Áður hefur verið fjallað í ritstjórnargreinum um „collateral damage“ (saklausir fylgifiskar „nauðsynlegra“ aðgerða) sem iðulega hafa fylgt árásum hers eða leyndarþjónustu fyrr og síðar. Í þeim tilvikum er iðulega átt við fólk sem verður fórnarlömb í árás þótt fyrirfram hafi verið ljóst að þannig kynni að fara. En „kalt mat“ hafi réttlætt fórnarkostnaðinn.

Áður hefur verið fjallað í ritstjórnargreinum um „collateral damage“ (saklausir fylgifiskar „nauðsynlegra“ aðgerða) sem iðulega hafa fylgt árásum hers eða leyndarþjónustu fyrr og síðar. Í þeim tilvikum er iðulega átt við fólk sem verður fórnarlömb í árás þótt fyrirfram hafi verið ljóst að þannig kynni að fara. En „kalt mat“ hafi réttlætt fórnarkostnaðinn.

Ekki er lengur um það deilt í Bandaríkjunum að Trump, forseti Bandaríkjanna, var innan sinna valdheimilda þegar hann tók ákvörðun um að færi sem opnaðist skyldi nýtt til að bana Soleimani, einum æðsta foringja Byltingarvarða Írans, sem hafði þess utan stjórnað fjölda aðgerða utan Írans til að koma óvinum þess fyrir kattarnef og auðvitað með tiheyrandi manntjóni „fylgifiska“. Demókratar í kosningaham reyndu að klína morði á borðalögðum herforinga á Trump og sektin fólst í heimildarskorti. Trump hefði átt að koma á fundi með þingmönnum á meðan bílalest skotmarksins þaut áfram frá flugvellinum í Bagdad. En fljótlega var rifjað upp að Obama forseti tók á þriðja þúsund slíkar ákvarðanir og þeir sem drónar hans felldu voru iðulega ekki nægilega merkilegir til að þeir væru nafngreindir opinberlega. Valdatími Obama hefði ekki dugað honum til þessarar starfsemi ef hann hefði þurft að kalsa þessi manndráp fyrir þingheimi. Og norska nóbelsnefndin hefur ekki gert athugasemd við þessa starfsemi handhafa friðarverðlauna hennar.

En svo gerist það einnig að ekki er um „fylgifiska réttlætanlegra fórnarlamba“ að ræða. Þá eru það óðagot, mistök eða dómgreindarleysi þeirra sem í tímanauð á spennutímum þurfa að taka hrikalegar ákvarðanir sem reynast mundu óverjanlegir glæpir væru þær viljaverk.

Nú bendir flest til þess að hernaðaryfirvöld í Teheran hafi skotið niður farþegaflugvél frá Úkraínu örfáum mínútum eftir að hún tók á loft. Ekki er mjög langt síðan farþegaflugvél frá Malaysian Airlines á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur var skotin niður yfir Úkraínu með 299 manneskjur innanborðs. Enn er deilt um hver beri ábyrgðina á þeim hryllingi og hvort þar hafi verið um hreint viljaverk að ræða eða mistök af einhverju tagi.

Auðvitað er það svo að erfitt er að ímynda sér að þótt grimmustu stríðsherrar eigi í hlut, þá ákveði þeir viljandi að farga farþegaflugvél með fleiri hundruð manns innanborðs. En vegna atviksins í Teheran í vikunni þá minnir það á atvik sem varð 3. júlí 1988. Þá grandaði flaug frá bandarísku herskipi stórri íranskri Airbus-farþegaflugvél yfir Hormússundi með nærri 300 farþega innanborðs. Þetta gerðist á seinasta hálfa ári valdaskeiðs Ronalds Reagans sem forseta. Forsetinn skrifaði stjórn Írans bréf og sagðist hryggur og harmi sleginn vegna þessa atviks. En lengi áfram var þó um það deilt hvort skipherrann á herskipinu hefði verið í góðri trú eða bæri ábyrgð á þessu ógnvænlega óhappaverki eða jafnvel einhverjir aðrir hærra í valdakerfinu. Mennirnir í brúnni töldu að depillinn sem þeir sáu á sínum skjám sýndi herflugvél úr flugher Írana sem stefndi beint á herskipið.

Þótt fjendur eigist við á válegustu tímum ætti það að vera meginregla, öllum í hag, að rannsaka slíka atburði í þaula, annaðhvort saman eða með atbeina hlutlausra aðila sem báðir teldu sér óhætt að treysta. Það er mikilvægt fyrir alla sem eiga í hlut að fá hið sanna í ljós og þá auðvitað fyrst og síðast aðstandendur og landa þeirra sem láta lífið svo fyrirvaralaust og með svo óhugnanlegum hætti.