Guðfinna Helgadóttir fæddist í Reykjavík 12. ágúst 1925. Hún lést 26. desember 2019.

Foreldrar hennar voru Helgi Guðmundsson kirkjugarðsvörður, f. 1889, d. 1961, og Engilborg Helga Sigurðardóttir húsfreyja, f. 1896, d. 1957. Systkini Guðfinnu voru: Þóra Sigríður, f. 1918, Sigurður Jóhann, f. 1923, Hörður, f. 1927, Helgi Hrafn, f. 1928, og Atli, f. 1930, Stefnir, f. 1930. Guðfinna var ein eftirlifandi systkinanna.

Guðfinna giftist 1947 Sigurgeiri Svanbergssyni, f. 6. júní 1924, d. 6. september 2007. Börn Guðfinnu og Sigurgeirs eru 1) Edda, f. 1947, maki Þórður Kristinsson. Börn Eddu eru 1) Kristinn, f. 1966. 2) Guðfinna Helga, f. 1968. 3) Sigurgeir, f. 1973. 4) Edda Björg, f. 1981. 2) Helgi, f. 1949, maki Gerður Garðarsdóttir. Börn Helga eru 1) Guðríður Hrund, f. 1975. 2) Helga Dröfn, f. 1979. 3) Svanberg, f. 1950, maki Rannveig Ása Reynisdóttir. Börn Svanbergs eru 1) Reynir Elís (fóstursonur). 2) Sigurgeir, f. 1990.

Guðfinna og Sigurgeir slitu samvistum.

Seinni maður Guðfinnu var Guðjón Kristjánsson, f. 6. september 1924, d. 4. maí 2001. Sonur þeirra er Gunnar, f. 1964. Barn Gunnars er Heiða Lovísa, f. 2012. Til viðbótar á Guðfinna 12 barnabarnabörn og 2 barnabarnabarnabörn.

Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 10. janúar 2020, klukkan 11.

Nú er komið að kveðjustund. Okkur langar að minnast ömmu okkar, Guðfinnu Helgadóttur eða Snúllömmu eins og við kölluðum hana, í fáum orðum. Stundirnar með ömmu voru okkur ómetanlegar. Hvað hún gladdi okkur með umhyggju sinni og áhuga á hverju því sem við tókum okkur fyrir hendur. Þegar barnabarnabörnin komu í heiminn sýndi hún þeim einnig mikinn áhuga, trúði því að þau næðu öllum markmiðum sínum og gæddi sér oft á súkkulaði með þeim. Listaverkin í formi hannyrða sem hún vann og gaf okkur sýndu hversu hæfileikarík hún var. Hannyrðir hennar prýða okkar heimili og munu ávallt minna okkur á hana.

Guð geymi Guðfinnu ömmu.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Guðríður Hrund Helgadóttir og Helga Dröfn Helgadóttir.

Elsku kaffi-amma.

Skrítið er að þú sért ekki hjá okkur lengur en vonandi ert þú búin að finna friðinn. Jafnvel þótt minni þínu hafi farið hrakandi mundir þú alltaf eftir mér þegar ég kom í heimsókn til þín og sagði: „Hæ, kaffi-amma“, en það var ég vön að kalla þig frá fyrstu tíð, enda fékk ég alltaf að hjálpa þér við að leggja á borð þegar ég kom með ömmu og afa í heimsókn til þín.

Ég mun sakna þín mikið og engar áhyggjur, ég mun halda áfram að ná markmiðum mínum.

Fósturlandsins Freyja,

fagra vanadís,

móðir, kona, meyja,

meðtak lof og prís.

Blessað sé þitt blíða

bros og gullið tár.

Þú ert lands og lýða

ljós í þúsund ár.

(Matt. Joch.)

Gerður Eva.