Eins og forðum ganga nú klögumálin á víxl

Jeremy Corbyn á ekki sjö dagana sæla núna. Hann situr uppi með Svarta-Pétur vetrarkosninganna. Vonsvikin flokkssystkinin leggja nú áherslu á að hann hafi tapað þingkosningunum 2017 og nú sé tap hans margfalt meira.

Hingað til hafa talsmenn Verkamannaflokksins sagt að Corbyn hafi verið sigurvegari í þeim kosningum og gert miklu meira en að vinna varnarsigur. Þegar May forsætisráðherra hafi boðað til kosninga hafi hún haft meirihluta á þingi en vissulega tæpan þó, sérstaklega í ljósi þeirra stóru mála sem þurfti að afgreiða. Hún efndi til skyndikosninga í krafti kannana sem sýndu að flokkur hennar myndi bæta verulega við sig. Og hann bætti vissulega sex prósentustigum við fylgið, sem er myndarlegt, en ólánleg skipting atkvæða leiddi til að í stað þess að styrkja sinn meirihluta missti hún hann! En Corbyn hafi hins vegar þá bætt við sig 30 þingsætum í neðri málstofunni.

Nú er hamrað á að Corbyn hafi ekki náð meirihluta 2017 og í flokkshruninu nú tapað 60 þingsætum. Þeim þrjátíu sem hann vann fyrir tveimur árum og 30 til viðbótar. Og nú hafi hann tapað allmörgum kjördæmum sem flokkurinn hafði ekki tapað áratugum saman og áttu að vera langt utan seilingar íhaldsins. Og því er bætt við að Íhaldsflokkurinn hafi nú farið fyrir ríkisstjórn síðan 2010, lotið forystu þriggja forsætisráðherra og flokkurinn hafi logað í innanmeinum. Það hafi t.d. sýnt sig í því að margir öflugir þingmenn og fyrrverandi ráðherrar hefðu verið reknir úr flokknum vegna andófsins og setið áfram sem óháðir í þingsalnum og gert Boris Johnson lífið leitt. Ríkisstjórnin var orðin minnihlutastjórn og átti það undir samþykki stjórnarandstöðu hvort kosningar yrðu eða ekki!

Kosningastefnuskrá Verkamannaflokksins þótti rótæk mjög í kosningunum 2017 en þó ekki svo stæk að hún fældi frá, enda bætti flokkurinn við sig 30 þingmönnum. Óánægðir flokksmenn segja nú að Corbyn og harðlínumenn hans hafi bætt í núna og farið út fyrir mörk þess að flokkurinn gæti talist kosningatækur.

Tony Blair, fyrrverandi formaður og mesti sigurvegari flokksins fyrr og síðar, dregur ekki af sér í gagnrýni á Corbyn: „Öfgavinstrið hefur tekið Verkamannaflokkinn yfir. Hafi það áfram tögl og hagldir í flokknum þá tel ég að flokkurinn sé búinn að vera sem raunverulegt afl í breskum stjórnmálum.“ Áður hafði Blair sagt í ræðu að „yfirtaka vinstraliðsins hafi breytt Verkamannaflokknum í leiftrandi mótmælahreyfingu, bryddaða með einkennum ofsatrúarstefnu, og því víðsfjarri að birtast fólki sem trúverðugt stjórnmálaafl. Ekki væri furða að þeir sem horfðu á upplit Verkamannaflokksins spáðu því nú að 10 ára valdaskeið Íhaldsflokksins væri upprunnið. Geri Verkamannaflokkurinn ekki róttæka breytingu á stefnu sinni horfir hann framan í þá hættu að komast aldrei framar í stjórnaraðstöðu“.

Blair gagnrýndi Corbyn harðlega fyrir að stefna flokknum í hrakför á kjördag með því að leggja höfuðáherslu á mál sem kjósendur höfðu engan áhuga á: „Hann persónugerði stjórnmálalega hugsjón sem var eins konar byltingarsósíalismi í blöndu af hagfræðigrufli af ysta kantinum til vinstri og djúpstæðri óvild í garð vestrænnar utanríkisstefnu. Þess háttar uppskrift hefur aldrei höfðað til hins venjulega kjósanda Verkamannaflokksins og mun aldrei gera það, en birtist honum sem blanda af vanhugsaðri hugmyndafræði og ótækum klaufaspörkum sem hlaut að misbjóða honum.“

Í fréttum af gagnrýni Tonys Blairs er minnt á að stuðningsmenn Corbyns hafa aldrei farið í felur með það álit sitt að Blair hafi svikið málstað hinna vinnandi stétta með þvi að flengja flokki þeirra til hægri og ekki síst hafi hann gerst sekur um að draga úr tiltrú kjósenda með þátttöku sinni í árás á Írak undir forystu Bandaríkjanna. Sumir þeirra benda einnig á að Blair hafi sáð efasemdum í garð Verkamannaflokksins með því að hvetja leynt og ljóst til þess að ekki yrði staðið við flokkssamþykktir um að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðis um útgöngu.

Blair svarar fyrir sig og segir að óljós, flókin og tvíræð stefna Corbyns í afstöðunni til brexit hafi ýtt undir óánægju, bæði hjá þeim sem vildu fara úr ESB og þeim sem kusu að vera þar áfram. „Við (flokkurinn) fetuðum stefnustíg sem var eins og skrípamynd af afstöðuleysi sem gerði báðar fylkingar fráhverfar okkur enda voru þar engin merki um leiðsögn eða forystu.“

Þetta uppgjör er rétt að byrja.