Arnhildur Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 20. febrúar 1931. Hún lést á líknardeildinni í Kópavogi 26. desember 2019.

Foreldrar hennar voru Arnþrúður Bjarnadóttir húsfreyja, f. 1898, d. 1955, og Jón Bergsson, búfræðingur á Korpúlfstöðum og síðar bifreiðastjóri í Reykjavík, f. 1883, d. 1959.

Samfeðra systkini Arnhildar voru Elín, Katrín og Bergur og alsystkini Bjarni, Þórður og Erlingur. Þau eru öll látin.

Arnhildur giftist Sigurði Kjartanssyni frá Höfn í Hornafirði, f. 24. maí 1926. Þau eiga þrjú börn, Helgu, f. 1951, Kjartan Örn, f. 1953, og Sigurborgu, f. 1957. 1) Helga á þrjú börn, Kolbein, Jökul og Arnhildi Evu, með fyrrverandi eiginmanni sínum Steinþóri Steinþórssyni. 2) Kjartan Örn á fimm börn, Gretti og Sigurð, með fyrrverandi eiginkonu sinni, Margréti Grettisdóttur, Tinnu Dögg, með fyrrverandi sambýliskonu sinni, Herdísi Karlsdóttur, og Matthías og Hjálmar Inga, með núverandi eiginkonu sinni Svanborgu Matthíasdóttur. 3) Sigurborg á þrjú börn með eiginmanni sínum Sigurði Þorsteinssyni, Arnar, Sigurlaugu og Elvar Pál.

Barnabarnabörnin eru tólf að tölu.

Arnhildur og Sigurður voru meðal frumbyggja Kópavogs. Þau byggðu sér einbýlishús á Þinghólsbraut 34 sem nú er Þinghólsbraut 40. Í kjallara hússins var Sigurður fyrstu árin með raftækjavinnustofuna Rafgeisla, sem hann stofnaði ásamt vini sínum. Arnhildur sá um börnin og heimilið. Hún hafði mikinn áhuga á leiklist og lék í nokkur ár hjá Leikfélagi Kópavogs sem var áhugamannafélag. Þegar börnin þrjú uxu úr grasi hóf Arnhildur nám í Leiklistarskóla Reykjavíkur (LR) hjá Sveini Einarssyni. Hún útskrifaðist þaðan 1967.

Arnhildur vann síðan sem leikkona, bæði á sviði, í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Hún lék í kvikmyndinni Paradísarheimt 1980, Húsinu 1982, Dagvaktinni 2008, Ófærð 2018 og í stuttmyndinni Nema hvað 2019. Auk þess vann hún við að leikstýra úti á landi og hélt námskeið í framsögn og leiklist í skólum. Í nokkur ár vann hún sem kennari í lestri í Kársnesskóla í Kópavogi.

Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 10. janúar 2020, klukkan 15.

Tíminn flýgur, minningar verða til, sumt festist betur í minni en annað. Ég á bara góðar minningar um góða tengdamóður, góða ömmu og góða langömmu. Það er ekki sjálfgefið. Það sem skipti Arnhildi mestu máli var mikilvægi þess að halda vel utan um fjölskylduna, lifa fyrir þá sem standa manni næst, elska og virða áhuga hvers og eins, hvað sem hann tekur sér fyrir hendur – ef metnaður og staðfesta fylgir.

En eitt var það sem tengdamóðir mín gat aldrei skilið. Henni var fyrirmunað að skilja að nokkur maður hefði áhuga á fótbolta, hvað þá að spila hann. Þar stóð hún fast á sínu. Hún stóð reyndar oft fast á sínu. Og það var hennar styrkur. Ég rökræddi aldrei við hana. Vissi alltaf að þar myndi ég bíða lægri hlut.

Leiklist var ástríða Arnhildar. Þær voru ófáar sýningarnar sem hún setti upp fyrir hin ýmsu leikfélög. Mörg voru hlutverkin á leiksviði, í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, nú síðast í Ófærð II. Alltaf var hún til í að lesa upp við hin ýmsu tækifæri, ljóð eða kafla úr skáldsögu. Það var ljúft að hlusta á hana.

Það eru rúmlega 40 ár frá því að ég var boðinn velkominn á heimili Arnhildar og Sigurðar á Þinghólsbrautinni. Þau tóku mér einstaklega vel. Þau hafa stutt fjölskyldu mína af heilindum. Og hvað getur maður beðið um meira? Tengdapabbi; megi Guð styrkja þig í þinni sorg og það veit ég að börn þín og tengdabörn verða til staðar fyrir þig.

Höfðingsskapur öll þín ár,

ávallt trú varst þínu.

Þig ég kveð og þerra tár

þakkar sendi línu.

Sigurður Þorsteinsson.

Kær vinkona okkar, Arnhildur, hefur fengið hvíldina eftir erfið veikindi.

