Þór Rafmagninu stýrt úr brúnni. Stjórnborðsvélin framleiðir 754 kW.
Þór Rafmagninu stýrt úr brúnni. Stjórnborðsvélin framleiðir 754 kW. — Ljósmynd/Ásgrímur L. Ásgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Það er ekki sjálfgefið að skip geti gert þetta. Rafmagnstöflur og annað þurfa að vera upp settar til að þetta sé mögulegt auk þess sem ýmislegt bryggjumegin þarf að vera til staðar,“ segir Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar. Varðskipið Þór fékk óvænt hlutverk í kjölfar óveðursins í síðustu viku þegar skipið þurfti að sinna hlutverki rafstöðvar á Dalvík.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það er ekki sjálfgefið að skip geti gert þetta. Rafmagnstöflur og annað þurfa að vera upp settar til að þetta sé mögulegt auk þess sem ýmislegt bryggjumegin þarf að vera til staðar,“ segir Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar. Varðskipið Þór fékk óvænt hlutverk í kjölfar óveðursins í síðustu viku þegar skipið þurfti að sinna hlutverki rafstöðvar á Dalvík.

Þór var aftengdur á Dalvík klukkan 21.30 á miðvikudagskvöld og hafði þá veitt Dalvíkingum rafmagn síðan klukkan tvö aðfaranótt síðasta föstudags, alls tæpar 140 klukkustundir.

250 lítrar af olíu á klukkustund

Umtalsverður olíukostnaður hlaust af þessu. Aðspurður segir Ásgrímur að eigin olíunotkun skipsins meðan það lá við bryggju hafi numið um 70 lítrum á klukkustund. Hins vegar hafi farið á bilinu 200-250 lítrar á klukkustund að meðaltali í það að sjá bænum fyrir raforku.

Ef miðað er við að meðaltalsolíunotkun hafi verið 225 lítrar á klukkustund og klukkustundirnar alls 139,5 kemur í ljós að hver klukkustund kostaði um 35.600 krónur. Miðað er við að lítraverð skipagasolíu með vsk. sé 158,2 krónur samkvæmt verðskrá Skeljungs í desember. Alls nam því olíukostnaðurinn rétt tæpum fimm milljónum króna auk 1,5 í olíukostnað skipsins sjálfs.

„Varðskipið var í túr þegar þetta kom upp, þriggja vikna túr sem framlengist um tvo daga út af þessu öllu saman,“ segir Ásgrímur. Hann segir að olíueyðsla skipsins á siglingu sé um 300-350 lítrar að meðaltali á klukkustund.

Ásgrímur segist aðspurður búast við að kostnaður við þetta verkefni falli á Gæsluna. „Eins og staðan er núna þá vitum við ekki annað. Það er eitt af hlutverkum Landhelgisgæslunnar samkvæmt lögum að veita aðstoð til byggðarlaganna í landinu. Við spyrjum ekkert frekar að því og höfum ekki gert neinar ráðstafanir til að biðja um endurgreiðslu.“

Af þessu tilefni hefur verið rifjað upp að þetta er ekki í fyrsta sinn sem skip fá slíkt hlutverk. Árið 1977 var varðskipið Týr fenginn til að sjá Eyjamönnum fyrir rafmagni, Bjarni Sæmundsson var látinn keyra á Hornafirði í rafmagnsleysi árið 1973 og Ásgrímur kveðst telja að gamli Þór, forveri nýjasta Þórs, hafi sömuleiðis verið nýttur sem rafstöð þegar á þurfti að halda.

Varðskipin eru enda vel búin fyrir verkefni sem þetta, Þór getur til að mynda flutt yfir milljón lítra af olíu. Segir Ásgrímur að talað sé um að skipið geti veitt allt að tvö þúsund kílóvött á klukkustund. Meðaltalið á Dalvík var um 750 kílóvött á klukkustund. „Raforkunotkunin var misjöfn eftir tímum dags, hún rokkaði til. Mest var hún þegar verið var að elda kvöldmat. Það var tekið eftir því,“ segir Ásgrímur.