Guðmunda Þuríður Wíum Hansdóttir fæddist í Reykjavík 28. júlí 1949. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands 2. janúar 2020.

Foreldrar hennar voru Hans Wíum Vilhjálmsson kranamaður, f. 14. desember 1923, d. 25. nóvember 1981, og Katrín Guðlaugsdóttir, f. 7. nóvember 1925, d. 2. febrúar 1998. Þau skildu. Efirlifandi eiginkona Hans Wíum er Eygló Guðmundsdóttir frá Dalsmynni.

Alsystkini Guðmundu eru Guðlaugur (látinn), Sigurhans, Sigríður Júlía, Gísli og Anna Lísa.

Hálfbræður Guðmundu eru Vilhjálmur og Davíð, fóstursystir Guðmundu er Jóhanna.

Eftirlifandi eiginmaður Guðmundu er Sigurður Kristján Höskuldsson, f. 13. maí 1951. Þau giftu sig 27. maí 1972. Foreldrar hans voru Höskuldur Magnússon og Hulda Anna Kristjánsdóttir.

Guðmunda og Sigurður hafa búið í Ólafsvík alla tíð.

Guðmunda og Sigurður eignuðust þrjár dætur: 1) Guðlaug, f. 9. maí 1968, 2) Sigríður, f. 29. febrúar 1972 og 3) Eygló, f. 19. ágúst 1978. Guðmunda átti sjö barnabörn.

Guðmunda ólst upp í Reykjavík og Þorlákshöfn og flutti síðan til Ólafsvíkur þegar hún var 16 ára gömul. Þar vann hún við ýmis störf, þar á meðal í fiskvinnslu, Lúlla bakarí og Grillskálanum hjá Dúdú og Marteini. Guðmunda starfaði sem læknaritari á heilsugæslunni í Ólafsvík í 34 ár og árið 2002 opnaði hún blómabúð og vann við bæði störfin í 16 ár.

Guðmunda sinnti ýmsum félagsstörfum, hún var í stjórn Slysavarnafélagsins Sumargjafar og var í forsvari við byggingu Mettubúðar. Hún var í kvenfélaginu, skólanefnd og BSRB um árabil. Hún vakti upp skátastarf í Ólafsvík við mikla ánægju bæjarbúa. Guðmunda var einnig ein af stofnendum Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu.

Útför Guðmundu fer fram frá Ólafsvíkurkirkju í dag, 10. janúar 2020, klukkan 14.

Elsku mamma mín.

Ég er smátt og smátt að uppgötva að þú ert farin frá mér.

Við förum ekkert meira í Walmart eða á Longhorn að fá okkur Mudslide, ekkert meira bara við tvær að fá okkur kaffi á Starbucks, ekkert meira.

Þú varst svo yndisleg manneskja, hlý og einstaklega góð við alla sem þú hittir.

Þú varst mesti harðjaxl sem ég hef nokkurn tímann hitt, þú og pabbi sátuð yfir mér dag og nótt í sex mánuði þegar ég var sem veikust, það hefðu ekki margir gert svo þú mátt alveg vera stolt af því.

Þú kenndir mér svo margt, t.d. að vera jákvæð og bjartsýn og að gardínur skipta miklu máli. Þú kenndir mér að standa bein í baki og horfa fram á veginn, ekki niður.

Einni sinni heyrðir þú mig segja góða nótt við Kristján og ég sagði þér að ég væri búin að segja þetta við hann síðan hann var ungbarn.

Eftir það kvöddumst við alltaf með þessari litlu vísu.

Elsku mamma, ég á eftir að sakna þín meira en orð fá lýst en ég veit að þú verður alltaf með mér.

Góða nótt, sofðu rótt í alla nótt, ég elska þig.

Þín

Sigríður.

Elsku besta mamma mín. Þau verða ekki mörg orðin hér, ég er enn að reyna að átta mig á því að þú sért farin frá mér. Ég er eiginlega bara dofin, þetta gerðist alltof hratt.

Stutt en erfið veikindi og líkami þinn var alveg búinn og sál þín var sár yfir þessum veikindum en andi þinn var ótrúlegur. Þú gast brosað í gegnum tárin og biturðina og þrjóskan maður minn.

Mamma, þú hefur áorkað svo miklu á þinni ævi og ég er svo stolt af þér, svo stolt að vera dóttir þín.

Þær eru ófáar stundirnar sem við grenjuðum úr hlátri yfir einhverri vitleysunni í okkur og búðarferðunum í Bandaríkjunum.

Þetta verður aldrei eins en ef ég þekki okkur rétt eigum við eftir að vitna oft í þig elsku mamma mín og taka út hláturinn með þér.