Við höfum verið samferða henni í rúm 35 ár. Það byrjaði með leikfimi í Kramhúsinu ásamt stórum hóp kvenna sem smám saman dróst saman í 25 manna hóp, „Lellurnar“. Adda kom ásamt leiklistarskólasystrum sínum inn í hópinn, aðrar komu inn með ýmsum vinkonum sínum. Hópurinn er því samansettur af ólíkum, skemmtilegum og sterkum konum.

Við höfum ásamt mökum okkar farið í fjölmargar ógleymanlegar ferðir, bæði innanlands og utan. Haldið upp á mörg tilefni eins og afmæli, jól, þorrann og sumarið á Íslandi um allar sveitir. Þar hefur Adda margsinnis komið fram, lesið upp falleg ljóð og sögur. Síðasta ferðin okkar í ágúst sl. var að Flúðum og fannst henni ekkert mál að keyra sjálf austur ef á þyrfti að halda.

Síðasta jólagleðin okkar var 14. desember sl. Þar mætti hún og las upp m.a. kvæðið Ferðalok. Ekki grunaði okkur að hún væri orðin svona veik, en eftir á að hyggja hefur hún líklega verið að kveðja. Nú væri komið að lokum ferðarinnar á þessari jörð.

Adda og Siggi voru afar gestrisin og höfum við nokkrum sinnum verið boðin í mat í bústaðinn upp við Esjurætur en þar áttu þau fallegt og notalegt skjól fyrir sig og hesta sína. Þau voru mikið hestaáhugafólk og fóru í langa reiðtúra með þeim vinahóp. Kjötsúpan hennar Öddu í bústaðnum var vinsæl, brauðin hennar sem hún bakaði fyrir þorrablótin okkar var bara hægt að fá frá Öddu.

Síðasta matarboð hjá þeim hjónum var þegar við „Lellurnar“ komum heim úr tveggja daga ferð fyrir þremur árum, þau hjónin voru búin að undirbúa glæsilegan kvöldverð og þannig lukum við þessari dásamlegu ferð um Borgarfjörðinn.

Adda var andlega þenkjandi og marga hefur hún nuddað til að létta á ýmsum kvillum þeirra. Þótti mörgum notalegt að koma til hennar og fengu um leið talnaspá sem hún hafði mikinn áhuga á. Það var einhver ævintýrablær yfir Öddu sem klæddist vanalega síðum pilsum, með sitt síða dökka hár og fór ekki troðnar slóðir. Málverkið sem Baltasar málaði af henni sýnir vel karakterinn.

Nú kveðjum við hana með söknuði og minnumst hennar með hlýju. Vottum Sigurði og fjölskyldunni innilegustu samúðarkveðjur.

Heba og Guðný.

Heba Guðmundsdóttir.

Arnhildur var elst okkar stelpnanna sem útskrifuðumst úr Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur vorið 1967. Nú er hún þriðja úr hópnum sem fellur frá, áður voru látnir Daníel og Guðmundur. Hún var alltaf eins konar móðir hópsins, bauð öllum heim til sín og Sigurðar þegar við útskrifuðumst og líka síðar þegar við héldum upp á útskriftarafmælið. Hún var alin upp í áhugaleikhúsinu í Kópavogi og tók þar þátt í mörgum sýningum. Einlægur áhugi hennar á leikhúsi var smitandi og djúpstæður og stór hluti af lífi hennar alla tíð.

Þessi hópur var frekar uppivöðslusamur og mörg okkar tilheyrðu róttækum stefnum þessa tíma. Arnhildur átti ekkert endilega heima þar, en eigi að síður var hún alltaf ákveðið akkeri í hópnum, hlý og áhugasöm og alltaf tilbúin í umræður um samfélagsmál. Það var hún líka síðast þegar við hittumst, þ.e. þau af okkur sem voru á landinu árið 2017, þegar við héldum upp á 50 ára útskriftarafmælið. Sannarlega hafði hún margt að segja; um samfélagið, lífið og tilveruna, og þessi kvöldstund okkar er ógleymanleg. Hún var líka býsna hress þegar þau Siggi mættu í afmæli skólastjórans okkar Sveins Einarssonar niðri í Tjarnarbæ sl. haust. Ekki átti maður von á því þá að hún ætti svona skammt eftir.

Arnhildur tók þátt í fjöldamörgum sýningum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Mér er minnisstæðast þegar hún var með okkur í Poppleiknum Óla, því brautryðjandaverki, þar sem hún tók einlægan þátt í allri vitleysunni sem okkur datt í hug. Hún var alltaf heil og sönn í hverju sem hún tók sér fyrir hendur. Við sem útskrifuðumst með henni sendum Sigurði og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur og minnumst Arnhildar með hlýju og virðingu. Nú er höggvið skarð í þennan hóp. Blessuð sé minning Arnhildar.

Fyrir hönd útskriftarárgangs LR 1967,

Þórunn, Edda, Jóhanna,

Solveig, Soffía og Erlendur.