuxnanjósnararnir er önnur bókin um vinina Gutta og Ólínu og sjálfstætt framhald Nærbuxnaverksmiðjunnar, þar sem tvíeykið bjargaði verksmiðjunni Brókarenda þar sem nú er líf og fjör alla daga.

Þegar amma Lena, sem ræður öllu í nærbuxnaverksmiðjunni, fer til útlanda fara skrítnir hlutir að gerast og kona sem segist vera húsvörður harðneitar að hleypa Gutta og Ólínu inn. Þegar þau komast loksins inn er ýmislegt horfið, til dæmis kanínumamman Snæfríður og blúndubrók sem danski kóngurinn átti árið 1874.

Ljóst er að þau þurfa að grípa til sinna ráða og upp hefst æsispennandi atburðarrás þar sem brækur og vélmenni koma við sögu. Það voru einmitt svörin sem Arndís Þórarinsdóttir, höfundur bókarinnar, fékk þegar hún spurði son sinn um hvað hann langaði að lesa.

Arndísi tekst stórvel til og frásögnin er bráðfyndin og uppfull af húmor, orðaleikjum og skemmtilegum tilvísunum í íslenskan raunveruleika.

Vinátta Gutta og Ólínu er einstök. Gutti er hlédrægur og skynsamur á meðan Ólína er drífandi, framhleypin og óhrædd við að taka áhættu. Stereótýpískum kynjahlutverkum er í raun snúið við sem er kærkomið.

Myndskreytingar Sigmundar Breiðfjörð Þorgeirssonar ramma Nærbuxnanjósnarana inn með glæsibrag og nær hann að magna upp spennuna með innihaldsríkum og nákvæmum teikningum.

Nærbuxnanjósnararnir er fyrst og fremst barna- og unglingabók en ekki verður framhjá því litið að hér er komið enn eitt framlagið í loftslagsbókmenntir í ár, og líklega það frumlegasta, en að minnsta kosti það skemmtilegasta.

Krúttlegar kanínur, konunglegar nærbuxur og skólastjóri sem situr aðgerðalaus á föstudögum sökum loftslagsverkfalls nemenda tengjast því hvernig tekið er á loftslagsvánni, án þess að ljóstra upp of miklu.