Mamma, ég sakna þín svo mikið, ég sakna heitu faðmlaganna og heitu handanna þinna. Ég sakna ástar þinnar á pabba og til okkar systra og barnabarna. En ég hugga mig við það elsku mamma mín að ég veit að þú ert umkringd öllu góða fólkinu okkar í Sumarlandinu og grunar mig að Laugi bróðir þinn sé þar fremstur í flokki.

Þú verður ávallt í hjarta mínu.

Ég elska þig mamma mín.

Þín

Guðlaug.

Elsku amma. Það eru margar góðar, skemmtilegar og hvað þá fyndnar minningar sem þú gafst mér og okkur. Það sem ég á eftir að sakna mest er hláturinn sem við áttum saman, sögustundirnar af fortíðinni, þessi mikla rödd sem þú hafðir og hlýjan sem þú gafst frá þér.

Það sem þú hefur kennt mér mun ég varðveita í framtíðinni.

Þú ert ekkert nema ein stór fyrirmynd. Það er margt sem ég vil segja hér, en hef það stutt. Sjáumst síðar, hvar sem það verður, og ég hlakka til að knúsa þig á ný.

Elska þig alltaf.

Þitt frumburðarbarnabarn,

Sara Líf.

Elsku hjartans Munda mín, stóra systir, vinkona og móðir, ég get kallað þig móður því að þú reyndist mér sem slík í öll þessi ár.

Ég á svo margar góðar minningar um þig, eins og t.d. þegar ég var barn að aldri, og dvaldi langdvölum hjá ykkur Sigga.

Þú varst akkerið mitt, dróst mig alltaf upp þegar lífið var mér ekki gott.

Þú varst alltaf til staðar fyrir mig elsku hjartans Munda mín, ég er þér svo þakklát fyrir að hafa leiðbeint mér í gegnum árin. Ég man þegar ég og Gísli komum fljúgandi til þín, ég var svo flugveik, ég var í alveg nýrri úlpu, þú bara hentir henni og keyptir nýja á mig!

Og þegar ég sat á göngubrúnni fyrir neðan gömlu mjólkurbúðina, kynnti mig fyrir fólki og sagðist vera systir hennar Mundu og hvort þau vildu ekki koma í kaffi! Þú bara hlóst að þessu uppátæki mínu og allir fengu kaffi sem komu, hvort sem þú þekktir fólkið eða ekki, svona mætti lengi telja.

Minningarnar eru svo margar, eins og þegar þið Siggi fóstruðuð Ómar minn í sex vikur, rétt þriggja ára gutta, sem þú eiginlega valdir nafnið á af því að hann hét erlendu nafni.

Ég gæti skrifað miklu miklu meira en læt staðar numið hér. Elsku hjartans Munda mín, þín verður sárt saknað. Heimurinn verður aldrei samur án þín. Innilegar samúðarkveðjur kæri Siggi, dætur og barnabörn.

Elsku stóra systir mín

blíðleg, hlý og góð.

Hún er líka sæt og fín

Viskufull og fróð.

Hún margt kenndi mér

um lífið okkar langa.

Systir góð, þessa löngu leið

ég vil með þér ganga.

Þú átt faðm fyrir mig

til að knúsa blítt.

Ég á faðm fyrir þig,

þar sem ávallt er hlýtt.

Ég ann þér mjög,

elsku stóra systir.

Gæti samið um það 100 lög

ásamt öllu sem mig lystir.

(Gíslunn)

Ég elska þig. Þín litla systir,

Anna Lísa.

Elsku Munda frænka. Þú kvaddir okkur á nýju ári alltof snemma eftir stutt og erfið veikindi. Þegar nýtt ár gengur í garð verða ákveðin kaflaskil, nú meiri en áður. Veröldin verður ekki söm. Söknuðurinn er mikill en ég veit að nú eruð þið pabbi saman á ný, í Sumarlandinu, að græja og gera eins og ykkur var einum lagið.

Elsku frænka, hlutverk þitt hér á jörðinni var svo miklu meira en þig óraði fyrir. Þú breyttir lífi margra, snertir hjarta margra og með þinni dásamlegu útgeislun, manngæsku og ákveðni breyttir þú lífsviðhorfi fólksins í kringum þig. Að umgangast þig og fylgjast með þér í amstri dagsins kenndi mér svo margt, þú hikaðir aldrei við að rétta öðrum hjálparhönd og baðst aldrei um neitt í staðinn. Þú varst fylgin þér og stóðst ávallt við sögð orð. Eitt sinn spurði ég þig hvort þú ættir ekki gamlan búðarkassa sem ég gæti keypt af þér, þú hélst það nú, ákvaðst að „skreppa“ austur fyrir fjall í Hveragerði og koma með hann sjálf til mín, nánast samdægurs. Þú varst hreinskilin, ákveðin og fórst þínar eigin leiðir og varst ætíð á þeytingi að redda hlutunum, þurftir reglulega að skreppa aðeins.

