[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Teitur Örn Einarsson , landsliðsmaður í handbolta, hefur framlengt samning sinn við sænska félagið Kristianstad til ársins 2022. Teitur kom til Kristianstad frá Selfossi fyrir síðustu leiktíð og hefur leikið stórt hlutverk með liðinu.

* Teitur Örn Einarsson , landsliðsmaður í handbolta, hefur framlengt samning sinn við sænska félagið Kristianstad til ársins 2022. Teitur kom til Kristianstad frá Selfossi fyrir síðustu leiktíð og hefur leikið stórt hlutverk með liðinu. Hefur Teitur skorað 78 mörk í sænsku deildinni í vetur. Ólafur Andrés Guðmundsson leikur einnig með liðinu.

*Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ hefur úrskurðað Jón Arnór Stefánsson , leikmann KR og einn besta leikmann Íslandssögunnar, í eins leiks bann vegna reiðikasts hans er KR mætti Grindavík í Geysisbikarnum fyrr í mánuðinum. Jón Arnór missti stjórn á skapi sínu í 3. leikhluta og var vikið út úr húsi fyrir vikið.

* Hilmar Snær Örvarsson úr Víkingi hafnaði í 8. sæti í stórsvigi á alþjóðlegu móti í St. Moritz í Sviss en mótið er hluti af EC-mótaröð ólympíuhreyfingar fatlaðra. Hilmar skíðaði á 55,13 sekúndum í fyrri ferðini og 56,25 sekúndum í síðari ferðinni. Samanlagður tími var því 1:51,38 mínútur. Frakkinn Arthur Bauchet sigraði á 1:26,56 mínútum. Hilmar bætir stöðu sína á heimslistanum í stórsvigi töluvert með þessari frammistöðu. Hann hefur sannað sig sem á meðal þeirra bestu í svigi en sækir nú í sig veðrið í stórsviginu einnig.

*Karlalandslið Íslands í knattspyrnu er í 39. sæti af 210 þjóðum á heimslista FIFA í árslok en síðasti listi ársins var gefinn út í gær. Engin breyting er á 39 efstu sætunum en Belgía, Frakkland og Brasilía eru í þremur efstu og Belgar eru því á toppnum við áramót í annað skiptið í röð. Ísland var í 37. sæti listans á sama tíma fyrir ári, 2018, en besta staða liðsins í árslok var í desember 2016 þegar landsliðið var í 21. sæti á listanum.

* Fabian Wiede , skyttan öfluga frá Füchse Berlín, leikur ekki með þýska landsliðinu í handknattleik á Evrópumótinu í janúar. Hann þarf að gangast undir uppskurð á öxl á milli jóla og nýárs. Wiede var í Evrópumeistaraliði Þjóðverja undir stjórn Dags Sigurðssonar árið 2016, þá aðeins 21 árs gamall, en hann hefur verið í röðum Füchse frá 15 ára aldri og var þar einnig með Dag sem þjálfara.

* Gunnar Heiðar Þorvaldsson , fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í knattspyrnu og leikmaður ÍBV um árabil, er kominn í sitt fyrsta starf sem aðalþjálfari. Gunnar hefur verið ráðinn þjálfari KFS í Vestmannaeyjum fyrir næsta tímabil og mun þar vinna með mörgum ungum leikmönnum frá ÍBV sem spila með liðinu í 4. deildinni til að öðlast meistaraflokksreynslu. Í tilkynningu frá KFS segir að markmiðið sé að koma liðinu strax upp um deild og skapa efnilegum leikmönnum í Eyjum betri vettvang.