Svava Þórdís Baldvinsdóttir fæddist 19. mars 1929. Hún lést 4. desember 2019.

Útför Svövu fór fram 14. desember 2019.

Hún Svava Bald. á Siglufirði er látin eftir langt og viðburðaríkt líf. Á meðan við kveðjum hana birtast minningar um kynni okkar Svövu. Það var seint í júlí 1961 að áætlunarbíll frá Reykjavík rann í hlað á Sigló og úr honum steig m.a. ungt par með litlu stelpu, allir þreyttir eftir 12 tíma hoss á slæmum vegum.

Maðurinn kominn beint úr námi erlendis og Rafveita Siglufjarðar var hans fyrsti vinnustaður í heimalandi sínu. Með honum voru eiginkona og 2ja ára dóttir, báðar uppaldar í Þýskalandi.

Allt var framandi: Miðnætursólin, fólk seint úti á kvöldin á rúntinum, snjór á fjöllum um mitt sumar, götur ekki malbikaðar nema ein. Og stelpan og ég alveg mállausar. Hvernig átti það að ganga upp?

En bjargvætturinn var ekki langt undan! Við vorum rétt stigin inn á nýja heimilið okkar á Laugaveginum þegar nágrannakonan birtist og faðmaði okkur innilega, bauð okkur velkomin sem og alla aðstoð í hvað sem væri. Konan var hún Svava og við urðum strax vinkonur og um leið var hún minn aðal-íslenskukennari. Það er Svövu að þakka að við ílentumst og að við mæðgur gátum gert okkur skiljanlegar á íslensku á skömmum tíma. Við fluttum suður 5 árum síðar en sambandið slitnaði aldrei. Mig langar með þessum örfáu orðum að þakka Svövu allt sem hún gerði fyrir mig og sendi um leið innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar allrar.

Megi Svava hvíla í friði.

Siglinde Sigurbjarnarson.