Þegar ég kynnti þig fyrir Tryggva gerðist eitthvað. Þið náðuð saman á einu augnabliki, hlóguð eins og þið hefðuð ávallt þekkst. Þú sagðir að þetta gæti verið sonurinn sem þú eignaðist aldrei, enda bæði þrjósk, ósérhlífin og trygg. Þú umvafðir börnin okkar einstökum kærleik og hlýju.

Allar heimsóknirnar til ykkar Sigga í Túnbrekkuna mun ég geyma í hjarta mínu, þar fékk ég að kynnast einstakri ást, ást ykkar Sigga. Þú varst svo skotin í honum og hann í þér. Þú sagðir mér frá því hvernig þið kynntust og þeirri hamingju sem ykkur hefur hlotnast. Virðing, ást og vinátta var í hávegum höfð og aðdáunarvert að fylgjast með ykkur. Missirinn er Sigga því mikill.

Ég ólst upp við það í Ólafsvíkinni að þú varst alltaf hressa, hlýja og skemmtilega frænkan í Brautarholtinu. Þú gagnrýndir mig aldrei, tókst alltaf á móti mér með opnum örmum og hlýju. Heilsaðir og kvaddir ávallt með þéttu faðmlagi. Þegar við kvöddumst hvíslaðir þú til mín: „Hjördís Harpa, ég elska þig.“ Stundum bættirðu við: „Haltu áfram að vera þú og láttu ljós þitt skína, því þú ert einstök.“

Elsku frænka, þú varst einstök á allan hátt, gafst frá þér kærleiksljós sem mun lýsa mér veginn um ókomna tíð.

Þegar pabbi veiktist fyrir rúmum tveimur árum sýndirðu okkur ómetanlegan stuðning og stóðst eins og klettur við hlið mömmu. Við áttum mörg góð samtöl um lífið og tilveruna og æsku ykkar pabba. Þú talaðir um það hvernig samband ykkar pabba varð sterkara og sterkara með hverju árinu sem leið. Þú saknaðir pabba og hjarta þitt brast þegar hann lést en ótrauð horfðirðu fram á veginn og stóðst alltaf vaktina.

Ég er þér svo þakklát fyrir að hafa átt þig að.

Lífið er þraut og leysa hana þarf, en með bjartsýninni sem ég fékk í arf frá ykkur pabba virðast allir vegir færir. Vinátta okkar var mér allt og stend ég uppi sterkari vegna þín, með þín lífsins gildi að leiðarljósi.

Ég elska þig.

Hjördís Harpa.

Munda samferðakona mín og vinkona er látin. Um hana er óhætt að segja að hún hafi ekki fæðst með silfurskeið í munni, en hún gerði það besta úr þeim gjöfum sem henni voru gefnar. Hún gaf okkur líka til baka hina einu sönnu gjöf, hún gaf af sjálfri sér.

Þegar ég kynntist henni í gegnum sameiginlega vinkonu okkar fyrir rúmum 40 árum tók hún mér fagnandi með faðmlagi og bauð mér inn til sín, hellti kaffi í bollann minn og við fengum okkur sígó og síðan var farið að spjalla.

Hjá henni voru oftar en ekki margar konur og börn og alltaf nóg pláss fyrir alla. Þetta var laugardagskaffispjall og þar var púlsinn tekinn á öllu sem máli skipti á mönnum og málefnum líðandi stundar.

Munda var Ólafsvík lyftistöng í svo mörgu, hún vann ötullega að því að bæta samfélagið okkar með því að starfa í t.d. Slysavarnafélaginu Sumargjöf þar var hún að öðrum ólöstuðum ósérhlífin og dugleg við að standa vaktina á hverju ballinu á fætur öðru í félagsheimilinu okkar gamla og selja blóm til fjáröflunar fyrir byggingu Mettubúðar.

Hún kom að Vetrargleðinni, Færeyskum dögum, Ólafsvíkurdögum og svo mörgu öðru enda dugleg og með sína jákvæðu sýn á að allt væri hægt ef við tækjum saman höndum og létum hendur standa fram úr ermum. Hún var einnig í mörgum nefndum fyrir bæjarfélagið.

