Við Íslendingar vorum minnt á það í síðustu viku hve náttúruöflin eru áhrifamikill þáttur í lífi okkar og tilveru. Veðurhamurinn varð þess valdandi að rafmagnslaust var á stórum svæðum á norðanverðu landinu í marga sólarhringa.

Við Íslendingar vorum minnt á það í síðustu viku hve náttúruöflin eru áhrifamikill þáttur í lífi okkar og tilveru. Veðurhamurinn varð þess valdandi að rafmagnslaust var á stórum svæðum á norðanverðu landinu í marga sólarhringa. Fjölmargir voru einnig án hita og fjarskipta og útsendingar RÚV lágu niðri á sumum svæðum. Hér skapaðist ástand þar sem reyndi á alla þætti almannavarnakerfisins.

Á sama tíma vorum við minnt á það hvað við búum yfir öflugum viðbragðsaðilum; björgunarsveitum, Landhelgisgæslu, lögreglu og fleiri aðilum sem unnu óeigingjarnt starf. Við stöndum í þakkarskuld við alla þá viðbragðsaðila sem létu til sín taka, fóru út í óveðrið og björguðu því sem bjargað varð við afar erfiðar aðstæður.

Veðrið sem gekk yfir landið sýndi þó að ástand öryggismála og uppbygging innviða er ófullnægjandi. Það er því mikilvægt að greina hvað fór úrskeiðis og hvað sé unnt að bæta til að bregðast enn betur við ef og þegar slíkar aðstæður skapast á nýjan leik. Ég hef því virkjað rannsóknarnefnd almannavarna. Nefndin er sjálfstæð og starfar í umboði Alþingis. Henni er ætlað að rýna og meta framkvæmd almannavarnaaðgerða þannig að draga megi lærdóm af reynslunni og stuðla að umbótum.

Nefndin hefur aldrei verið virkjuð áður þótt hún hafi verið kosin af Alþingi með reglubundnum hætti frá árinu 2008. Henni hefur fram til þessa ekki verið tryggt nauðsynlegt fjármagn á fjárlögum en ég hef gert ráðstafanir til tryggja nefndinni fjármuni til rannsóknar og skýrslugerðar í kjölfar nýliðinna atburða. Nefndin mun rannsaka þær áætlanir sem stuðst var við þegar hættuástandið skapaðist og hvernig viðbragðsaðilar brugðust við. Einnig á nefndin að gera tillögur um úrbætur og vekja athygli á atriðum sem henni þykja máli skipta og horfa til bóta.

Það er mikilvægt að vel takist til í störfum rannsóknarnefndarinnar. Við höfum reynslu af störfum slíkra nefnda t.d. hvað varðar sjóslys. Mikilvægt er að fá hlutlaust og faglegt mat sérfræðinga svo unnt sé að grípa til nauðsynlegra aðgerða í framhaldinu, fumlaust og án óþarfa ágreinings.

Almannavarnir eru eitt mikilvægasta verkefni sem stjórnvöld fást við og þeim verður að sinna af alúð og kostgæfni. Við búum í friðsælu landi með öfluga náttúru. Það má því segja að almannavarnir séu einn mikilvægasti þáttur þess að tryggja öryggi almennings.

Við búum yfir öflugu fólki úti um allt land sem aldrei verður þakkað nóg fyrir sitt öfluga framlag. Kerfin okkar þurfa samt að virka vel til að þau geti sinnt starfi sínu með enn öflugri hætti – og þau má alltaf bæta.

aslaugs@althingi.is

Höfundur er dómsmálaráðherra.

Höf.: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir