Sigurþór Hjartarson fæddist 3. ágúst 1937 í Dalbæ í Gaulverjabæjarhreppi, sem nú heitir Flóahreppur. Hann lést á Hrafnistu Nesvöllum, Reykjanesbæ 20. desember 2019. Foreldrar hans voru Guðlaug Narfadóttir úr Hafnarfirði og Hjörtur Níelsson frá Bjarneyjum á Breiðafirði. Sigurþór var yngstur í sjö systkina hópi. Öll eru þau látin nema Narfi, fæddur 1932. Sigurþór fluttist til Reykjavíkur ásamt fjölskyldu sinni 10 ára gamall. Sigurþór lærði rafvirkjun og hóf störf sem rafvirki á Dettifossi og svo Laxfossi. Árið 1965 kynnist Sigurþór eftirlifandi eiginkonu sinni, Bergljótu Sigurvinsdóttur frá Keflavík, fædd 13. ágúst 1942. Þau giftu sig 7. sept. 1968. Þau eignuðust tvö börn: 1) Júlíus Sigurþórsson, f. 9 júlí 1973. Sambýliskona Justyna Kosinska, f. 14. des. 1978. Júlíus var áður í sambúð með Álfhildi Eiríksdóttur og á með henni eina dóttur: a) Jóhanna Dagný Júlíusdóttir, f. 4. ágúst 2003. 2) Hulda Sigurþórsdóttir, f. 26. júní 1978. Eiginmaður Guðjón Örn Emilsson, f. 30. nóv. 1976. Börn þeirra: a) Guðrún Erla Guðjónsdóttir, f. 8. des. 2000. b) Sigurþór Örn Guðjónsson. f. 11. okt. 2005. Eftir að þau hjónin hugðu á barneignir hætti Sigurþór á sjónum og hóf störf hjá Landsvirkjun og vann þar til eftirlaunaaldurs. Lengst af á hjúskaparferlinum bjuggu þau hjónin í Mosfellsbæ og var Sigurþór þar virkur í félagsstörfum, Rótarýklúbbi Mosfellsbæjar og einn af stofnfélögum Golfklúbbsins Kjalar. Sigurþór verður jarðsunginn frá Keflavíkurkirkju í dag, 10. janúar 2020, og hefst athöfnin klukkan 13.

Nú hefur pabbi minn kvatt þessar veiðilendur og er haldinn á vit nýrra ævintýra á nýjum stað.

Ég er viss um að hann verður fullar af áhugaverðum ævintýrum eins og við áttum saman.

Þar verða vötn sem eru eins og litla leynivatnið okkar, þar sem bændurnir hlógu að okkur þegar við fengum leyfi til að veiða þar, þarna hefði aldrei veiðst og væri enginn fiskur, en bleikjurnar reyndust svo vænar að vísindamenn fengu nokkrar hjá okkur til að kanna hvort þar væri tækifæri til að kynbæta eldisbleikju.

Ég er viss um að laxinn mun taka eins og hrygnan sem tók túpuna á breiðunni og allur hylurinn ólgaði á meðan hún streittist við, þá brostir þú hringinn þegar hún var komin á land.

Einnig skemmtilegar uppákomur eins og fjögurra punda hængurinn sem tók í þriðja kasti í Hafravatni þegar þú ætlaðir að sýna okkur peyjunum, sem vorum búnir að vera við veiðar allan daginn, hvað þú gætir kastað langt með kaststönginni.

Þá er ég viss um að gæsalendurnar reynast gjöfular og flugið eins og þegar við vorum saman í rokinu og hóparnir komu svo ört inn að ekki gafst tími til að safna bráðinni.

Og nánast öll skot hittu í mark.

Einnig verða iðjagrænir golfvellir sem bíða, eins og þegar við fórum saman einn morguninn á Spáni; logn, passlega hlýtt og við höfðum völlinn fyrir okkur. Og þeir slökktu bara á vökvunarkerfunum þegar við spiluðum brautirnar.

Á nýjum stað verða veitingastaðirnir eins flottir og þegar Villi bauð okkur út að borða í Kína; tuttugu þjónar í rauðum jökkum að snúast í kringum okkur og sjö manna hljómsveit sá um dinnertónlistina.

Þau eru ótal fleiri skemmtilegu ævintýrin og ferðirnar sem við fjölskyldan fórum saman og eru yndislegar sögur til að rifja upp á köldum vetrarkvöldum um ókomna tíð.

Er líða fer á morguninn

læðist hann inn

með koddann sinn

kötturinn hann Júlli minn

(Sigurþór Hjartarson)

Takk fyrir allt og takk fyrir gott veganesti út í lífið.

Þinn sonur,

Júlíus.

Elsku besti pabbi minn er farinn. Ég hef alla tíð verið mikil pabbastelpa. Pabbi var alltaf svo hress og skemmtilegur og gaman að spjalla við hann. Mér eru minnisstæðar ferðirnar okkar á ruslahauganna í Mosó þar sem eitthvað nýtilegt fékk stundum fljóta með heim. Pabbi var mikil félagsvera og dellukarl, hann var í Rótarýklúbbi Mosfellsbæjar og einn af stofnendum golfklúbbsins Kjalar í Mosfellsbæ. Hann eyddi miklum tíma í sjálfboðavinnu við golfklúbbinn og golfvöllinn, lagði allt rafmagn í golfskálann og plantaði tjám. Pabbi var fljótur að tileinka sér nýjungar hér áður fyrr. Þráðlaus sími, faxtæki, tölva og gsm-sími var komið strax inn á okkar heimili. Pabbi kenndi mér að fara vel með peninga og sagði oft: „Þetta heitir ekki níska heldur hagsýni.“ Pabbi var alltaf orðheppinn og með gælunöfn á marga. Fyrsta gælunafnið sem ég fékk var „heimasætan“ og svo kom „happarófa“. Krakkarnir í götunni voru „Hulduherinn“ og á gelgjuskeiðinu urðum við vinkonurnar „glæturnar“. Orðið „glætan“ var ofnotað af okkur skvísunum. Pabbi hafði einstaklega gaman af að veiða, bæði silung, lax og gæsir. Einnig þótti honum gaman að ferðast. Við ferðuðumst mikið sem fjölskylda bæði innanlands og erlendis, og einnig ferðuðust mamma og pabbi mikið saman tvö. Eftir að ég stofnaði mína eigin fjölskyldu héldum við áfram að ferðast með mömmu og pabba innanlands. Sumarhúsið hjá Steingrímsstöð var mikið leigt, en þar var bæði hægt að veiða silung og spila golf. Ég gleymi því seint þegar Guðjón minn var kominn með stóran silung á öngulinn hvað pabbi var stressaður og reyndi eftir bestu getu að kenna Guðjóni að þreyta og landa honum, sem hafðist. Eftir að við byrjuðum að byggja húsið okkar hjálpaði pabbi Guðjóni að leggja allt rafmagn í húsið, og eftir að mamma og pabbi fluttu nær okkur gátu krakkarnir okkar komið heim til ömmu og afa eftir skóla. Eitt sinn missti dóttir mín stígvélið sitt í skafli á leiðinni og kom heim til ömmu og afa með eitt stígvél. Pabbi gekk leiðina í skólann í marga daga á eftir að leita að stígvélinu og á endanum fann hann það. Pabbi sótti líka son minn og nafna sinn í leikskólann, en pabbi var mjög stoltur að fá nafna. Pabbi samdi vísu um nafna sinn.

Flott eru barnabörnin,

brosandi út á kinn.

Þótt hann sé þriðji örninn,

þá er hann nafni minn.

(Sigurþór Hjartarson)

Elsku besti pabbi minn, takk fyrir allt! Hvíl í friði. Þín elskandi einkadóttir,

Hulda.