Við unnum saman í 10 ár á Heilsugæslustöðinni í Ólafsvík hún var þar heilbrigðisritari og var mjög fær í sínu starfi. Alltaf var hægt að leita ráða og fá hjálp frá henni og glaðværð hennar og hlátur var svo beint frá hjartanu.

Þegar ég var flutt til Reykjavíkur og Munda var komin með blómabúðina sína var það vaninn að stoppa í Blómaverki og fá faðmlag og fréttir af fólkinu okkar og rabba smá um stelpurnar okkar lífið og tilveruna og gang mála í bænum.

Ég kom aldrei að tómum kofunum hjá Mundu, hún var lausnamiðuð og ráðagóð þegar leitað var til hennar.

Munda og Siggi voru eitt, hún studdi hann við tónlistina og hann hana við það sem hún tók sér fyrir hendur.

Öllu er afmörkuð stund, nú er hún Munda okkar farin í Sumarlandið þar sem fegurstu blómin vaxa.

Vertu sæl og takk fyrir samveruna,

Kolbrún (Kolla).

Elsku Munda. Lífið getur verið óútreiknanlegt. Erfitt er að horfa á eftir einstakri mágkonu og vinkonu eins og þér. Vinátta þín og stuðningur var mér mikils virði og þakklát er ég þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur Lauga og mun ég ávallt minnast þess. Missirinn er mikill og votta ég Sigga, dætrum og barnabörnum mína dýpstu samúð. Megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur kæra fjölskylda.

Með þessum orðum kveð ég þig að sinni:

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta,

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Hjördís Jónsdóttir.

Fyrir rúmlega hálfri öld varð þorpið okkar Ólafsvíkinga svo lánsamt að í það flutti falleg, góð, greind, kærleiksrík, kraftmikil, ósérhlífin og umfram allt glöð ung stúlka. Þetta var hún Munda Wíum. Ég var ein þeirra heppnu sem eignuðust vináttu hennar. Við byrjuðum að vinna saman í sundlaug Ólafsvíkur árið 1972 og þá varð ekki aftur snúið. Harðfiskur með miklu smjöri var byrjunin. Steinbíturinn beit okkur saman. Fimmtán ára krakkinn ég kynntist og eignaðist strax vin sem aldrei brást. Munda var alltaf með opinn faðminn. Margar á ég minningarnar um samverustundir sem einkenndust af gleði og kraftmiklum umræðum. Hún gat verið beinskeytt þegar við átti og lét mig þá stundum heyra það. Það var alltaf rétt hjá henni. Enda hokin af reynslu þrátt fyrir ungan aldur.

Hún umvafði mig kærleika og krafti þegar ég gekk með frumburðinn minn hann Hermann Marinó sem síðan varð samstarfsmaður og vinur Mundu á Heilsugæslustöðinni í Ólafsvík. Kraftakonan og gleðigjafinn stóð fyrir mörgum lista- og menningarviðburðum í Ólafsvík. Munda vildi hafa það skemmtilegt og hún lét aldrei sitt eftir liggja í orði og verki. Vann af ósérhlífni þau verkefni sem hún tók sér fyrir hendur og landaði þeim með reisn.

Munda er dáin. Það er óraunverulegt. Munda kvaddi á sjúkrahúsinu á Akranesi með ástina í lífi sínu sér við hlið. Sársaukafull en falleg mynd.

Nú horfi ég á eftir elsku Mundu minni. Ég sé hana fyrir mér í Sumarlandinu, þeytast um í skrautlegri skyrtu og leggingsbuxum, með bros á vör, berfætta og alltaf sjóðandi heitt.

Ég kveð elsku Mundu og þakka fyrir mig. Ljósið þitt lifir.

Sigga, Guðlaugu, Siggu, Eygló, barnabörnunum öllum sendi ég samúðarkveðjur. Guð veri með ykkur.

Hvers virði er allt heimsins prjál

ef það er enginn hér sem stendur kyrr

er aðrir hverfa á braut, sem vill þér gjarnan vel

og deilir með þér gleði og sorg.

Þá áttu minna en ekki neitt ef þú átt engan vin.

Hvers virði er að eignast allt

í heimi hér, en skorta þetta eitt

sem enginn getur keypt? Hversu ríkur sem þú telst,

hversu fullar hendur fjár,

þá áttu minna en ekki neitt ef þú átt engan vin.

Það er komin vetrartíð með veður köld og stríð,

ég stend við gluggann, myrkrið streymir inn í huga minn.

Þá finn ég hlýja hönd, sál mín lifnar við

eins og jurt sem stóð í skugga en hefur aftur litið ljós,

mín vetrarsól.

(Ólafur Haukur Símonarson)

Maggý Hrönn.